Hvatningarverðlaun SFS

Hvatningarverðlaun SFS (skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar) voru veitt nú á dögunum, en þau eru veitt  fyrir framsækið fagstarf í skólum, frístundamiðstöðvum og skólahljómsveitum borgarinnar. Þrenn verðlaun voru veitt á hverju fagsviði; til leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfs. Markmið Hvatningaverlauna SFS er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem unnið er af starfsfólki og á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs og hvetja til nýbreytni og þróunarstarfs. Á sviði frístundastarfs fengu tvær félagsmiðstöðvar hvatningarverðlaun. Félagsmiðstöðin Miðberg hlaut verðlaun fyrir hæfileikakeppnina “Breiðholt´s got talent” og félagsmiðstöðin Kampur hlaut verðlaun fyrir stuttmyndahátíðina “Hilmarinn”.

Við tókum viðtal við Kára í Miðbergi og Friðmey og Valda í Kampi.

Breiðholt´s got talent

hvatningarverðlaunin

Hugmyndin kom árið 2009 frá Kára Sigurðssyni og Hafsteini Vilhelmssyni en þá var mjög vinsælt hjá unglingum að glápa á Britain´s got talent. Þeir  settu markið hátt og vildu gera þetta strax sem veglegast. Í kjölfarið var haft samband við allar félagsmiðstöðvar í Breiðholtinu og tímasetning ákveðin. Það lá beinast við að halda keppnina í Breiðholtsskóla þar sem má finna glæsilegan sal með góðu sviði. Þeir skiptu með sér verkefnum og sá Hafsteinn um tæknimál og Kári tók að sér að halda utan um atriði, auglýsingar og fleira. Strax í upphafi fengu þeir unglingaráðið með sér í lið og fleiri hæfileikaríka unglinga. Verkefnin sem þau fengu voru af ýmsum toga, má þar nefna tæknimenn, ljósamenn, auglýsingastjóra og margt fleira. Verkefnin voru öll unnin undir handleiðslu starfsmanna. Félgsmiðstöðvarstarfsmenn sinntu hlutverki dómara í keppninnni og settu sig oft í hlutverk ýktra persóna sem völdu síðan fimm bestu atriðin. Áhorfendur keppninnar sáu svo um að kjósa sigurvegara en þetta fyrirkomulag hefur vakið mikla lukku.

Keppnin hefur vaxið og dafnað á síðastliðnum árum og enn fleiri koma að undirbúningi. Svona viðburðir geta ekki orðið að veruleika nema að allir starfsmenn séu samstíga og hefur samstarf félagsmiðstöðanna í Miðbergi verið til fyrirmyndar. Einnig eru unglingarnir reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í að skipuleggja svona flottan viðburð.

Stuttmyndahátíðin Hilmarinn

Hilmarinn er stuttmyndakeppni fyrir unglinga í 8.- 10.bekk í félagsmiðstöðvunum 100og1, 105 og .is. Stuttmyndakeppnin heitir Hilmarinn í höfuðið á Hilmari Oddssyni sem var eitt sinn nemandi í Háteigsskóla. Hann er einnig verndari keppninar og hefur verið dómari frá upphafi.  Hugmyndin að keppninni kom frá tveimur unglingum í Félagsmiðstöinni 105. Þeim langaði að hafa keppni fyrir allar félagsmiðstöðvar sem tilheyra Frístundamiðstöðinni Kampi. Í ár var Hilmarinn haldinn í þriðja sinn og alls voru tólf myndir sýndar í keppninni.  Þrjár af þeim myndum sem tóku þátt í Hilmarnum í ár unnu til verðaluna á kvikmyndakeppni grunnskólanna sem haldin var í vetur.

Ný stjórn og ályktun frá aðalfundi Samfés – Málefni barna og ungmenna á oddinn

62630_370662429719337_236015964_n
Nýkjörin stjórn Samfés

Á aðalfundi Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fram fór á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, var kjörin ný stjórn ásamt því að aðalfundurinn sendi frá sér ályktun um að hvetja frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni. Ályktunin í heild sinni má lesa hér að neðan.

Ásamt hefðbundnum aðalfundarstörfum sóttu fundarmenn svokallaðar WorldCafé umræðustofur þar sem farið var yfir starf Samfés og viðburði. Það var mikill kraftur á fundinum og greinilegt að fagmennskan er í fyrirrúmi hjá félagsmiðstöðvum á Íslandi.

Nýkjörna stjórn Samfés skipa:
Gunnar E. Sigurbjörnsson – Formaður
Andri Lefever – Gjaldkeri
Linda Björk Pálsdóttir
Svava Gunnarsdóttir
Þorvaldur Guðjónsson

Varamenn
Andrea Marel
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson
Óli Örn Atlason

Ályktun aðalfundar: Málefni barna og unglinga verði sett á oddinn

Aðalfundur Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi haldinn á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, hvetur frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni.

Þá minnir fundurinn frambjóðendur á að rödd barna og unglinga á að fá að hljóma þegar ákvarðanir eru teknar um málefni þeirra. Samkvæmt 12. grein Barnasáttmálans sem var lögfestur á nýafstöðnu þingi eiga börn og unglingar rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í þeim málum sem varða málefni þeirra.

Samfés eru frjáls félagasamtök félags- og tómstundamiðstöðva sem bjóða uppá skipulagt og opið æskulýðsstarf þar sem starfsemin byggist upp á lýðræðislegum vinnubrögðum og starfað er samkvæmt skilgreindum uppeldismarkmiðum. 111 félagsmiðstöðvar og ungmennahús eru aðilar að Samfés.

Við erum framtíðin – Málþing útskriftanema í tómstunda- og félagsmálafræði

Miðvikudaginn 17. apríl héldu útskriftanemar í tómstunda- og félagsmálafræði ráðstefnu þar sem þeir kynntu útskriftarverkefni sín. Erindin voru 17 og voru þau eins fjölbreytt og þau voru mörg. Oddný Sturludóttir var ráðstefnustjóri og komst hún vel að orði þegar hún lýsti málþinginu sem hlaðborði af góðum erindum um tómstunda- og félagsstarf. Ráðstefnan var haldin í ráðstefnusalnum Skriðu sem staðsettur er í Háskóla Íslands, Stakkahlíð. Mæting var mjög góð en rúmlega 120 manns voru viðstaddir og hlýddu á erindi útskriftanema.

Við hjá Frítímanum munum fjalla frekar um ráðstefnuna og taka viðtöl við útskriftarnema á næstu vikum.

Hér má lista yfir erindin:

Leikur og forvarnir – Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Þórunn Inga Austmar og Andrea Ósk Guðlaugsdóttir

Aðgerðaáætlun gegn einelti í leikskóla – Guðný Birgisdóttir

Leiðin út úr félagslegri einangrun – Erna Georgsdóttir og Sigurleif Kristmannsdóttir

Sjálfsvirðing/sjálfstraust – Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir

Hrós og hvatning í íþróttum – María Ýrr Sveinrúnardóttir (Mýa)

Foreldrar geta haft áhrif á íþróttaþátttöku barna – Leiðarvísir fyrir foreldra með börn í íþróttum – Unnur Ýr Kristinsdóttir

Áhrif offitu/ofþyngdar á félagslega stöðu – Anna Lovísa Þorláksdóttir

Aðlögun og þátttaka ungra innflytjenda í félagsstarfi í Hafnarfirði – Íris Óskarsdóttir

“Hús þar sem þú mátt taka eins marga inn og þú vilt” – Unglingar og félagsmiðstöðvar – Unnur Ásbergsdóttir

Sértækt hópastarf fyrir unglinga sem sýna áhættuhegðun – Anna Lísa Ríkharðsdóttir

Forysta – fagmennska – fórnfýsi- Alveg frá grunni – Helena Dögg Magnúsdóttir

Félagströllið. Raunfærnismat á félagsstarf – Guðmundur Ari Sigurjónsson

“Við náttúrulega sköpuðum þetta allt” – Leiklist í tómstundastarfi – Bogi Hallgrímsson

Músiktilraunir-Áhrif og ávinningur þátttakenda – Ellen Agata Jónsdóttir

Mikilvægi tónlistar – Davíð Már Gunnarsson

Fyrirmyndastjórnendur – Kenningar í starfi – Hjalti Enok Pálsson

Karlar sem starfa með börnum – Pétur Örn Gíslason