Eru samfélagsmiðlar að ræna sjálfsmynd unglinga?

Samfélagsmiðlar eru orðnir að sjálfsögðum hlut í lífi flestra og eru unglingar þar engin undantekning. Unglingar eru mjög virkir notendur á samfélagsmiðlum og eyða þeir miklum tíma á þeim. Vegna þessa velti ég því fyrir mér hvort það sé gott fyrir sjálfsmynd þeirra. Vinsælustu samfélagsmiðlarnir sem unglingar nota í dag eru Facebook, Snapchat, Instagram og Twitter. Það er ótrúlegt að sjá hvað það er mikið af unglingum sem eru undir áhrifum samfélagsmiðla og hvaða slæmu áhrif það getur haft á þau. Mótun sjálfsmyndar hjá unglingum getur verið mjög flókin og margir hlutir spila þar inní.

Áhrifavaldar spila stóran part á samfélagsmiðlum og geta þeir haft mikil áhrif á líf fólks, eins og við höfum séð undanfarið. Þegar einhver Snapchatari mælir með veitingarstað þá eru allir mættir þangað en þeir sýna oft ekki sannleikann eða rétta mynd af sér. Það gefur unglingum oft villandi skilaboð og fá þeir oft ranghugmyndir sem leiða til þess að þau eru óánægð með sjálf sig. Áhrifavaldar eiga það einnig til að ýta undir þá hegðun að það sé ekkert mál að breyta myndunum sínum eða ef þú ert óánægður með einhvern líkamspart þá er ekkert mál að laga hann með lýtaaðgerðum eða megrunarkúrum. Samfélagsmiðlar eru að setja óraunhæfar kröfur á unglinga og þess vegna eru svona margir sem hafa áhyggjur af útliti sínu sem leiðir til lélegrar sjálfsmyndar.

Margir unglingar reyna að bæta sjálfstraust sitt með því að birta myndir af sér á samfélagsmiðlum en þar spilar ákveðinn kvíði inní, kvíðinn við að fá ekki nóg af lækum á myndina. Ég sjálf hef glímt við þetta vandamál og það bætir að sjálfsögðu ekki sjálfstraustið þegar maður birtir mynd af sjálfum sér og fær lítil viðbrögð. Unglingsstelpur þurfa oft samþykki frá vinkonum sínum til að hafa kjark í að birta myndir af sér. Sjálf hef ég fengið myndir frá vinkonum mínum og sömuleiðis sent á þær til að fá álit um hvort að myndin sé nógu flott til þess að birta hana á þeim samfélagsmiðlum sem ég nota. Það er óásættanlegt að þurfa að líta niður á sjálfan sig og þurfa að fá samþykki frá öðrum til að líða vel. Góð sjálfsmynd er mikilvæg fyrir alla og stuðlar hún að vellíðan en léleg sjálfsmynd getur aftur á móti leitt til vanlíðanar, þunglyndis o.fl.

Það er greinilegt að að notkun á samfélagsmiðlum hjá unglingum er að hafa áhrif á sjálfsmynd þeirra. Þrátt fyrir að samfélagsmiðlar geta verið góður vettvangur til að tjá sig geta þeir einnig valdið streitu og kvíða hjá unglingum sem getur haft áhrif á sjálfsmyndina. Það er mikilvægt að upplýsa alla þá sem koma að unglingum, þá helst forráðamenn þeirra um skaðsemi samfélagsmiðla svo hægt sé að grípa til aðgerða til að minnka skaðann. Við sem erum fyrirmyndir fyrir unglinga þurfum að stuðla að því að unglingar viti hættuna sem er á bak við samfélagsmiðla og kenna þeim að nota þá rétt. En hvernig notum við þá rétt? Við getum byrjað á því að minnka okkar notkun á samfélagsmiðlum, frætt ungt fólk og forráðamenn þess um hætturnar sem liggja á bak við samfélagsmiðla og hvaða áhrif þeir geta haft á ungt fólk í dag.

Sunneva Mist Ingvarsdóttir