Ruslageymsla eða fjársjóðskista?

„Er félagsmiðstöð ekki bara svona staður sem unglingar hanga á?“ Er spurning sem að tómstunda- og félagsmálafræðinemar svara reglulega. Þá sérstaklega þau okkar sem starfa á slíkum stöðum. Félagsmiðstöð er vissulega staður sem unglingar koma og „hanga“ á, en það er bara svo margt annað sem að staðurinn getur gert fyrir þau. Sú alhæfing að unglingar geri ekki annað í félagsmiðstöðvum en að eyða tíma sínum þar er í besta falli móðgun og í versta falli niðurbrjótandi fyrir þá öflugu starfsemi sem fram fer innan félagsmiðstöðva.

Félagsmiðstöðvar eru nefnilega magnaðar að því leyti að þar þarf ekkert frekar að vera stanslaus dagskrá, þó það sé að sjálfsögðu skemmtilegra. Unglingarnir koma nefnilega líka til að eiga rólega stund og spjalla, þetta spjall er svo það sem getur skipt sköpum um hugmyndir þeirra um ýmislegt. Að setjast niður og spyrja starfsfólkið um málefni sem gæti verið erfitt að ræða við aðra er til dæmis mjög jákvætt. Samtölin fjalla yfirleitt um eitthvað léttvægt, svo sem tónlist, ferðalög, nám og annað í þeim dúr. En þau geta farið út í dýpri og erfiðari hluti, svo sem einelti, ofbeldismál og önnur erfið mál. Auk þess sem að forvitni þeirra um kynlíf og vímugjafa kemur reglulega fram.

Mjög mikilvægt er að starfsmenn séu tilbúnir til þess að taka þá umræðu og geta spjallað um öll málefni. Það er alls ekki gefið að unglingar hafi einstaklinga í sínu nærumhverfi sem þau treysta sér til að tala við um óþægileg málefni sem gerir það að verkum að unglingurinn gæti verið með vissar ranghugmyndir um viðkvæm málefni. Félagsmiðstöðin getur því verið griðastaður fyrir þá unglinga. Þau fá ráð auk þess sem að finna fyrir því að það séu einstaklingar sem vilja hlusta á þau.

Það að mæta í félagsmiðstöð er nefnilega val unglinganna, það er ekki skylda og það er enginn sérstakur tími sem þau verða að vera þar. Umhverfið þar er því eitthvað sem þeim sem mæta þangað líður vel í.

Augljóst er að unglingarnir græða mikið á því að mæta í félagsmiðstöðina. Þó er ástæðan ekki bara sú að þarna eiga þau sinn griðastað, heldur vegna þess að þau fá tækifæri til þess að uppgötva hæfileika sína. Dagskráin er yfirleitt frekar fjölbreytt sem leiðir til þess að unglingarnir fá tækifæri til þess að kynnast hlutum sem að þeim hefði ekki sjálfum dottið i hug.  Bæði eru viðburðir innan Samfés sem að hvetja unglinga til þess að taka þátt í tónlist, leiklist, dansi og hönnun  auk þess sem að þau fá oft tækifæri til þess að vera í ábyrgðarstöðum sem getur eflt sjálfstraust þeirra og sýnt þeim fram á að hæfileikar þeirra séu margvíslegir.

Því er mjög greinilegt að starfsemi félagsmiðstöðva er gríðarlega mikilvæg og nauðsynlegt er að efla það starf sem nú þegar er í boði. Auk þess þarf að auka þá viðburði sem eru í boði hjá Samfés til þess að ná til fleiri unglinga. Ljóst er að það er ástæða fyrir því að unglingastarf er eins vel sótt og það er og þess vegna má ekki líta á starfsemina sem tilgangslausan hangs stað. Þess heldur á að impra á því hvað það er margt gagnlegt og gera enn meira úr því sem að getur hjálpað unglingunum. Þeirra skoðanir, hæfileikar og viðhorf eru illa nýttur fjársjóður sem þarf að nýta mun betur. Félagsmiðstöðvar eru því faldar fjársjóðskistur sem þarf að gera sýnilegri og breyta viðhorfinu gagnvar þeim.

Ásthildur Guðmundsdóttir

Eigum við að lögleiða félagsmiðstöðvar?

Já, það er skrítið að ég sé að spá í því hvort að það eigi að lögleiða félagsmiðstöðvar.  Mörgum finnst eftirfarandi setning vera ögn eðlilegri: ,,Eigum við að lögleiða kannabis?” Enda hefur hún verið á milli tannanna á fólki í langan tíma.

En ástæða þess að ég velti þessu fyrir mér er sú að félagsmiðstöðvar eru í raun ekki þjónusta sem sveitarfélögin þurfa í raun að hafa eins og til að mynda skólar. Með einu pennastriki getur bæjarstjórn hvers sveitarfélags strokað út félagsmiðstöðina. Vissulega er fjárskortur í mörgum sveitarfélögum ef ekki öllum. Það er verið að skera niður allsstaðar og hafa félagsmiðstöðvar heldur betur fundið fyrir því. Ég tel því mikilvægt að það yrði sett í lög að sveitarfélögum sé skylt að bjóða uppá þessa þjónustu. Lesa meira “Eigum við að lögleiða félagsmiðstöðvar?”

Samfestingurinn – Barn síns tíma?

gudrun mariaÍ dag þekkjum við félagsmiðstöðvar sem stað án áfengis og vímuefna þar sem unglingar geta komið saman í frítíma sínum. Flestar félagsmiðstöðvar eru með opið nokkrum sinnum í viku og bjóða ýmist upp á klúbbastarf, opin hús eða stærri viðburði eins og böll, árshátíðir, leiksýningar og fleira.
Félagsmiðstöðvum var komið á laggirnar í kringum 1955 því fólki varð ljóst að unglingum vantaði eitthvað að gera í frítíma sínum. Æskulýðsráð Reykjavíkur var stofnað árið 1956 og í kjölfar þess Tómstundarheimilið. Næstu árin á eftir spruttu upp félagsmiðstöðvar víðsvegar um landið. Lesa meira “Samfestingurinn – Barn síns tíma?”

Mikilvægi hins faglærða og ófaglærða starfsmanns

guðfinna ágústsdóttirSíðastliðin 150 ár hafa átt sér stað gríðarlegar samfélagsbreytingar sem gerir það að verkum að æskulýðurinn hverju sinni er sífellt að takast á við aðstæður sem foreldrarnir þekkja ekki af eigin raun í sínu uppeldi. Getur því fylgt óöryggi sem kemur meðal annars fram í þeirri firru að æskylýðurinn sé ávallt á villigötum. Ef aðstæður heima fyrir eru ekki upp á sitt besta, samtal, tími eða stuðningur foreldra ekki til staðar, þá ættu ungmenni ekki að vera í neinum erfiðleikum með að leita til fagaðila sem geta veitt þeim þá aðstoð sem þau leitast eftir. Skilningur foreldra getur verið takmarkaður þar sem þau eru ekki alveg með á nótunum um þau atriði sem geta hrjáð nútíma ungling.

Því skiptir sérstaklega miklu máli að ungmenni geta leitað ráða, mætt virðingu og fengið hvatningu frá starfsfólki félagsmiðstöðvanna, hvort sem það er faglært eða ófaglært. Lesa meira “Mikilvægi hins faglærða og ófaglærða starfsmanns”

Íþróttakrakkarnir og „hinir krakkarnir“

guðrún bjarnaVið sitjum við eldhúsborðið og umræður snúast um „hina krakkana“ eins og börnin mín kalla þau en það eru krakkarnir sem ekki stunda íþróttir alla daga vikunnar.  Hvað gera þeir unglingar sem ekki æfa íþróttir í frítíma sínum ? Þegar ég spyr 13 ára dóttur mina hvað vinir hennar í skólanum geri og hvort þau færu kannski í félagsmiðstöð skólans var svar hennar einfalt – „hvað er félagsmiðstöð“?

Ég á 2 börn á unglingsaldri sem æfa afreksíþrótt alla daga vikunnar 3-4 klst í senn  og er því íþróttahúsið þeirra annað heimili. Þar eru þeirra bestu vinir og umhverfi sem þeim líður vel í. En eru íþróttabörnin mín að fara á mis við mikilvægan hluta unglingsáranna með því að verja öllum sínum tíma í íþróttahúsinu og missa því af mjög mikilvægu starfi félagsmiðstöðvanna? Lesa meira “Íþróttakrakkarnir og „hinir krakkarnir“”

Týndu börnin

heida elinHversu oft höfum við ekki séð auglýsingar í fjölmiðlum frá lögreglunni um týnd ungmenni? Hvað er það sem fær þessi börn til fara að heiman? Hvað er hægt að gera til að hjálpa þessum ungmennum áður en þau lenda á jaðrinum á samfélaginu og áður en þau grípa til þess ráðs að strjúka af heiman? Í janúar á þessu ári var Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri ráðinn í fullt starf við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við leitina á týndu börnunum. Guðmundur hafði sjálfur persónulega reynslu af slíkum málum þar sem hann á dóttur sem hafði lent í slæmum félagsskap og þaðan leiðst út í neyslu vímuefna. Lesa meira “Týndu börnin”