Yndislestur unglinga og stuðningur foreldra

Rósa Kristín Bjarnadóttir

Áður fyrr fór drjúgur tómstundatími unglinga í lestur bóka. Með tilkomu aukinnar tækni og internetsins hefur bóklestur farið mikið niður á við. Einnig hefur aðstaða til íþróttaiðkunar batnað og fleiri valmöguleikar standa unglingum til boða og allt þetta dregur úr því að unglingar finni sér afþreyingu í lestri bóka eða blaða. En allt bóklegt nám byggir á lestri og í aðalnámskrá grunnskóla (2013, bls. 97), er það sagt vera meginmarkmið læsis að gera nemendur færa um að  afla  sér  þekkingar  og geta tjáð sig í töluðu og rituðu máli. Lestur  er  því  afar mikilvægur og nauðsynleg forsenda þess að geta aflað sér þekkingar og verið almennur þátttakandi í þjóðfélaginu. Lestur er mjög flókið  ferli  og  liggur  misvel fyrir hverjum einstaklingi að ná valdi eða færni á honum. Til að ná almennilegum tökum á lestri þarf að æfa hann vel og reglulega. Ég er því þeirrar skoðunar að ýta ætti verulega undir áhuga og efla unglinga til að eyða meiri tíma í lestur.

Skiptir stuðningur foreldra við lestur unglinga máli? Það má leiða getum að því að foreldrar og heimilin spili lykilhlutverk í lestrarþjálfun til að auka færni og efla áhuga.

Máltækið segir ,,Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“. Þau börn sem venjast því frá unga aldri að foreldrar skapi notalega stund við lestur, taki lestur fram yfir skjánotkun og sjónvarpsáhorf eru líklegri til að gera það einnig sjálf. Gefi foreldrar sér góðan tíma til að lesa með barninu og ræði um lesefnið, eykur það líkur á að orðaforði og málvitund barnsins aukist. Til að viðhalda þessum þætti áfram á unglingsárin gætu foreldrar jafnvel lesið þær bækur sem unglingurinn les eða kynnt sér um hvað bókin fjallar þannig að samræðugrundvöllur verði áfram til staðar. Lestur fjölbreyttra bóka ýtir undir aukinn orðaforða sérstaklega ef jafnframt lestrinum verða samtöl eða umræður. Einnig er mikilvægt að velja lesefni sem er spennandi og vekur áhuga. Foreldrar gætu líka sagt unglingum sínum hvaða bækur þeir eru að lesa eða mælt með spennandi bókum (Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Sif Stefánsdóttir, 2009, bls. 17).

Gefnar hafa verið út fjölmargar leiðbeiningar sem allar lúta að því að það sé gott og hvetjandi að foreldrar og heimilin komi að lestri og jákvæðri upplifun af honum. Á netsíðunni Lesvefurinn er talað um hugtakið fjölskyldulæsi sem notað er í víðu samhengi um þær athafnir daglegs lífs, sem fram fara á vegum fjölskyldunnar innan og utan heimilisins og tengjast læsi á margvíslegan hátt. Það getur verið auk lesturs bóka lestur leiðbeininga, uppskrifta, minnismiða og ýmiss konar skilaboða. Ritun getur einnig tengst þessu í formi skilaboða t.d. á snjalltækjum. Þær sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru í samræðum um það sem það hefur lesið, séð eða upplifað tengist einnig fjölskyldulæsi.

Þeir unglingar sem venjast því frá fyrstu hendi að eðlilegt og sjálfsagt er að þeir verji tíma til lesturs heima með foreldrum sínum verða öruggari með sig þegar þeir koma í skólann og þurfa að sanna sig þar (Clark  og  Hawkins, 2010,  bls. 17–22,  27). Þeir sem eiga í erfiðleikum með lestur upplifa oft margar hindranir í skólanum og umhverfinu og færast þá erfiðleikarnir yfir á fleiri námsgreinar þar sem lesturinn kemur nánast alls staðar á einhvern hátt við sögu.

Til að draga úr þessum neikvæðu áhrifum geta foreldrar gert  börnunum skiljanlegt að það er í lagi að gera mistök, unglingarnir eru ekki gagnrýndir, þeir fá að lesa á sínum forsendum og þannig  eflist öryggistilfinning þeirra.  Foreldrar geta hjálpað unglingum sínum að setja sér raunhæf markmið og haft einhvers konar hvetjandi umbun þegar þeim er náð.

Í ljósi framangreindra þátta orkar það ekki tvímælis hjá mér, að stuðningur foreldra við lestur  auki færni til lesturs, heldur þvert á móti.  Að mínu mati gegna foreldrar lykilhlutverki í því að hvetja unglinga sína til lesturs og efla áhuga þeirra. Hvers konar stuðningur foreldra í hvaða tómstundastarfi sem er eykur líkur á því að unglingurinn stundi tómstundastarfið og á það einnig við um lestur.  

Rósa Kristín Bjarnadóttir

Hver á að taka „spjallið“? Hugleiðingar til foreldra unglinga

Helga Vala Gunnarsdóttir

Þegar börn komast á unglingsárin þarf að huga að ýmsu. Unglingar finna fyrir miklum breytingum á líkama sínum, hugsunum og líðan. Þau verða sjálfstæðari, leita meira til vina og spegla sig og umhverfi sitt við jafningjahópinn.

Uppeldi er viðkvæmt og vandasamt. Ýmsar áhyggjur blossa upp þegar kemur að unglingsárum og foreldrar spyrja sig jafnvel hvernig mun þessi einstaklingur spjara sig í hinum stóra heimi, mun hann taka „réttar“ ákvarðanir og á ég sem foreldri að leiðbeina honum í einu og öllu eða leyfa honum að læra af mistökum? Lesa meira “Hver á að taka „spjallið“? Hugleiðingar til foreldra unglinga”

„Hvað meinaru?“

Er spurning sem ég er farin að fá oftar og oftar, og áherslan á „hvað meinaru“ ? verður sterkari og háværari með hækkandi unglingsaldri barnanna minna. Byrjaði sem saklaust „ha“? Þegar börnin voru rétt að byrja að tala, þá var „ha“ oftast svarið sem ég fékk við nánast öllu. „Af hverju“ orðasamsetningin kom svo á eftir „ha“ tímabilinu. Meira segja þegar þau vissu vel „af hverju“ þá var það eins og einhver þörf hjá þeim að bæta við „af hverju“? Lesa meira “„Hvað meinaru?“”

Unglingurinn og netið – Hvert er vandamálið?

Ungdómurinn virðist alltaf vera að fara til andskotans af mismunandi ástæðum gegnum tíðina. Þegar ég var unglingur þá bar þar hæst klæðaburður, unglingadrykkja, miðbærinn og útivistartímar. Við klæddumst upp til hópa öllu svörtu, í svo rifnum buxum að þær héldust saman á voninni einni saman og litum helst út fyrir að vera meðlimir í einhvers konar sértrúarsöfnuði. Við byrjuðum mörg að drekka áfengi strax eftir fermingu og aðal samverustaður okkar voru sjoppurnar og miðbærinn um helgar. Foreldrar voru það ráðalausir á þessum tíma að það var ekkert gert og þetta fékk að viðgangast. Í dag er það netnotkun ungdómsins sem gerir fólk ráðalaust. Það eru skrifaðar allskyns greinar um afleiðingar of mikillar netnotkunar þar sem netið er ljóti kallinn. Það er skrifað um áhrifin á andlega, líkamlega og félagslega heilsu ungs fólks, en að mínu mati er lítið talað um farsælar lausnir í þessu sambandi heldur einungis afleiðingar.

Lesa meira “Unglingurinn og netið – Hvert er vandamálið?”

Hreyfing barna og unglinga

Heilsan er það mikilvægasta sem hver maður á, bæði andlega og líkamlega heilsan. Hver sem við erum eða hvar sem við búum eigum við það öll sameiginlegt. Flestum er orðið nokkuð ljóst að hreyfing skiptir okkur miklu máli þegar kemur að því að viðhaldi góðri líkamlegri og andlegri heilsu og er öllum jafn mikilvæg og þar er engin undantekning þegar kemur að börnum og unglingum. Ég tel þó að foreldrar séu ekki nógu meðvitaðir og upplýstir um hversu mikla hreyfingu börn og unglingar þurfa á að halda í raun og veru. En ráðlögð hreyfing barna er 60 mínútur á dag, sem þó er hægt að skipta niður í styttri tímabil yfir daginn til dæmis 15-30 mínútur í senn. Ég tel að mikilvægt sé að börnum og unglingunum þyki hreyfingin sem þau stunda vera skemmtilega og hún sé fjölbreytt og sé í samræmi við færni þeirra og getu. Lesa meira “Hreyfing barna og unglinga”

Skiptir samvera foreldra og unglinga máli?

liljaAð foreldrar verji tíma með börnum/unglingum sínum er svo ótrúlega mikilvægt og tíminn er dýrmætur. Unglingar sem verja miklum tíma með foreldrum sínum sýna síður áhættuhegðun og leiðast síður út í slæman félagsskap. Einhverjir foreldrar sjá ekki mikilvægi þess að verja frítíma sínum með börnunum sínum en þegar þau komast á unglingsárin er slæmt fyrir þau að vera látin afskiptalaus, þá er einnig erfitt að fara að festa samverustundir í sessi sem börnin/unglingarnir og foreldrarnir eru ekki vön og er ekki í þeirra fjölskyldumynstri. Það er svo mikilvægt að foreldrar haldi góðu sambandi við unglinginn sinn því unglingsárin eru svo mikið mótunarskeið í lífi þeirra og það er ótrúlega mikið nýtt að gerast hjá þeim og auðvitað þurfa þau leiðsögn. En ef unglingarnir finna að þau geti treyst foreldrum sínum eru meiri líkur á að þau biðji um ráð frá þeim. Traust á milli foreldra og unglings spilar svo stóran part í þessu en auðvitað þurfa unglingar ákveðið frelsi til að átta sig á hlutunum sjálf. Lesa meira “Skiptir samvera foreldra og unglinga máli?”