Þarf að flokka fólk eftir kynhneigð?

Ég hef oft velt því fyrir mér afhverju við þurfum að flokka eða skilgreina kynhneigð okkar. Ég hef oft heyrt frá fólki „helduru að þessi sé lessa?“ eða „það kæmir mér ekkert á óvart ef hún væri lessa“. Kynhneigð fólks kemur öðrum ekkert við og fólk á að fá að elska þá sem þau elska.

Það er oft talað um að það sé mikill léttir fyrir einstaklinga að koma loksins út úr skápnum og eru jafnvel búin að gera sitt besta að fela kynhneigð sína í mörg ár og hafa loksins kjarkinn til að koma út og segja öðrum frá. Þessir einstaklingar þurfa stundum að koma nokkrum sinnum út úr skápnum og má þá nefna fyrir foreldrum sínum, vinum og samstarfsfélögunum sínum. Persónulega finnst mér að einstaklingar eigi ekki að þurfa að koma út úr skápnum því aldrei væri gerð krafa á gagnkynhneigðan einstakling að tilkynna kynhneigð sína. Það sama á að gilda um samkynhneigða. Að mínu mat eiga einstaklingar ekki að þurfa að tilkynna kynhneigð sína, sama hver hún er. Ég sjálf er tvíkynhneigð og eru ekki allir af mínum vinum sem vita það því það hefur ekki komið upp í umræðu. Fjölskyldan mín og þeir vinir sem vita þetta, vita það vegna þess það hefur komið upp í umræðunni og er ég ekkert að fela það að ég sé tvíkynhneigð. Ég man mjög vel eftir því þegar ég og vinkona mín vorum að tala um þetta þá sagði hún „nenniru ekki að klæða þig eins og lessa“.

Í samfélaginu eru staðalímyndir um hvernig samkynhneigt fólk klæðir sig og eru þetta fordómar og fáfræði hjá fólki. Ef ég klæði mig í ákveðnar buxur eða peysu er ég þá lessa? Hinseginleikinn á Snapchat hefur frætt mig mikið um kynhneigð. Ég man enn þegar einn einstaklingur sagði að foreldrar þurfa líka tíma þegar einstaklingur kemur út úr skápnum eins og einstaklingurinn þarf tíma til að finna sig. Fyrir suma er mjög erfitt að segja foreldrum sínum því að þau ólust upp við það að það væri aðeins ein kynhneigð og þekkja því ekki hin hugtökin.

Stígamót var með herferð sem heitir Sjúk ást og eru þau að krefjast betri kynfræðslu. Þau senda ákall til ráðherra menntamála um bætta kynfræðslu í skólum. Einn punktur hjá þeim finnst mér einn af þeim mikilvægustu til að bæta kynfræðslu í skólum, hann er:

„Í dag er mest áhersla á líffræðilega hlið kynfræðslu, svo sem þunganir, æxlunarfæri og kynsjúkdóma, en lítil krafa er gerð um fræðslu um samskipti, tilfinningar, mörk, sjálfsmynd, kynverund, kynhneigð og ofbeldi.“

Ég bind vonir við að þetta fari í gegn og krakkar í dag fái betri fræðslu um alla þessa þættir því þeir eru allir mikilvægir. Þegar ég var í grunnskóla hefði ég vilja fá þessa fræðslu. Hægt er að fræðast betur um þessa herferð á sjukast.is.

Þegar ég hugsa til framtíðar þá vona ég að það verði ekki þörf á að samkynhneigt fólk tilkynni sérstaklega kynhneigð sína. Allir einstaklingar í heiminum eigi að getað elskað þá sem þau elska óháð kyni eða kynhneigð.

Helga Kristín Braga Geirsdóttir