Mikilvægar gæðastundir

Þegar við eignumst börn fáum við í leiðinni eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni fullorðinsáranna. Að vera foreldri felur meðal annars í sér að annast barnið, vernda það, kenna því og veita leiðsögn. Flestir stefna að því að ala upp einstakling sem er heilbrigður, hamingjusamur og hefur eiginleika og færni sem kemur sér til góða í framtíðinni. En uppeldi er mikil vinna og þurfa foreldrar að hafa þolinmæði, vera samkvæmir sjálfum sér og gefa sér tíma til að verja gæðatímum með börnum sínum. Því það er afar mikilvægt að foreldrar njóti góðra samvista við börnin sín því að notaleg samvera ýtir undir sterkari tengsl og jákvæðari samskipti. Börnin þurfa að finna að foreldrarnir vilji verja tíma sínum með þeim og finna að þau skipta máli. Hraðar samfélagslegar breytingar og tækniþróun hefur haft það í för með sér að foreldrar hafa minni tíma fyrir börnin sín og það er yfirleitt meira álag á fjölskyldunum. Á morgnanna þarf allt að ganga hratt og smurt til að allir mæti á réttum tíma á sína staði. Þegar heim er komið á eftir að fara í búð, græja kvöldmat, læra heima, henda í þvottavél og fleira og tími fyrir börnin af skornum skammti og frítímar foreldranna jafnvel ekki margir.

Skiljanlega er ekki hægt að verja hverjum frítíma með börnum sínum því vissulega þurfa foreldrarnir líka tíma fyrir sig án barnanna og er það gott og gilt. En það er þó nauðsynlegt að gefa sér tíma í að eiga gæðastund með börnunum reglulega. Hver stund þarf ekki að vera löng en best væri að þær væru sem flestar. Best væri að finna tíma á hverjum degi og þarf þá ekki að gera mikið eða í langan tíma. Það getur verið gæðastund að hjálpa börnunum að læra heima, hlusta á þau lesa, horfa með þeim á einn þátt, leira, perla, fara í göngutúr og fleira. Einnig er hægt að leyfa þeim að taka þátt í því sem við erum að gera dags daglega eins og til dæmis brjóta saman þvott, græja mat, þrífa og þess háttar. Gæðastundir þurfa heldur ekki að kosta krónu.

Foreldrum finnst þeir oft verja miklum tíma með börnum sínnum en svo að samveran teljist til gæða þurfa foreldrar og barn að veita hvort öðru athygli. Ef foreldrið er að horfa á skjáinn á símanum, á sjónvarpið, skoða blöð eða er með athyglina á öðru en barninu er erfitt að flokka það sem gæðastund. Gæðastund fer fram þegar báðir aðilar eru með fulla athygli á hvort öðru og því sem verið er að gera. Börn gera yfirleitt kröfu um að foreldrarnir veiti þeim óskipta athygli. Misjafnt er þó hvernig þau sýna það að þeim finnst þau ekki fá nægilega athygli. Sum börn draga sig í hlé og sýna ekki endilega merki um að þau vantar athygli á meðan önnur verða óþæg og krefjandi og við það fá þau neikvæða athygli en oft þykir þeim hún betri en engin athygli. En með gæðastundum fær barnið jákvæða athygli og finnur að það skiptir máli. Mikilvægt er einnig að veita hverju og einu barni gæðastund, það er að hvert barn fái frið frá systkinum sínum til að verja tíma með foreldrum sínum. Það þarf þó alls ekki að vera á hverjum degi, ásættanlegt væri að það væri einu sinni til tvisvar í mánuði.

Hver gæðastund sem foreldrar verja með barninu eflir tengslin og hefur jákvæð áhrif á þroskastöðu og velferð barnsins almennt. Því skulum við foreldrar leggja frá okkur símana og gefa okkur tíma til að eiga gæðastundir með börnunum okkar því þær gera svo mikið bæði fyrir okkur sjálf og börnin okkar.

Arna Ýr Sæþórsdóttir