Sunneva úr ungmennaráði Samfés tekur sæti í stjórn samtakana

Á nýafstöðnum aðalfundi Samfés var samþykkt að meðlimir úr ungmennaráði Samfés geta tekið sæti í stjórn samtakana. Seinna á fundinum var Sunneva Halldórsdóttir 15 ára ungmennaráðsmeðlimur frá Dalvík kjörin í stjórn Samfés. 

Við spjölluðum við Sunnevu og spurðum hana hvers vegna hún taldi þetta skref mikilvægt.

 

Hvar standa tómstunda- og félagsmálafræðingar í fagþróun sinni í samanburði við leikskólakennara?

Um rannsóknina

Rannsókn þessi heitir: Hvar standa tómstunda- og félagsmálafræðingar í fagþróun sinni í samanburði við leikskólakennara. Rannsóknin er 30 eininga lokaverkefni til meistaragráðu í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Hún er eigindleg, þar sem niðurstöður er unnar út frá viðtölum við sex þátttakendur. Kolbrún Þ. Pálsdóttir leiðbeindi.

Kveikjan að verkefninu kom fljótlega eftir að ég byrjaði í meistaranámi mínu. Heitar umræður um stöðu tómstunda- og félagsmálafræðinga voru mjög algengar bæði í tímum og kaffipásum. Ég vildi því átta mig betur á stöðunni, til dæmis um það hvar við stöndum sem faghópur. Í þessu verkefni beindi ég því sjónum mínum að fagþróun tómstunda- og félagsmálafræða og voru rannsóknarspurningarnar eftirfarandi:

  • Hvar standa tómstunda- og félagsmálafræðingar og leikskóla­kennarar, miðað við reynslu þátttakenda af fagþróun, ef tekið er tillit til fagþróunarmódels Wilensky  ?
  • Hvaða sérþekkingu telja tómstunda- og félagsmálafræðingar og leikskólakennarar störf þeirra byggjast á ?
  • Hvernig upplifa tómstunda- og félagsmálafræðingar/ leikskóla­kennarar viðhorf annarra til starfsvettvangsins ?

Útdráttur

Markmið verkefnisins er að kanna stöðu tómstunda- og félags­málafræðinga sem sérfræðihóps í samfélaginu. Til að varpa ljósi á stöðu tómstunda- og félagsmálafræðinga voru viðhorf annars vegar þeirra sem störfuðu á vettvangi tómstunda og hins vegar leikskólakennara til fagsins, starfsumhverfis og fagþróunar skoðuð og borin saman með tilliti til fyrri kenninga.

Staða sérfræðihópa hefur verið viðfangsefni félagsfræðinnar um nokkurra áratuga skeið. Virknikenningar (e. functionalism) leggja áherslu á að sérfræðihópur hafi skýrt afmarkað hlutverk í samfélaginu og hagnýti þekkingu sína til góðs fyrir samfélagið. Útilokunarkenningar (e. neo-Weberian) byggjast á þeirri hugsun að sérfræðihópur verði til þegar hópur aðila berst fyrir sérhagsmunum á grunni sérþekkingar. Það ferli sem starfsstéttir fara í gegnum á leið sinni til að verða fullgildir sérfræðihópar er kallað fagþróun. Í þessu verkefni er unnið út frá módeli Wilensky um fagþróun.

Um er að ræða eigindlega viðtalsrannsókn. Tekin voru viðtöl við sex einstaklinga sem áttu það sameiginlegt að hafa reynslu af forystuhlutverki innan sinnar starfsstéttar. Leitast var eftir að draga fram reynslu þátttakenda af fagþróun og stöðu stéttarinnar. Skipulögð inni­haldsgreining (e. directed content analysis) var notuð til að greina gögnin, og draga fram þemu sem einkenndu stöðu stéttar að mati viðmælenda.

Niðurstöður benda til þess að hjá báðum starfsstéttum fari fram óformleg- og tilviljunarkennd menntun og að mikilvægt sé að þekkja þá fræði sem liggi þar að baki. Viðmælendur túlkuðu sérfræðihópa með tilliti til bæði virkni- og útilokunarkenninga. Reynsla viðmælenda af fagþróun þeirra benti til þess að leikskólakennarar væru komnir í gegnum öll stig Wilensky í fagþróunarferli sínu. Hins vegar upplifðu leikskólakennarar að þeir væru ekki viðurkenndir sem sérfræðihópur, þeirra reynsla var sú að fólk sæi ekki mun á fag- og ófaglærðum einstakling og að fólk teldi að í raun þyrfti ekki fimm ára háskólamenntu til að starfa á leikskóla, aðeins stórt fang og hlýtt hjarta. Reynsla tómstunda- og félagsmálfræðinga af fagumhverfi þeirra bendir til þess að þeir séu á flest öllum stigum Wilenksy, þeir eru því komnir á skrið í fagþróun sinni en margt þarf að bæta og þar geta þeir nýtt sér reynslu leikskólakennara. Í ljós kom að mikilvægt væri að rannsaka, skilgreina og koma sérfræðihlutverki starfstéttanna í orð, það myndi auka líkur á viðurkenningu á sérfræðihlutverki hópsins.

Hagnýtt gildi rannsóknar er það að tómstunda- og félagsmálafræðingar geta lært af reynslu leikskólakennara. Í ljós kom að mikilvægt væri að rannsaka, skilgreina og koma sérfræðihlutverki starfstéttanna í orð, það myndi auka líkur á viðurkenningu á sérfræðihlutverki hópsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni

Um höfundinn

EddaÉg heiti Edda Ósk Einarsdóttir er fædd og uppalinn skagamær. Ég hóf störf í félagsmiðstöðinni Arnardal á Akranesi árið 2006 og starfaði þar til ársins 2012. Ég kláraði B.s í sálfræði frá Háskóla Íslands. Ég ákvað síðan að fara í meistaranámi í tómstunda- og félagsmálafræði þar sem starfið í félagsmiðstöðinni heillaði mig upp úr skónum, ég gjörsamlega kolféll fyrir þessu starfsumhverfi og vildi því mennta mig frekar á því sviði. Því miður er ekki mikið um 100% störf á þessu sviði hér á Akranesi. Þess vegna hóf ég störf í leikskólanum Akraseli árið 2012  þar vinn ég með litlum snillingum, þar sem ég reyni eftir fremsta megni að yfirfæra nám mitt og reynslu til að mennta þá einstaklinga sem hjá mér eru.  Over and Out 🙂

Hvað er fagmennska?

Við fengum leyfi Huldu Valdísar formanns Félags Fagfólks í Frítímaþjónustu að birta grein hennar um fagmennsku sem hún birti upprunalega á heimasíðu FFF.

Hvernig sinnum við sem vinnum á vettvangi frítímans starfi okkar af fagmennsku? Hvað þýðir það að sinna starfi sínu af fagmennsku? Í hverju felast fagleg vinnubrögð? Hvernig er hægt að meta og segja til um það hvað telst vera fagmennska og hvað ekki? Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið fagmaður skilgreint á þann veg að fagmaður sé sérfræðingur, maður sem sérlærður er til ákveðins verks. En dugar það að læra ákveðið verk eitt og sér til að hægt sé að kallast fagmaður? Já eflaust má svara því játandi upp að vissu marki en það þarf þó meira til. Það þarf að tileinka sér ákveðin gildi í starfinu, gildi sem eru viðurkennd og hægt er að koma sér saman um að skipti máli fyrir fagið og talin eru nauðsynleg til að hægt sé að segja að starfi sé sinnt af fagmennsku.

Í áhugaverðri grein á Vísindavefnum (Henry Alexander Henrysson, 2012) er hugtakið fagmennska talið siðferðilegt hugtak „sem krefst þess að verk séu unnin heiðarlega og fyrir opnun tjöldum“. Fagleg vinnubrögð eru þannig talin kalla á ákveðið gagnsæi og einnig eru traust og ábyrgð talin einkennandi fyrir fagmennsku. Einn liður í því að styrkja fagleg vinnubrögð getur þannig verið að starfsstéttir setji sér siðareglur. Það má kannski segja að einn liður í því að vera fagmaður sé að starfa eftir og tileinka sér gildandi siðareglur i því fagi sem viðkomandi starfar í og þannig sé hægt að tryggja fagmennsku upp að einhverju ákveðnu marki.

Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) samþykkti sínar siðareglur á aðalfundi félagsins í maí 2008. Þar kemur m.a. fram að grundvöllur starfs fagfólks í frítímaþjónustu sé virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fulls. Lögð er á áhersla á heiðarleika og virðingu fyrir skoðunum, lífi og réttindum einstaklinga auk þess sem vinna skal að því að skapa traust almennings á faglegri frítímaþjónustu og ekki megi gera neitt sem rýri orðstír fagsins eða hópsins. Siðareglurnar má lesa í heild sinni hér. Samhliða siðareglum verður að vera skýrt hvað gerist ef þær eru brotnar og hvað ferli fer þá af stað. Einnig er mikilvægt að umræða um gildandi siðareglur sé tekin upp reglulega og reglurnar uppfærðar og þeim breytt eftir aðstæðum, lögum og reglum hverju sinni. Stjórn
FFF hefur nýlega ákveðið að nú sé tímabært að fara í umræður og endurskoðun á siðareglum félagsins og mun kalla eftir virkri þátttöku félagsmanna í þeirri vinnu.

Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar fjallað er um fagmennsku og hvað felst í henni að  ekkert einfalt svar er til. Fagmennska er margslungið fyrirbæri sem erfitt er að festa hendi á en að sama skapi eigum við oft auðvelt með að svara því hvað telst ekki vera fagmennska. Það að mennta sig í frítímafræðum, vinna eftir þeim siðareglum sem gilda um vettvanginn og taka virkan þátt í umræðum um þróun hans er að minnsta kosti góð byrjun á þeirri vegferð að geta kallað sig fagmann á vettvangi frítímans.

Heimildir:

Henry Alexander Henrysson. (2012, nóvember). Hvað eru fagleg vinnubrögð? Vísindavefurinn. Sótt 23. september 2013 af  http://visindavefur.is/?id=62547

Mörður Árnason (Ritstj.). (2002). Íslensk orðabók, 3. útgáfa.  Reykjavík: Edda útgáfa hf.

Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.

 

Evrópu samvinna í 20 ár – Uppskeruhátíð Evrópu unga fólksins

Föstudaginn 22. nóvember fer fram uppskeruhátíð samstarfsáætlanna ESB en frá og með áramótum verða þessar áætlanir sameinaðar undir einu nafni, Erasmus+. Ein af þeim áætlunum sem munu falla undir Erasmus+ er Evrópa unga fólksins en sú áætlun hefur stutt við æskulýðsvettvanginn með því að fjármagna samstarfs- og þróunarverkefni á sviði æskulýðsmála.

Á síðustu 7 árum sem EUF hefur verið starfandi hefur áætlunin úthlutað €6.882.515 en á gengi dagsins í dag eru rúmlega 1.1 milljarður króna. Þetta fjármagn hefur runnið 410 verkefni sem unnin hafa verið hér á landi og hafa 6500 þátttakendur tekið þátt í þessum verkefnum.

Við hvetjum alla til að fjölmenna í Hafnarhúsið þar sem EUF verður með bás og kynningu á fyrirmyndarverkefnum sem áætlunin hefur styrkt. Einnig munu fulltrúar EUF svara spurningum varðandi nýju áætlunina Erasmus+.

Uppskeruh.22-2