Hverjum finnst sín kynslóð fögur

Það er auðvelt að líta til baka á æskuárin sín með “nostalgíu”-blik í augunum. Krakkar léku sér úti, enginn átti snjallsíma og allt var einfaldlega miklu betra. Samt er erfitt að benda ná­kvæmlega á hvað það var sem veldur því að manns eigin kynslóð hafi verið á betri stað en þær kynslóðir sem á eftir komu því oft er það þannig að hverjum finnst sinn fugl fagur, eins og sagt er. Ég hef sjálfur oft gerst sekur um að slá fram sleggjudómi í þeim málefnum en þrátt fyrir að æskuárin hafi vissulega verið einfaldari tímar er ekki þar með sagt að þau hafi endilega verið betri því það er vissulega flókið að vera unglingur. Nýjar tilfinningar brjótast fram, sjálfstæði lítur út sem fjarlægur draumur á meðan að á sama tíma finnst manni allir vera að ætlast til eitthvers af manni. Hvað vilt þú læra? Hvað vilt þú verða? Eru spurningar sem dynja á manni alla daga frá eldri kynslóðinni sem veit allt betur og manni finnst heil kynslóð bíða með öndina í hálsnum eftir svari.

Mín kynslóð var langt frá því að vera betri en nokkur kynslóð sem á undan kom eða komið hefur á eftir henni. Unglingadrykkja og reykingar voru alvarlegt vandamál, krakkar sprengdu upp ruslatunnur í kringum áramótin og langatöng var rekin framan í eldri kyn­slóðina. Við lékum okkur vissulega úti en það er ekki þar með sagt að allir hafi verið að leika saman og ekki alltaf fallega. Gífurlegar tækniframfarir hafa átt sér stað síðustu ár og samskiptin hafa færst yfir á netið í kjöfar þess. Facebook, Snapchat, snjall­símar, snjallúr og allt hitt snjalldótið hefur á síðustu árum gjörbreytt skilgreiningu okkar á því hvað er að vera unglingur. Við höfum heiminn í hendi okkar en einnig veitum við öðrum tækifæri á að líta inn um glugga einkalífs okkar. Auðveldara er að bera sjálfan sig við jafnaldra sína hvaðanæva úr heiminum og allt í einu er ekki einungis eldri kynslóðin að hneikslast á daglegu lífi ungmenna því hvert mannsbarn með nettengingu getur tjáð skoðanir sínar og umræðurnar eru oft á tíðum miður neikvæðar.

Ef þú talar við fólk af ólíkum aldri kemstu líklega fljótt að því að allar kynslóðir hafa átt eitt atriði sameiginlegt; að vera á leiðinni til fjandans. Samkvæmt mörgum spám þá átti aldamótakynslóðin aldrei eftir að áorka neinu og ætti hún fyrir löngu að hafa einfaldlega limpast niður sökum aumingjaskaps en viti menn, hér erum við enn. Nú hefur hins vegar næsta kynslóð tekið við keflinu og byrjað að gagnrýna ungmenni í samfélaginu okkar í dag; unglingar eyða öllum sínum tíma í símanum, kunnar ekki neitt og vita ekkert um það sem skipti okkur hin öllu máli á sínum tíma. Til að mynda erum við ekki tilbúin að sleppa tökunum af skriftar­kennslu í grunnskólum því það sem einkennir vel menntaðan einstakling er að sjálfsögðu fullkomin rithönd.

Tímarnir breytast og fólkið með og það er ekki okkar hlutverk að undirbúa komandi kynslóðir fyrir okkar fortíð. Til að virkja ungt fólk til þátttöku í samfélaginu þurfum við fyrst og fremst að leyfa þeim að vera ung og gefa þeim tækifæri á að eiga þátt í að móta sína framtíð sjálf. Ef þau vilja síðan taka stefnuna til fjandans þá ættu þau allavegana að fá hlýjar móttökur frá fyrri kynslóðum.

Gunnar Óli Markússon, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði