Ég held að flestir á mínum aldri muni eftir óþægilegum kennslustundum í kynfræðslu á unglingsstigi í grunnskóla. Ég man eftir að hafa setið í líffræðifræði tíma og horft óörugg í kringum mig þegar kennarinn setti spólu í tækið og við horfðum á fæðingu. Allir flissuðu og stelpurnar svitnuðu við tilhugsunina um að þær myndu kannski þurfa að ganga í gegnum þessa kvöð einn daginn. Við fengum síðan tvisvar sinnum kynfræðslu þar sem okkur var skipt í tvo hópa: stelpur og stráka. Hjá okkur stelpum var rætt um tíðahringinn, getnaðarvarnir og kynsjúkdóma. Í algjörri hreinskilni þá hljómaði kynlíf mjög óspennandi og hættulegt eftir þessa tvo tíma.
Eitt af grundvallaratriðum starfsmanna í félagsmiðstöðvum er að eiga samskipti við unglingana sem byggjast á trausti. Félagsmiðstöðvar geta því verið góður staður til þess að ræða málefni sem teljast vandræðaleg eða viðkvæm. Mikil pressa getur verið á unglingum frá jafnöldrum að stunda kynlíf, því það að falla inn í hópinn getur verið stór partur af sjálfsmynd unglinga. Þegar ég var unglingur fannst mörgum mjög mikilvægt að vera búin að sofa hjá fyrir menntaskóla, en hvað veit maður um kynlíf fyrir menntaskóla ef fræðslan er meiri forvörn heldur en fræðsla?
Ég held að margir unglingar leiti oft til eldri systkina með spurningar. Systir mín kom til mín þegar hún var nýbyrjuð í menntaskóla og ræddi við mig um getnaðarvarnir. Þegar við ræddum um pilluna þá sagði hún: „ En það þarf samt sem betur fer ekkert að pæla í þessu í fyrsta skiptið“. Þetta var ekki einungis viðhorf systur minnar heldur héldu allar stelpurnar í vinkonuhópnum hennar að það þyrfti ekki að nota neina getnaðarvörn í fyrsta skipti sem þær stunduðu kynlífi. Þær höfðu þá allar tekið einhverju mjög bókstaflega sem ein þeirra hafði sagt þeim. Gagnrýnin hugsun er eitthvað sem þjálfast og lærist með árunum og unglingar eru enn þá að móta hugmyndir og skoðanir. Þess vegna er svo rosalega mikilvægt að sú fræðsla sem unglingar eru að fá sé sönn, veki áhuga og spurningar. Það þarf að ræða um samskiptin sem fara fram í kynlífi, hvar mörkin liggja, hvernig á að koma fram við hvert annað o.s.frv. Þetta er mikilvægt að ræða til þess að stuðla að heilbrigðum samskiptum í kynlífi.
Þeir sem vinna í félagsmiðstöðvum vita að margir unglingar leita til þeirra með spurningar og til þess að fá ráð. Sumar félagsmiðstöðvar halda sérstök „tabúkvöld“ þar sem unglingar geta skrifað nafnlausar spurningar sem eru síðan lesnar upp og þeim svarað eftir bestu getu starfsmanna. Það finnst mér ótrúlega flott þróun. Það væri óskandi að skólar og félagsmiðstöðvar myndu vinna að því saman að fræða unglinga um þessi málefni, þar sem þau myndu ákveða hvað væri best að ræða hvar og með því væri verið að taka sameiginlega ábyrgð. Mér finnst ótrúlega mikilvægt að fagfólk í félagsmiðstöðvum og kennarar viti hvernig eigi að ræða þessi mál á ábyrgðarfullan og faglegan hátt til þess að koma í veg fyrir að fræðslan sem unglingar fá sé ekki bundin við netið heldur að félagslegir þættir kynlífs séu ræddir. Til að stuðla að því að viðhorf til kynlífs sé jákvætt og heilbrigt hjá unglingum þá þarf að vera vettvangur þar sem unglingar vita að þeir geta rætt málin og fengið rými til þess að mynda sínar eigin skoðanir.
——-
Lilja Eivor Gunnarsdóttir Cederborg,
nemandi í tómstunda- og félagsmálafræðum