Skiptir samvera foreldra og unglinga máli?

liljaAð foreldrar verji tíma með börnum/unglingum sínum er svo ótrúlega mikilvægt og tíminn er dýrmætur. Unglingar sem verja miklum tíma með foreldrum sínum sýna síður áhættuhegðun og leiðast síður út í slæman félagsskap. Einhverjir foreldrar sjá ekki mikilvægi þess að verja frítíma sínum með börnunum sínum en þegar þau komast á unglingsárin er slæmt fyrir þau að vera látin afskiptalaus, þá er einnig erfitt að fara að festa samverustundir í sessi sem börnin/unglingarnir og foreldrarnir eru ekki vön og er ekki í þeirra fjölskyldumynstri. Það er svo mikilvægt að foreldrar haldi góðu sambandi við unglinginn sinn því unglingsárin eru svo mikið mótunarskeið í lífi þeirra og það er ótrúlega mikið nýtt að gerast hjá þeim og auðvitað þurfa þau leiðsögn. En ef unglingarnir finna að þau geti treyst foreldrum sínum eru meiri líkur á að þau biðji um ráð frá þeim. Traust á milli foreldra og unglings spilar svo stóran part í þessu en auðvitað þurfa unglingar ákveðið frelsi til að átta sig á hlutunum sjálf.

Á unglingsárunum skiptir oft álit annarra gríðarlega miklu máli og vilja þau vera „inn“. Gerðar eru margar kröfur á unglinga, þeir þurfa að eiga ákveðna hluti, líta „rétt“ út og vera vinsæl. Mikið álag er á unglingum og oft er ómögulegt fyrir þá að standa undir þeim kröfum sem eru í samfélaginu, þá sérstaklega útlitskröfurnar og þessar kringumstæður geta valdið miklu stressi hjá unglingum því þeir eru alltaf að miða sig við einhverja aðra. Foreldrar þurfa því að reyna að sýna þessu skilning og vera opin að ræða þessi mál.

Er tæknivæðingin að hafa einhver áhrif? Er tæknin í dag einn áhrifaþáttur þess að samvera foreldra og barna fari dvínandi? Eru unglingarnir kannski bara inn í herbergi í tölvunni/símanum og jafnvel foreldrarnir líka? Internetið getur verið svo ótrúlegur tímaþjófur. Hver hefur ekki lent í því að sitja í tölvunni/símanum og líta svo á klukkuna og allt í einu er komið miðnætti? Ein sniðug hugmynd er að hafa „símalausa/tölvulausa“ seinni parta og reyna frekar að eiga gæðastundir með fjölskyldunni. Kannski er það ekki alltaf hægt þar sem tómstundir unglinga eru oft seinni part dags en reyna samt að ná einhverri stund saman, því hún þarf alls ekki að vera löng.

Tíminn eftir vinnu/skóla er alls ekki langur til að eiga gæðastundir saman sem fjölskylda. Sem dæmi má nefna að foreldrar eru búnir að vinna 16:00 – 17:00 á daginn, þurfa þá kannski að sækja barn í leikskólann, hjálpa til með heimalærdóm, elda kvöldmat og loks borða. Þá er nú stutt í svefn hjá þessum yngstu. Á heildina litið eru þetta ótrúlega margir hlutir sem þarf að gera á skömmum tíma og því er erfitt að finna rólegan tíma og eiga notalega stund saman. Mér finnst ótrúlega góð regla á mörgum heimilum að setjast öll niður saman og borða kvöldmatinn og ræða daginn og önnur málefni. Þetta getur verið dýrmæt stund þegar uppi er staðið. Hér áður fyrr var móðirin oft heima með börnunum, nú tíðkast það að báðir foreldrar eru úti á vinnumarkaðinum. Þetta þarf auðvitað ekki að vera af hinu slæma heldur þarf fjölskyldan bara að finna tíma sem hentar þeim til að eiga notalega stund saman.

Ég hvet foreldra til að skipuleggja einhverja stund eða hafa ákveðin fjölskyldukvöld með börnunum sínum. Ekki byrja á því þegar barnið er unglingur heldur festa þetta strax í sessi. Mikilvægt er að unglingar finni að foreldrar vilji virkilega verja tímanum sínum með þeim og njóti þess að eiga þennan tíma með þeim.

Lilja Rós Aradóttir, nemi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands