Unglingar læra það sem fyrir þeim er haft

karen annaHver hefur ekki heyrt ömmu sína eða afa, foreldra sína eða jafnvel jafnaldra segja að unglingar í dag beri ekki virðingu fyrir einu eða neinu og að unga kynslóðin sé alveg hryllileg. Það virðist vera að fólkið í samfélaginu dæmi út frá svörtu sauðunum hjá unglingunum. Unglingar eru líka fólk, og eru þau á sérstökum stað í lífinu þar sem þau eru oft mjög viðkvæm og eru að vinna að og byggja upp sjálfsmynd sína. Í dag eru unglingar margir hverjir að miða sig við aðra, hvort sem það er í daglegu lífi eða á internetinu á samfélagsmiðlum.

Eldri kynslóðir telja sig oft hafa verið mikið betri unglingar heldur en unglingar eru í dag. Það eru þó margir í eldri kynslóðinni sem telja sig hafa verið mikið erfiðari unglingar heldur en unglingar eru í dag. Það þótt eðlilegt að reykja og drekka sem unglingur hér á árum áður og var það normið á þeirra tíma. En satt best að segja að þá eru unglingar í dag skynsamari og miklu meðvitaðari um til dæmis hættuna sem fylgir neyslu á vímuefnum, enda hefur unga kynslóðin fengið viðeigandi forvarnir og fræðslu.

Það er mikill munur á því að vera unglingur í dag eða fyrir 30 árum síðan. Hér á árum áður átti einelti sér oftast stað í skólanum, úti í frímínútum og í búningsklefum en þá nutu unglingar ákveðinra friðhelgi heima hjá sér, innan veggja heimilisins. Það hefur heldur betur breyst í dag. Í dag er þeim strítt í skólanum og svo heldur það áfram þegar unglingurinn kemur heim, semsagt á internetinu á samfélagsmiðlum. Það virðist vera mikil streita á unglingunum þar sem það er stöðugt áreiti á þau frá tölvunni og símanum á öllum þessum samfélagsmiðlum.  Það er ömurleg tilhugsun að það virðist vera hægt að ná til fórnarlamba eineltis næstum allstaðar í gegnum alls kyns leiðir, hvort sem það er augliti til auglitis eða í gegnum internetið.

Foreldrar þurfa að setja sig inn í þann tíðaranda sem er í samfélaginu okkar í dag og vera meðvitaðri um hvað unglingarnir sínir eru að gera á internetinu ásamt því að vera meðvituð um hvað þau skrifa sjálf á internetið. Margir hverjir úr hópi fullorðinna eru ekkert skárri þegar kemur að neteinelti. Margir fullorðnir einstaklingar eru engann veginn góðar fyrirmyndir á samfélagsmiðlum svo sem eins og á kommentakerfum og víðar. Þar tala oft fullorðnir einstaklingar niður til hvers annars og þurfa fullorðnir að vera fyrirmyndir fyrir þá sem yngri eru. Það eru ekki einungis unglingar sem leggja í neteinelti heldur er það fullorðna fólkð líka og gerir því eldra fólkið sér ekki grein fyrir því að það sé að leggja í einelti á netinu. Unglingar í dag eru m.a. mun meðvitaðari um hvað þau mega segja á netinu og hvað ekki, eða í flestum tilvikum. Eldri kynslóðin þarf hins vegar að passa sig hvað þau segja og framkvæma á samfélagsmiðlum og taka sig saman og reyna eftir fremsta megni að vera unglingunum okkar betri fyrirmyndar.
,,Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“.

Karen Anna Sævarsdóttir – Nemandi á fyrsta ári við tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands