Heilbrigði – Misvísandi skilaboð

rakel yrÉg held að í dag sé mjög flókið að vera unglingur. Afhverju segi ég þetta? Jú, það hefur kannski alltaf verið flókið að vera unglingur, en í dag er svo margt sem flækir þetta aldurskeið. Flækjan kemur úr öllum áttum, en nýja flækjan kemur úr samfélagsmiðlum og það er ekkert að fara að leysast úr henni á næstunni. Skilaboðin sem unglingar fá nú til dags koma allstaðar að og geta sett mikla pressu á okkar elsku unglinga. Nú vil ég fjalla um pressu þegar það kemur að hreyfingu, matarræði, útliti og heilbrigði. Stundum er þessum hugtökum blandað saman í einn graut og er potað í hann úr öllum áttum sem ruglar allsvakalega í okkar unglingum, sem og fullorðnu fólki.

Samfélagsmiðlar bomba á okkur ýmsum upplýsingum um það hvernig við eigum að hegða okkur; hreyfing, matarræði, fæðubótarefni og nýmóðins megrunarkúrar. Síðan er allt morandi að myndum sem sýna það útlit sem við ættum að reyna að stefna að. Ýmsar bloggsíður, snapchat aðgangar, instagram síður og ég veit ekki hvað eru þarna úti til að hjálpa okkur að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. En þegar þú ert óharðnaður unglingur í leit af sjálfum þér, veistu þá hvaða upplýsingar eru góðar og hverjar eru verri? Hvaða afleiðingar hefur þetta í för með sér?

Staðan í dag er sú að átraskanir af ýmsu tagi eru að færast í aukana; lystarstol, lotugræðgi, bigorexia og ofát. Afhverju er það að gerast með allar þær upplýsingar sem hægt er að finna um hvað er heilbrigt að fólk er að lifa svo óheilbrigðu líferni? Jú, vegna þess að upplýsingarnar koma alls staðar að og eru mjög misvísandi. Pressan um hvernig maður á að líta út er mikil og er auðvelt fyrir okkar elsku unglinga að finna sér leið til að passa inn í samfélagið með einhverjum öfgakenndum hætti. Nú er byrjað að vinna með hugtakið líkamsvirðing sem mér þykir mjög jákvæð þróun. Þá er verið að vinna gegn fordómum þegar það kemur að útliti fólks, helst þá feitu fólki. Þá eiga allir sama tilverurétt og skiptir holdafar fólks engu máli. Þó að það skipti máli að bera virðingu fyrir öllum þá finnst mér ekki eiga að gera lítið úr því að við erum að fitna hérna í vestrænum samfélögum. Að vera of feitur hefur margar neikvæðar afleiðingar og má ekki hunsa mikilvægi hreyfingar og matarræðis. Í dag þykir eðlilegt að sitja allan daginn og varla stíga fæti út fyrir hússins dyr, er það framtíð okkar elsku unglinga?

Hegðun okkar á unglingsárunum getur mótað hegðun okkar á fullorðinsárum. Það sem við leggjum upp í vana okkar getur fylgt okkur lengi vel. Þegar það kemur að hreyfingu og matarræði þá er það mynstur sem við tileinkum okkur í þeim málum á unglingsárum svipað því sem það verður seinna. Unglingar sem stunda reglulega hreyfingu venja sig á það, líkamlega og andlega, og eru líklegri til að halda það út. Viljum við ekki að allir tileinki sér góða hreyfingu við hæfi og haldi þeirri hreyfingu út allt sitt líf? Í þessu samhengi er leiðinlegt að hugsa til þess að á unglingsárunum er algengt að unglingar hætti í skipulögðu íþróttastarfi. Sumir skipta því starfi ekki út fyrir aðra hreyfingu og verða kyrrsetunni að bráð.

Hvernig getum við undirbúið ungt fólk fyrir þetta flókna samfélag sem við búum í og fá þau til að aðgreina réttar upplýsingar frá þeim röngu? Fá þau til að meta það sem þau sjá með gagnrýnum augum? Ég tel að það að læra um heilbrigðan lífstíl sé mjög mikilvægt nesti út í lífið og ætti að leggja meiri áherslu á það í skólum landsins. Börn eru í íþróttum tvisvar í viku alla sína skólagöngu en þessi tími virðist lítið notaður í fræðslu. Með matarræði er gott ef krakkar myndu læra hvað líkaminn þarfnast út úr næringunni og hvernig er hægt að sækja það. Þegar fólk skilur og veit afhverju þarf að gera þetta og hitt eru meiri líkur á að það geri það og geti svo sótt sér fleiri upplýsingar sem byggja á því sem það kann.

Það virkar ekkert að predika yfir ungu fólki hvernig það á að hegða sér, heldur af hverju. Þá læra þau gagnrýna hugsun og geta beitt henni þegar samfélagsmiðlar eru að mata þau á misgáfulegu efni.


Rakel Ýr Jóhannsdóttir, háskólanemi