Íslenskar fyrirmyndir sem að elska að taka dóp?

Ég sest inn í bíl eftir langan og strangan dag, sný lyklinum í svissinum, bíllinn fer í gang og þar af leiðandi útvarpið líka. Þegar ég er kominn hálfa leiðina heim klárast lagið sem var í gangi og við tekur dáleiðandi raftónlist, takturinn er hrífandi, minnir svolítið á teknó-klúbb. Fljótlega byrjar dimm og drungaleg rödd að kyrja orðin:

„Ungir strákar sem að elska að taka dóp!
Ungir strákar sem að fá ekki nóg!“

Þetta lag hefur verið spilað í yfir sexhundruð þúsund (600.000+) skipti á Spotify og er sífellt endurspilað á vinsælustu útvarpsstöðvum landsins (það er að segja vinsælustu tónlistarstöðvunum). Þessa rödd á ungur maður sem ber listamannsnafnið Flóni. Ég veit ekki hvort að hann geri sér grein fyrir því en hann er fyrirmynd. Góð eða slæm? Allaveganna fyrirmynd ungmenna, ungmenna sem eru á því þroskaskeiði þar sem að sjálfsmyndin er að þróast. Leitast er við að svara spurningunni: Hver er ég? Og ein af leiðum þeirra til þess að finna svörin er að prófa sig áfram í hlutverkum. Hlutverkum sem fyrirmyndir í nánasta umhverfi skaffa. Flestir geta tengt við það að hafa átt fyrirmynd einhvern tímann á lífsleiðinni. Sígild hugsun: „Hey, þessi er töff, mig langar til þess að vera alveg eins!“ En hvernig varð eiturlyfjaneysla svöl? Af hverju er það eftirsóknarvert að hafa enga samúð? Hvað er aðdáunarvert við það að vera með ískalt viðmót? Hvað með að selja dóp? Þetta allt og meira til er verið að upphefja í textunum hans Flóna og, þó að það sé skrítið að segja, þá er auðvelt að fá þessa texta á heilann, lögin sem spiluð eru undir eru vel unnin, því miður. Oft þarf ekki nema góðan takt og þá er lag komið á vinsældarlistann, þrátt fyrir innihald textans. Hér eru nokkrir bútar úr lögum eins og Ungir strákar (titill lagsins sem ég vitnaði í hér að ofan), Trappa (að selja dóp), Ísköld, Leika og Tala saman.

„…elska að vera trappa, trappa, alla fokking daga, já ég veit ég elska að trappa…“
„Meiri dóp, meiri dóp, ójá!“
„Hún er ísköld, ísköld.“
„Uppi í rúmi sveitt, ég stari á þig, þú vilt mig meira, poppa eina pillu og ég er strax farinn að gleyma.“
„Ég ætla að halda áfram að hafa gaman og vera alveg sama.“
„Rúlla mér eina og við byrjum að tala saman.“

Þetta er ekki bara Flóni, þó svo að hann sé einn af þeim óhræddustu við að leyfa eiturlyfjum að fylgja lögunum sínum. Ekki það að það ríki einhver sérstök hræðsla hjá svipuðum listamönnum. Birnir er líka vinsæll þessa dagana en hann syngur um að taka tvær (pillur) í laginu sínu Út í geim. Joey Christ syngur um að smóka J, fá sér pillu og að vera í slæmum félagsskap í geysivinsæla laginu Joey Cypher sem hefur verið spilað yfir 1,5 milljón sinnum. Hann og Birnir unnu saman við að gefa út lagið Túristi en þar syngja þeir um að kaupa sér gras, poppa pillur, prófa nýtt dóp og fleira. Herra Hnetusmjör og Aron Can eru í þessum hópi líka, syngja söngva um að lítilsvirða annað fólk, eiturlyf, peninga og töffarastæla. Til að nefna fleiri: Landaboi$, Gísli Pálmi, Shades of Reykjavík, Alexander Jarl, Logi Pedro og Emmsjé Gauti. Það þarf bara að hlusta á nokkur lög til að finna tilvitnanir í það sem mætti teljast áhættuhegðun (brengluð kynlífsmynd, eiturlyf, áfengi, ólöglegt athæfi, andúð o.fl.).

Þessi tegund af íslenskari tónlist er dropi í hafsjó tónlistar sem upphefur slæma (og stundum viðbjóðslega) hegðun. Þó eru allar líkur á því að þessir listamenn séu aðeins að gera sér upp skáldaðar persónur og leika þær til að kalla fram öfund frá öðru fólki eða til þess að fá aðra til að líta upp til þeirra. Það virðist vera að takast. Unglingar. Ungmenni. Ungt fólk. Börn. Grunnskólanemar. Þessir hópar hlusta á þessa listamenn og eru áhrifagjarnari heldur en aðrir hópar. Ég er hræddur við að eldur sé kviknaður, þessi bylgja endurspeglar það sem börnum Íslands þykir eftirsóknarvert: Eiturlyf, peningar og samúðarleysi (og svo allt sem því fylgir), náum við að slökkva hann?

Ármann E. Jónsson,
uppeldis- og menntunarfræðinemi