Á öllum heimilum má finna einhvers konar snjalltæki og eru fáir sem fara að heiman án þess að vera með símann sinn með sér. Í kjölfar þessarar aukningar á snjalltækjum og samfélagsmiðlum má sjá nánast alla unglinga með síma og keppast þau um að vera með nýjustu og bestu símana. Nú til dags sér maður varla framan í fólk vegna þess að við eigum það til að lúta höfði ofan í símann okkar. En hvernig hefur þessi aukning á snjalltækjum áhrif á unglinga í dag og hvort, og þá hvernig, hefur form eineltis breyst í kjölfar þess? Lesa meira “Það þarf ekki nema eina mynd”
Tag: Forvarnir
Forvarnargildi félagsmiðstöðva í minni sveitarfélögum
Þegar litið er á íslenska unglinga má sjá ótrúlega mismunandi einstaklinga og fjölbreytta hópa. Í gegnum kynslóðirnar sést hvað áherslurnar breytast gríðarlega hratt þar sem á þessu tímabili breyta unglingar um stefnu og stað á stuttum tíma. Þau kynnast nýju fólki, taka fyrstu skrefin að sjálfstæði og þroskast mikið á örfáum árum. Fólk sem vinnur með unglingum sér hvað hópar eru mismunandi, áherslur í starfi breytast og að starfið er stanslaust að þróast. Áhugamál einstaklinga eru mismunandi og í mörgum tilfellum breytast þau á meðal þeirra á þessu tímabili. Einstaklingar sem hafa æft íþróttir geta dregist aftur úr og jafnvel hætta að æfa þegar áhugi þeirra breytist og aukið frelsi í tómstundaiðkun getur leitt til margskonar áhættuhegðunar.
Í grein eftir Vöndu Sigurgeirsdóttur (2014) bendir hún á mikilvægi tómstundamenntunar. Tómstundamenntun getur bæði verið formlegt og óformlegt nám. Hún snýst um það að kenna einstaklingum að nýta frítímann sinn á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þegar á heildarmyndina er litið eyðum við meiri tíma af ævi okkar í frítímann heldur en við eyðum í skóla og starf til samans. Því gefur það auga leið að ef við nýtum þennan mikla tíma á neikvæðan hátt, eins og áfengisneyslu, hreyfingarleysi, depurð o.s.frv., veitir frítíminn okkur ekki mikla vellíðan og eykur það hættu á andlegum-, félagslegum- og líkamlegum vandamálum. Áhugamál og jákvæð tómstundaiðkun er okkur mjög mikilvæg og eykur líkur á heilbrigðu andlegu og líkamlegu líferni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2014).
Félagsmiðstöðvar hafa verið til staðar í okkar samfélagi í áratugi og sveitarfélög eru krafin um að reka unglingastarf í einhverri mynd. Hugmyndafræði félagsmiðstöðva hefur verið í stanslausri mótun síðustu áratugi. Grunnhugmyndafræðin byggist á kenningum um félagsmótun, þroska, gildi og viðmið. Fræðimenn hafa lagt áherslu á það að unglingar eigi að nota félagsmiðstöðvar til að prufa sig áfram og læra af mistökum. Þær eiga að skapa umhverfi þar sem unglingamenning getur ráðið ríkjum og þeirra þörfum þjónað. Starfið á að brúa bilið á milli skipulegrar tómstundaiðkunar, eins og íþróttafélögin o.s.frv., og í óskipulegt tómstundastarf sem einstaklingar stunda sjálfir (Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir, 2017).
Kostir lítilla sveitarfélaga eru margskonar. Þau bjóða upp á meira frelsi fyrir börn og unglinga. Unglingar geta auðveldlega farið til vina sinna, foreldrar og forráðamenn jafnvel þekkjast vel og hóparnir verða jafnvel nánari. Kosturinn við litlar félagsmiðstöðvar eru persónuleg aðkoma. Þegar unnið er rétt, getur verið auðvelt að ná til jaðarhópa og veita persónulegri þjónustu fyrir þarfir hvers einstaklings. Starfsmannahópurinn er frekar lítill og unglingarnir ná góðum tenglum við starfsfólkið. Fagfólk félagsmiðstöðva eru oft besta forvörnin, þau grípa umræðuna og fræða ungmenni á óformlegan máta, mæta þörfum þeirra í þeim umræðum sem ungmennin leita í. Félagsmiðstöðvar bjóða upp á óformlegt nám sem kennir samskipti, forvarnarvinnu, sjálfsskoðun og umgengni við mismunandi hópa samfélagsins. Þá er unnið með minni hópa sem gerir það að verkum að auðveldara er að grípa þau ungmenni sem eru ekki virk í tómstundum eða sýna áhættuhegðun. Því er nauðsynlegt að unnið sé vel að starfinu, stuðlað að fjölbreyttri dagskrá og aðstöðu til að unglingar geta prufað sig áfram í tómstundum og fundið sín áhugamál.
Að mínu mati eiga sveitarfélög að leggja mikla vinnu í félagsmiðstöðvar því þar myndast samfélög sem brúar bilið á milli jaðarhópa og mynda jafningjagrundvöll þar sem allir fá tækifæri til spreyta sig í sínum áhugamálum. Þegar starf félagsmiðstöðvar er vel unnin, eftir góðri stefnu og góðum gildum er svo auðvelt að styðja börn og unglinga í gegnum krefjandi þroskaskeið, hjálpa þeim að verða að heilbrigðu ungu fólki með sterka sjálfsmynd, hvata til að breyta rétt, jákvæða leiðtogafærni og heilbrigða samskiptahæfni. Því hvet ég sveitarfélög, stór og smá, að vanmeta ekki forvarnargildi félagsmiðstöðva heldur að auka virkni, metnað og sveigjanleika til að vinna metnaðarfullt starf.
—
Sigurhanna Björg Hjartardóttir
Heimildir:
Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir. (2017). Félagsmiðstöðvar barna og unglinga. Í Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir (ritstjórar), Frístundir og fagmennska: Rit um málefni frítímans (bls. 109-121). Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og Rannsóknarstofa í tómstundafræðum.
Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1).
Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?
Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.
Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.
Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.
Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.
Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.
Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.
Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?
—
Elín Ólöf Sveinsdóttir
Heimildir
Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt
af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up
Fá börn að njóta æskunnar í fámennum sveitarfélögum?
Íþrótta- og æskulýðsstarf gegnir þýðingarmiklu hlutverki í samfélagi okkar og í lífi einstaklinga. Þátttaka barna og ungmenna í starfinu hefur fjölþætt gildi á ýmsum sviðum og í gegnum þetta mikilvæga starf skapast vettvangur til að vinna að aukinni lýðheilsu, efla félagsþroska barna og ungmenna ásamt því að vinna að forvörnum, félags- og lýðræðiþátttöku, borgaravitund og ýmsu fleira.
Við höfum öll heyrt af ávinningi forvarnarátaka á Íslandi síðustu áratugi þegar kemur að neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna meðal ungmenna á Íslandi. Það hefur unnist með markvissu átaki og forvörnum í gegnum árin ásamt áherslu á virka þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með þessum árangri hefur skilningur samfélagsins á gildum tómstunda og íþrótta skilað auknum fjárframlögum og áherslum í þeim málaflokki. En er sigurinn unninn og getum við farið að slaka á? Langt því frá, því það er ekki algilt að á Íslandi séu starfrækt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í hverju hverfi, bæ eða þorpi.
Snemma á þessu ári komst í fréttirnar úrskurður frá Norðurþingi þar sem að sveitastjórn ákvað að það skyldi loka sundlaug Raufarhafnar yfir veturinn og takmarka aðgengi að íþróttahúsinu. Lokunin nær til allrar þjónustu sem að var í boði í húsinu, þar á meðal sundlaugarinnar, innrauðs klefa, heits potts, gufuklefa og aðgengi almennings að íþróttahúsinu. Lokunin er gerð í sparnaðarskyni því að aðsóknin í íþróttamiðstöðina réttlætti ekki starfsemina. Samt sem áður er sundlaugin mjög vel sótt, yfirleitt er einhver í sundi og jafnvel nokkrir í einu sem að er jákvætt í ekki stærra þorpi.
Sundlaugin hefur gríðarlegt gildi fyrir íbúa þorpsins enda miklu meira en bara sundlaug. Hún þjónar ekki einungis heilsueflandi tilgangi fyrir alla aldurshópa og að vera samkomustaður heldur er hún líka í raun eina tómstund barnanna í þorpinu á veturna. Það er því ekki undarlegt að þessi ákvörðun hafi vakið miklar tilfinningar meðal íbúa Raufarhafnar. Þessi skerðing myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir íbúana. Maður spyr sig hvernig er hægt að réttlæta að skera niður grunnþjónustu við heilt þorp þegar aðrir léttvægari hlutir innan sama sveitafélags eru fjármagnaðir, t.d. upphitaðir göngustígar á Húsavík.
Eftir mikil mótmæli íbúa og áskorun frá Hverfisráði Raufarhafnar var ákveðið að endurskoða lokun sundlaugarinnar en hún verður lokuð fram í apríl vegna viðhaldsvinnu og gert er ráð fyrir að hún opni í byrjun maí. Sem þýðir að með samstöðu og baráttu íbúa var ekki einungis hætt við að skera niður þjónustuna heldur er nú verið að fjárfesta í henni og bæta. En þegar þessi ákvörðun var tekin af fjölskylduráði Norðurþings ímynda ég mér að þau hafi ekki fyllilega velt fyrir sér áhrifum hennar og til þeirra mörgu hlutverka sem að sundlaugin þjónar.
Ég fagna baráttu Raufarhafnarbúa og sé nú hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um réttindi okkar og barna okkar til jákvæðrar tómstundaiðkunnar. Þessi ákvörðun sýnir að þrátt fyrir mælanlegan árangur og skilning á mikilvægi tómstundastarfs er ekkert sem að stendur í vegi fyrir niðurskurði að hálfu sveitafélagsins nema við íbúarnir. Það er greinilega þörf á því að bundið sé í lög aðgengi að frítímaþjónustu fyrir almenning á landinu öllu. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélögin mismuni íbúum sínum og að við getum boðið upp á jákvætt frístundastarf um allt land allt árið.
—
Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir
Höfundur er nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrrum íbúi á Kópaskeri.
Bætt samskipti – Betri heimur
„Það er miðvikudagskvöld og ég er að labba heim úr félagsmiðstöðinni. Palli og Gummi eru á rúntinum. Þeir stoppa bílinn og bjóða mér far. Ég á ekki langt labb eftir heim, en það er rigning úti svo ég þigg farið. Ég sest aftur í. Gummi kemur strax í aftursætið og segir „Ég ætla að ríða þér!“ Þeir rúnta fáfarinn veg á meðan Gummi gerir akkúrat það, og skila mér svo á sama stað og þeir pikkuðu mig upp. Ég geng heim. Segi engum frá. Ég er 15 ára stúlka.“
„Það er miðvikudagskvöld og ég er að labba heim úr félagsmiðstöðinni. Fimm strákar elta mig uppi og ráðast á mig. Þeir berja mig og sparka í mig. Kalla mig öllum illum nöfnum. Hlæja. Taka það upp á símana sína og senda á vini sína. Fara svo þegar þeir hafa fengið nóg. Ég geng heim. Segi engum frá. Ég er 15 ára strákur.“ Lesa meira “Bætt samskipti – Betri heimur”
Hver á að taka „spjallið“? Hugleiðingar til foreldra unglinga
Þegar börn komast á unglingsárin þarf að huga að ýmsu. Unglingar finna fyrir miklum breytingum á líkama sínum, hugsunum og líðan. Þau verða sjálfstæðari, leita meira til vina og spegla sig og umhverfi sitt við jafningjahópinn.
Uppeldi er viðkvæmt og vandasamt. Ýmsar áhyggjur blossa upp þegar kemur að unglingsárum og foreldrar spyrja sig jafnvel hvernig mun þessi einstaklingur spjara sig í hinum stóra heimi, mun hann taka „réttar“ ákvarðanir og á ég sem foreldri að leiðbeina honum í einu og öllu eða leyfa honum að læra af mistökum? Lesa meira “Hver á að taka „spjallið“? Hugleiðingar til foreldra unglinga”