Grunnskólinn vs menntaskólinn

Þegar námi lýkur í grunnskólanum og framhaldsnám tekur við hjá flestum, hvort sem það er í bóknámi, verknámi, fjölbraut eða bekkjarkerfi, breytist ansi margt. Við förum frá því að vera í vernduðu umhverfi okkar heimahverfis og út í nýjan heim þar sem við þurfum að aðlagast nýju umhverfi. Ég man þegar ég var sjálf að klára 10.bekkinn í Hagaskóla, hvað það hræddi úr mér líftóruna að byrja í menntaskóla. Samt er ég nokkuð félagslega sterkur einstaklingur svo þetta „reddaðist“. Í dag  velti ég fyrir mér hvernig þetta hefur verið fyrir þá sem standa höllum fæti félagslega.

Vissulega fékk maður smjörþefinn af skólanum þegar farið var í heimsókn þangað til þess að kynna sér skólann. Síðan liðu nokkrir mánuðir þar til maður var mættur aftur. Ég var sjálf í MS (menntaskólanum við Sund) og það sem sat í mér eftir kynningu skólans var þegar nemendafélagið gekk um skólann með hópinn og benti á stað sem heitir „U-ið“ og tjáði okkur verðandi menntskælingum það að hér mættu busar alls ekki setjast niður. Svo man ég eftir fyrstu vikunni í skólanum, þar sem að busarnir voru eiginlega bara „target“ hjá eldri nemendum, margir gáfu manni illt augnaráð, í busuninni sjálfri þurftum við að ganga meðfram veggjum og hlýða öllu því sem fjórðu bekkingar sögðu. Þetta er einhver hefð sem skapast hefur í skólanum sem að mínu mati er ekkert annað en valdníðsla á þeim sem yngri eru. Það var svo margt svona sem stakk mann í hjartað sem busa og gerði mann einfaldlega hræddan. Ég vona að þetta hafi eitthvað breyst frá því ég var þarna fyrir tíu árum. það var þessi hræðsla og vanlíðan til staðar í upphafi skólagöngunnar sem að er einfaldlega ekki í lagi að láta ungt fólk sem er nógu hrætt fyrir, ganga í gegnum.

Það er nefninlega mín upplifun og reynsla að þegar ung manneskja er að stíga upp úr 10. bekk og tekur fyrstu skrefin inn í menntaskóla, að hún sé frekar ein á báti. Sumir þekkja einhverja sem eru að byrja líka og þeir styðja hvern annann, sumir þekkja einhvern í eldri bekkjum og geta hallað sér upp að þeim. Aðrir þekkja engann og þurfa að gera þetta á eigin spýtur, sem getur reynst erfitt. Á maður að labba upp að næsta manni og biðja hann um að sýna sér um skólann? Á maður að finna út hverjir eru í nemendaráði skólans og spyrjast fyrir um félagsstarf skólans? Það verður að segjast eins og er að fæstir myndu þora því og ég þori næstum að hengja mig upp á það að flestir myndu einfaldlega vilja redda sér sjálfir frekar en að biðja eldri nemendur um aðstoð. Það er nefninlega líka þannig að félagslífið verður meira áberandi í menntaskólanum en virðist á sama tíma verða minna aðgengilegt.

Af hverju segi ég það? Jú því að í menntaskólunum eru nemendaráð sem skipuleggja viðburði og auglýsa þá svo á göngum skólans. Í grunnskóla eru félagsmiðstöðvar sem eru opnar á ákveðnum tíma alla daga (þó svo að vissulega mætti vera oftar opið á kvöldin og á álagstímum eins og milli jóla og nýárs). En í félagsmiðstöðvum starfar eldra fólk sem hefur það að leiðarljósi að vera til staðar fyrir alla á meðan að formenn nemendaráða eru ekki endilega að einblína á það.  Þeir eru eflaust frekar að einblína á að reyna hafa sem skemmtilegast á böllum og að finna góðan þjálfara fyrir Morfís lið skólanna. Mín skoðun er sú að það mætti bæta aðgengi að skipulögðu tómstunda- og félagsstarfi fyrir ungt fólk á aldrinum 16-20 ára.

Aldís Björk Óskarsdóttir