Börnin sem sitja á hakanum

Flestum er kunnug starfsemi félagsmiðstöðva. Félagsmiðstöðvar í Reykjavík eru fyrir ungmenni í 5. – 10. bekk grunnskóla. Í starfsskrá frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar er hlutverk félagsmiðstöðva skilgreint á þann veg að þær eigi að bjóða ungmennum á aldrinum 10-16 ára upp á frístundastarf sem hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Ásamt því að bjóða þeim upp á aðstöðu til afþreyingar og samveru með jafnöldrum í öruggu umhverfi.

Þetta þýðir að félagsmiðstöðvarnar standa ungmennum opnar við 10 ára aldur. Fram að þeim aldri bjóða frístundaheimili krökkum í 1.-4. bekk upp á starfsemi alla virka daga í formi skipulags tómstundastarfs. Flestir krakkar nýta sér þetta starf ef þeim gefst kostur á en sum þeirra eru aftur á móti hætt í frístund áður en þau koma í 5. bekk og félagsmiðstöðvarnar taka við.

Eins og nefnt var hér að ofan gefur Reykjavíkurborg sig út fyrir það að félagsmiðstöðvar séu fyrir ungmenni í 5.-10. bekk og miðstigið er auðvitað með í þeirri skilgreiningu. Hinsvegar þegar fólk talar almennt um félagsmiðstöðvaraldurinn skilgreina flestir hann sem unglingar í 8.-10. bekk og oft gleymist miðstigið, 5.-7. bekkur, í upptalningunni. Það er að segja þungamiðjan í starfi félagsmiðstöðvanna er unglingastarfið og þungamiðjan á frístundaheimilum eru börnin. Miðstigið verður útundan og í millitíðinni eru þetta börnin sem sitja á hakanum. Það er hvergi tekið fram hversu stóran part af kökunni miðstigið fær eða hvernig ,,auðlindum’’ félagsmiðstöðvanna er skipt á milli svo breiðs aldursbils sem 5.-10. bekkur spannar.

Á síðasta ári tók ég þátt í hópverkefni þar sem ég og samnemendur mínir tókum fyrir miðstigsaldurinn. Við ákváðum að kanna hvernig starf væri í boði í félagsmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu fyrir ungmenni í 5.-7. bekk. Tekin voru einstaklingsviðtöl við fimm forstöðumenn félagsmiðstöðva sem störfuðu í mismunandi sveitarfélögum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Sveitarfélögin voru eftirfarandi:  Garðabær, Reykjavík, Hafnafjörður, Seltjarnarnes og Kópavogur. Það sem stóð upp úr þessum viðtölum var misræmið á opnunum fyrir miðstigið á milli félagsmiðstöðva þessara sveitarfélaga. Þegar talað er um opnanir er  vísað til opnunartíma félagsmiðstöðvanna. Ein félagsmiðstöðin var einungis með opnanir fyrir 7. bekk einu sinni í viku, önnur var með opnanir fyrir 5. bekk sér og svo 6. og 7. bekk saman einu sinni í viku, hið þriðja var með sitthvora opnunina fyrir hvern bekk fyrir sig einu sinni í viku, fjórða var með opið fyrir alla þrjá bekkina saman aðra hverja viku og sú síðasta var með opið fyrir 5. og 6. bekk saman og svo 7. bekk sér einu sinni í viku.

Eins og má sjá af þessari upptalningu eru þær opnanir sem eru í boði fyrir miðstigið mjög misjafnar eftir sveitarfélögum þótt að fjöldi opnana og samsetning bekkjanna sé einungis tekið fyrir. Hvort að það sé fjármagn, tími, áhugaleysi starfmanna að vinna með þessu aldri, mismunandi áhersla forstöðumanna um mikilvægi þessarar þjónustu eða skortur á heildrænni yfirsýn á miðstigsstarfi sem veldur veit ég ekki en mér finnst þetta afar undarlegt. Vert er að benda á að ósamræmið á sér ekki einungis stað á milli sveitarfélaga heldur einnig innan frístundamiðstöðva, burt séð frá því hvaða sveitarfélagi frístundamiðstöðin tilheyrir. Mætti þá nefna dæmi um frístundamiðstöð sem fimm félagsmiðstöðvar tilheyra og þar er starfið fyrir miðstigið sett upp á mismunandi hátt í ljósi fjölda opnanna og hvernig er aldursskipt.

Til samanburðar er hægt að líta til þess starfs sem er í boði fyrir unglingana innan félagsmiðstöðvanna eða 8.-10. bekkjar starfið. Þær opnanir eru líka mismunandi eftir sveitarfélögum en þær bjóða unglingunum samt upp á mun fjölbreyttari og fleiri opnanir á mismunandi tímum. Má þá nefna að sumar félagsmiðstöðvar bjóða upp á opnanir þegar það eru hádegishlé í grunnskólunum, flestar ef ekki allar bjóða upp á dagopnanir (þá eru dagopnanir fyrir unglingana á móti þeim opnunum sem eru fyrir miðstigið, ef það er opið á mánudögum og miðvikudögum fyrir miðstigið, þá er opið á þriðjudögum og fimmtudögum fyrir unglingana) og þær bjóða allar upp á kvöldopnanir. Hversu oft þessar opnanir eru í viku er síðan misjafnt. Unglingum væri til að mynda aldrei boðið upp á það að fá bara að mæta í félagsmiðstöðvar einu sinni í viku skipt eftir aldri og hvað þá aðra hvora viku. Í dæminu hér fyrir ofan, með félagsmiðstöðvarnar fimm sem tilheyra sömu frístundamiðstöðinni, er til dæmis sami háttur á opnunum fyrir unglingsstarfið. Það er að segja það er hundrað prósent samræmi á milli þessara fimm félagsmiðstöðva hvað varðar opnunartíma félagsmiðstöðvanna fyrir 8.-10. bekk.

Sama hver rökin eru fyrir því að miðstigsstarfið er eins aumt á mörgum stöðum og það er, hvort sem það er fjármagn, aðstaða eða að kakan sé ekki nógu stór þá þarf allavega að fara að kippa þessu í lag, stækka uppskriftina og baka stærri köku eða einfaldlega búa til nýja uppskrift. Ég er enginn sérfræðingur en ég set samt stórt spurningarmerki við þetta þar sem þessi aldur, 5.-7. bekkur er alveg jafn mikilvægur og 1.-4. bekkur og 8.-10. bekkur. Það er ákveðin snemmtæk íhlutun í því að ná til ungmennanna, strax á miðstigsaldri, sem að gætu lent í áhættuhóp þegar þau verða unglingar. Við sem störfum á þessum vettvangi fáum tækifæri í þessu starfi til þess að byggja upp traust og jafnvel til þess að slökkva einhverja elda áður en þeir magnast upp ef við fáum færi á því að ná til þessara barna, eða ungmenna eins og ég kýs að kalla þau. Að lokum leyfi ég orðum starfsmanns í félagsmiðstöð um ávinning starfsins að fylgja með.

,, Mesti ávinningurinn er kannski að ná til þeirra sem eru á einhverskonar grá-hvítu svæði, sem sagt að ná til þeirra áður en þau verða unglingar. Þetta er til þess að ná til krakka sem við erum kannski svolítið að bjarga og slökkva elda hjá þegar þau koma í unglingadeildina. […] Við erum búin að týna þeim í kannski þrjú til fjögur ár sem við hefðum getað verið að nota til þess að ná til þeirra því að við erum hérna fullorðna fólkið sem er ekki kennari, ekki foreldri og ekki mamma vinar þíns. Við erum fullorðna fólkið sem er þarna bara til þess að vera til staðar.’’

Heiðdís Árný