Erum við góðar fyrirmyndir?

Í nútímasamfélagi þá eigum við flest öll snjallsíma eða snjalltæki og flest okkar eru með einhver af eftirfarandi öppum hjá okkur; Facebook, Snapchat, Instagram og TikTok. Við sem fullorðin erum ættum að geta lesið á milli raunveruleikans og þeirrar glansmyndar sem oft er sett á samfélagsmiðla. Við vitum að ekki er allt sem sýnist en hvað með ungmennin okkar? 13 ára aldurstakmark er á þessi forrit en margir eru komnir með aðgang áður en þeir ná þeim aldri. Eru börnin okkar og ungmenni fær um að geta greint á milli raunveruleikans og glansmyndarinnar sem birtist á samfélagsmiðlum?

Lesa meira “Erum við góðar fyrirmyndir?”

Eru áhrifavaldar að sýna gott fordæmi?

Ungmennin okkar í samfélaginu lifa í svo óraunverulegum heimi og undir mikilli pressu frá aðallega samfélagsmiðlum. Um er að ræða þessa áhrifavalda sem eru að valda mesta kvíðanum hjá ungmennum í dag. Áhrifavaldar eru að sýna frá lífi sínu, gefa afsláttarkóða þegar þau auglýsa vörur og allskonar sem er ekki raunin en ungmennin skilja það ekki því þau hafa ekki lifað við annað heldur en þetta neikvæða samfélagsmiðlalíf sem er nú til dags og þá telja þau bara að áhrifavaldar séu sínar helstu fyrirmyndir út frá aðallega tískunni. Lesa meira “Eru áhrifavaldar að sýna gott fordæmi?”

Valdefling eða ekki?

Myndin Hækkum Rána hefur mikið verið í umræðunni síðustu vikur og réttilega svo. Myndin fjallar um ungar stúlkur á aldrinum 8-13 ára og þjálfara þeirra Brynjar Karl Sigurðsson. Þjálfarinn notar ýmsar umdeildar aðferðir sem ekki aðeins teljast óæskilegar en einnig taldar hættulegar vegna langvarandi áhrifa á ungmenni og börn. Brynjar Karl er körfuboltaþjálfari með margra ára reynslu og hefur náð miklum árangri sem bæði leikmaður og þjálfari. Lesa meira “Valdefling eða ekki?”

Hvað má segja við börnin okkar og hvað ekki?

Fyrir stuttu kom út heimildarmynd á Sjónvarpi Símans sem ber nafnið „Hækkum rána” og hefur samfélagið skipt sér í tvær fylkingar með það hvað þeim finnst um þjálfarann, Brynjar Karl, og hans þjálfunaraðferðir, hvort þeim finnist hann vera að standa sig vel eða að hann sé með allt niðrum sig. Myndin fjallar um réttindabaráttu 8-13 ára stúlkna sem vilja breyta kvennaflokkum í körfubolta á Íslandi, þar sem aðaláherslan var sú að þær vildu fá að keppa við stráka en KKÍ (Körfuknattleikssamband Íslands) vildi ekki leyfa það þar sem íþróttamótunum er haldið kynjaskipt.

Eftir að ég horfði myndina gat ég ekki hætt að hugsa um hana, en ekki af því að ég er sammála eða ósammála öllu því sem er gert og sagt í myndinni, heldur finnst mér sumt gott og annað slæmt. Það sem liggur mér mest á hjarta er talsmátinn í Brynjari Karli, en hann segir meðal annars við eina stelpuna að taka hausinn út úr rassgatinu á sér, að hætta að grenja þegar ung stelpa er í kvíðakasti og segir stelpunum að æfa sig í að segja ljót orð við hvora aðra, ruslatal eins og hann kallar það sjálfur og er það gert til þess að valdefla þær.

Það sem ég velti líka fyrir mér er hver tilgangurinn sé með því að þær vilja keppa við stráka, orðrómurinn hingað til hefur verið sá að strákar séu betri í boltaíþróttum og vilja þær sýna að svo sé ekkert endilega. En hver er þá tilgangurinn að vilja keppa við þá sem eru ekkert endilega betri? Hvað ef þær hefðu tapað og strákarnir þá fengið hærri stall og þá ranghugmynd að þeir séu betri? Væri ekki hægt að taka æfingaleiki til að útkljá þann ágreining sem komið hefur upp um hvort kynið sé betra í staðin fyrir að vilja fara með þetta í gegnum KKÍ? KKÍ þarf ekki að eiga lokaorðið, hægt er að fá dómara, fólk á ritaraborðið og spilað leik þar sem stig koma fram og skrifuð er skýrsla í þríriti ef það er það sem bæði liðin vilja.

Nú hef ég sjálf æft körfubolta, unnið með börnum og unglingum og á sjálf barn, ég man ekki eftir því að hafa heyrt fullorðinn einstakling sem börnin líta upp til og bera virðingu fyrir segja þessi orð við börn og unglinga. En af hverju ekki? Þau munu hvort sem er fá að heyra ljót orð sögð við sig einhvern tímann á lífsleiðinni, þannig að af hverju ekki að byrja bara nógu snemma að kenna börnum og unglingum að svara fyrir sig eða hunsa það? Mín skoðun er sú að hægt er að valdefla stúlkur, drengi og börn yfir höfuð á margan annan hátt en að öskra á þau og láta ljót orð falla til þeirra og um þau. Hægt er að valdefla með virðingu og vinsemd og vera þar af leiðandi fyrirmynd um hvernig komið er fram við aðra einstaklinga. Einnig er það mín skoðun að þjálfari er ekki bara þjálfari þegar hópurinn er á þessum aldri, þjálfarinn er fyrirmynd þeirra og hefur meiri áhrif á líf þeirra, gjörðir og hugsunarhátt, en þeir gera sér grein fyrir og ættu að taka það til umhugsunar áður en þeir láta stóru orðin falla.

Kristjana Ósk

 

Megum við vera með?

Að vera unglingur, hvað er það? Nú höfum við það öll sameiginlegt að hafa verið unglingur. Í raun erfiðasta þroskaskeiðið, allavega samkvæmt mér. Við þekkjum það örugglega flest að á þessum tíma á ævi okkar, að okkar eigin sjálfsmynd er alls ekki fullmótuð. Ennþá viðkvæm, en samt með þörf fyrir sjálfræði. Erum að uppgötva heilan helling, eins og á öllum æviskeiðum okkar. En þarna er mikilvægur tími þar sem við erum næstum því fullorðin en samt ekki. Það er samt komið fram við okkur eins og börn og okkur jafnvel ekki treyst fyrir ákvörðunum um eigið líf eða tilfinningar. Lesa meira “Megum við vera með?”

Að elska sjálfan sig

Fyrir mér er það að læra að elska sjálfan sig eins og maður er ótrúlega mikilvægt. Frá því að ég var barn hef ég haft mjög lítið sjálfsöryggi og það var verst á unglingsaldri. Ég var alltof feit, ekki nógu flott, o.fl. Ég sé svo eftir því að hafa ekki bara elskað sjálfa mig eins og ég var í staðin fyrir að rífa mig niður. Ég hefði óskað þess að einhver hefði sýnt mér að hver og einn er sérstakur á sinn hátt og það er engin ein rétt leið þegar kemur að útliti. Ég tel að lykilinn að hamingju sé að læra að elska sjálfan sig fyrst og fremst. Það eru alltof fáir sem elska sjálfan sig eins og þau eru.

Þetta er mikilvæg umræða og sérstaklega fyrir börn og unglinga. Við þurfum að setja góð fordæmi og kenna þeim að elska sjálfan sig eins og þau eru frá unga aldri. Ég hef unnið með börnum og unglingum núna í nokkur ár og mér finnst sorglegt hvað stór hluti af þeim hefur lítið sem ekkert sjálfstraust. Það er skrítið hvernig við leyfum okkur að tala um okkur sjálf, við segjum margt um okkur sjálf sem við myndum aldrei segja við aðra manneskju. Það er alltof mikið af ungu fólki og þá sérstaklega stelpum sem hata hvernig þau líta út og þá í samanburði við það sem er „samfélagslega rétta útlitið“.

Mér finnst samfélagsmiðlarnir vera okkar stærstu óvinir þegar kemur að þessu. Á samfélagsmiðlunum er verið að senda okkur óbein skilaboð hvernig við eigum að vera og hvað við þurfum að gera til að verða samþykkt af samfélaginu. Mér finnst önnur hver auglýsing vera um hvernig maður á að grenna sig og oft á mjög óheilbrigðan hátt. Við þurfum að læra að elska okkur sjálf áður en við elskum aðra og leyfum öðrum að elska okkur. Það tekur tíma að læra að elska sjálfan sig, hlusta ekki á samfélagslegan þrýsting gagnvart útliti en þegar upp er staðið er það þess virði.

Það vantar meiri umræðu og fræðslu fyrir börnin og unglingana. Ef við byrjum nógu snemma að kenna þeim að elska sig sjálf þá verður þetta eitthvað sem við gerum sjálfkrafa. Við eigum að fagna því að við séum fjölbreytt, það væri ekkert gaman ef allir væru eins. Ég átta mig ekki á því af hverju það er stimplað svona fast inní hausinn á okkur að við þurfum að vera grönn, alveg sama hvort það sé gert á heilbrigðan hátt eða ekki. Ef við förum með þetta í öfgar þá myndi ég halda að það væri erfiðara að vinna sig uppúr anorexíu en offitu. Ég veit um nokkrar stelpur sem litu út fyrir að vera í mjög góðu líkamlegu formi en þær voru að svelta sig og hreyfingin var komin í öfgar. Með því að grennast á óheilbrigðan hátt er mjög líklegt að heilsan hrynji og maður verði lengi að ná sér eftir það. Svo lengi sem við erum heilbrigð og borðum hollan og næringarríkan mat þá erum við í góðum málum sama hvernig holdafarið er.

Samfélagsmiðlarnir eru aðeins að breytast og sýna réttu hliðarnar en ekki bara glans hliðarnar. Það eru margir áhrifavaldar farnir að sýna hvað uppstilling skiptir miklu máli þegar myndir eru teknar og þau bera saman uppstillta mynd og svo venjulega mynd og þar sést mikill munur.

Að elska sjáfan sig eru stærstu skref sem fólk getur tekið í lífinu.

Guðbjörg Halldórsdóttir