Félagsmiðstöðvar eru gríðar mikilvægur þáttur í velferðarþjónustu fyrir unglinga og eru ýmsir þættir sem hafa áhrif á gæði félagsmiðstöðvarstarfsins. Starfsfólk félagsmiðstöðva eru óneitanlega miklir áhrifavaldar á starfið og því er mikilvægt að starfsfólkið sé ávallt með það í huga hvernig hægt er að bjóða unglingunum upp á sem besta þjónustu og að starfið sé alltaf á forsendum unglinganna. Ég tel að fjölbreytileiki starfsfólksins sé mjög mikilvægur þáttur þegar kemur að því að halda uppi góðu starfi og bjóða upp á góða þjónustu. En í hverju felst góð þjónusta í félagsmiðstöð og hvaða hlutverk hefur starfsfólk í raun og veru?
Hlutverk starfsfólks félagsmiðstöðva hefur breyst mikið í gegnum tíðina en þegar starfsemin var að hefja göngu sína á Íslandi um miðja 20. öldina var hlutverk starfsfólks félagsmiðstöðva að miklu leyti að stýra og stjórna unglingunum og starfinu. Með víðteknari hugmyndum um unglingalýðræði þróaðist þetta hlutverk úr því að vera nokkurskonar yfirmannsstaða yfir í jafningjahlutverk (Árni Guðmundsson, 2007). Starfsfólkið hefur öðlast stöðu jafningja sem getur veitt ráðgjöf á öðrum forsendum en til að mynda starfsfólk annarra uppeldisstofnanna og foreldrar. Flest starfsfólk félagsmiðstöðva hefur eflaust lent í því að unglingar leita til þeirra með eitthvað sem þeim liggur á hjarta og þá mögulega áður en þau tala við foreldra sína, starfsfólk skólans eða jafnvel vini sína. Þessu mikla trausti sem margir unglingar bera til starfsfólks félagsmiðstöðvar sinnar fylgir ábyrgð og þess vegna þarf félagsmiðstöðin að vera búin starfsfólki sem er tilbúið að standa undir henni að fullu og koma fram við unglingana af virðingu.
Þeir unglingarnir sem sækja félagsmiðstöðvar koma úr öllum stéttum og stöðum íslensks samfélags og eru eins ólík og þau eru mörg. Oft heyrir maður alhæft um íbúa ákveðinna hverfa og bæjarfélaga og er það til dæmis alkunna hvernig orðræðan er um Breiðholt annars vegar og Garðabæ hins vegar. Sannleikurinn er sá að hægt er að finna ólíkasta fólk innan allra bæja og hverfa á Íslandi. Félagsmiðstöðin er ekki meðferðarúrræði fyrir unglinga heldur frekar staður þar sem unglingar geta einmitt komið og rætt við fólk sem kemur fram við þau sem jafningja sína en eru þó nokkuð reyndari í lífinu en þau sjálf. Þessi ráðgjöf fer ekki fram með formlegum hætti heldur ef til vill þegar starfsfólkið og unglingarnir gera saman þá hversdagslegu hluti sem fara fram í félagsmiðstöðinni eins og að spila borðtennis, spila Playstation eða jafnvel bara hanga í sófanum. Með því að undirstrika fjölbreytileika starfsfólks innan félagsmiðstöðva getum við boðið unglingunum okkar upp á betra starf. Ef að starfsfólk félagsmiðstöðvanna er með víða og fjölbreytta reynslu er hægt að stækka þann hóp sem leitar til þeirra eftir ráðleggingum.
Til að draga þetta saman að þá felst gott starf og góð þjónusta í félagsmiðstöðvum m.a. í því að komið sé fram við unglingana sem þangað koma á jafningjagrundvelli. Þá skiptir máli að starfsfólkið sem þar vinnur reyni eftir fremsta megni að gefa góð ráð varðandi allt milli himins og jarðar þegar unglingurinn leitar eftir þeim og vinna ávallt að því að koma fram við unglingana af virðingu og góðvild.
Steinar Már Unnarsson, háskólanemi og starfsmaður í félagsmiðstöð
______
Heimild: Árni Guðmundsson. (2007). Saga félagsmiðstöðva í Reykjavík: 1942-1992. Hafnafjörður: Kennaraháskóli Íslands.