Ferming til fjár?

Frá fornu fari hefur ferming verið fastur liður í okkar trúarmenningu og hafa flest allir unglingar fermst á fjórtánda aldursári í þeim tilgangi að staðfesta skírn sína.  Var þetta unglingum erfitt hér áður fyrr þar sem þau þurftu að læra ,,kverið“ áður en þau fermdust og var þetta oft mikil þrautarganga fyrir þau.

Í dag er önnur saga, unglingar sem ákveða það að fermast í kirkju fara í fermingarfræðslu og læra trúarjátninguna, það er ekki farið mikið dýpra í kristinfræðina en það, en hún er ekki lengur sérfag í grunnskóla eins og var t.d. þegar ég var í skóla. Einnig er unglingum boðið uppá borgaralega fermingu en það er fyrir þá sem ekki vilja fermast í kirkju og sækja þeir unglingar þá námskeið hjá Siðmennt.

Þegar ég fermdist árið 2000 hafði ég aldrei heyrt minnst á borgaralega fermingu og hvað þá um þann möguleika að maður gæti sleppt því að ferma sig, maður átti að fermast! Í mínum huga táknaði fermingin að ég væri orðin fullorðin, ég fengi að ráða meira, ég hafði svo rangt fyrir mér. Einnig hlakkaði ég mikið til að fá fermingargjafirnar, ég var búin að biðja foreldra mína um ,,græjur“ í fermingargjöf og svo voru vinir og ættingar búnir að boða komu sína og ég bjóst við gjöfum frá þeim einnig, sem var raunin. Það síðasta sem ég hugsaði um þennan dag var að ég væri að fara að staðfesta skírnina mína.

Sama er uppá teningnum í dag. Mikið af unglingum er ekki að fermast til þess að staðfesta skírnina sína eða trúna heldur að fermast vegna þrýstings frá fjölskyldu og svo er þetta frekar auðveld leið til þess að eignast pening þegar þú ert 14 ára. Eða kannski hugsa unglingar það sama og ég hugsaði árið 2000, að þau væru að verða fullorðin og fengju meiri viðurkenningu frá hinum fullorðnu ef þau væru búin að fermast. Þó að mér hafi fundist ákveðin viðurkenning falin í því að fermast, þá í formi þess að ég taldi mig fullorðna, fermdist ég aðallega í þeim tilgangi að fá alla þessa pakka.

Þegar líða fer á vorið og það fer að styttast í fermingar logar facebókin þar sem fólk er að athuga hvað telst eðlilegt að gefa háar upphæðir í fermingargjafir og er það allt frá 10.000-25.000 kr. Hversu mörg ungmenni myndu fermast í nútíma samfélagi ef ekki væri fyrir þessa gulrót? Ef pakkar væru alveg teknir út úr myndinni, þá einhvernveginn efast ég um að það væru margir unglingar sem myndu fermast.

Hugsanlega þyrfti að upplýsa unglinga betur hvað felst í því að fermast og um hvað trúin er. Þyrfti að hafa fyrirlestra eða eitthvað annað sem myndi höfða til unglinga þar sem Siðmennt kæmi að og kirkjan, en einnig að það sé líka allt í lagi að fermast ekki. Ferming í kirkju er hugsanlega að hverfa eins og kristinfræði úr menntakerfinu.

Ég sé inná mörgum grúppum eftir fermingar þar sem unglingar bera saman bækur sínur um hversu mikinn pening þau fengu í gjöf og eru sum þeirra að fá rúmlega mánaðarlaun hjá útivinnandi manneskju.

Er fermingin hreinlega að fara að detta út úr okkar samfélagi í því formi sem við þekkjum hana í dag? Börn eiga trúlega alla tíð eftir að fermast en hvort það verður hjá kirkjunni eða ekki verður tíminn að leiða í ljós.

Ásta Jóna Hilmarsdóttir