Hvaða áhrif hefur það að raða grunnskólum upp eftir getu?

Á þriggja ára fresti er lagt próf fyrir nemendur í 10. bekk. Þetta próf heitir PISA og er einskonar samræmt próf fyrir nemendur á alþjóðavísu og er lagt fyrir í öllum grunnskólum á Íslandi. PISA könnunin er gerð til að meta stöðu menntakerfis, ekki einstakra skóla eða nemenda. Vissulega er gott að sjá hvar íslenskir nemendur standa sig í samanburði við nágrannalöndin og mikilvægt að sjá hvað má betur fara og hvað við séum að gera vel. Hefð er fyrir því á Íslandi að gefa út niðurstöður PISA könnunarinnar og er yfirleitt fjallað um það í fjölmiðlum sem og á samfélagsmiðlum. Þar koma svo fram misgáfulegar athugasemdir. Ég set spurningamerki við að birta hvernig hverjum og einum skólanum gekk í könnuninni. Afhverju finnst mér það áhættusamt? Jú það eru nokkrar ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi tekur PISA könnunin sem og aðrar svona stórar kannanir ekki neitt tillit til þess einstaklignsmunar og sérstöðu hvers skóla. Þar má nefna að fyrir nokkrum árum birtust í miklum mæli fréttir um að ákveðinn skóli í Reykjavík hefði komið verulega illa út úr þessari könnun en hvergi var minnst á það að í þessum tiltekna skóla væru um 70% nemenda af erlendu bergi brotnu með annað móðurmál en íslensku sem hefðu samt sem áður tekið prófið á íslensku og staðið sig vel sé tekið tillit til þess.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt sjónarhorn þegar rýnt er í kannanir sem þessar. Þar sem fólk er gífurlega fljótt að dæma og skólinn sjálfur verður ekki einugis fyrir fordómum heldur einnig nemendurnir sem þaðan koma. Þetta þekki ég af eigin reynslu og hef séð í kringum mig eftir að hafa verið starfsmaður í skóla á þeim tíma sem fréttir bárust að niðurstöðu Pisa, bæði nemendur og starfsfólk tók það verulega inn á sig allt það neikvæða tal sem átti sér stað í samfélaginu en var ekki í aðstöðu til að verja sig.

Hvaða skilaboð fær unglingur sem reyndi sitt allra besta en ítrekað sé talað um að skólinn sem hann gengur í sé ekki eins góður og einhver annar, stendur sig ekki jafn vel og einhver annar og ekki gefnar neinar útskýringar hvers vegna. Ég held að þetta gæti haft veruleg áhrif á sjálfsálit þessa barns og viðkomandi upplifir sig einfaldlega verri en aðra unglinga sem koma úr skóla sem skoraði hærra á þessu tiltekna prófi.

Þar fyrir utan tel ég að þessar niðurstöður séu ekki alveg marktækar, afhverju? Öll börn í 10. bekk eiga að taka þessa könnun en samt sem áður hefur sú umræða komið upp að einstaka skólar hafa útilokað þá nemendur sem þeir vita að ráða jafnvel ekki við prófið og þar af leiðandi koma viðkomandi skólar betur út úr könnuninni en ella. Þetta er bæði blekkjandi og ósanngjarnt fyrir hina sem senda alla í prófið burt séð frá getu og verða svo fyrir aðkasti vegna þess hve illa gekk í samanburði við þá sem ekki gerðu þetta. Og hvað segja kennarar við nemendur sem ekki taka prófið vegna einhverra ástæðna, hvaða skilaboð fá þeir einstaklingar ef allir aðrir eru látnir í prófið?

Miklir fordómar verða til og skólarnir sem og nemendurnir sem þar stunda nám verða fyrir aðkasti þegar þessar upplýsingar eru birtar. Fyrst og fremst þarf að uppræta fordóma sem eru í samfélaginu og vinna frekar saman að því að breyta og bæta það sem upp á vantar án þess að vera stöðugt að rífa niður í leiðinni. Ég tel að það sé mjög erfitt fyrir bæði skóla og þá nemendur sem stunda nám og eru að leggja sig öll fram við að ná árangri að lesa svo um það þau séu ómöguleg, vonlaus og að engin von sé fyrir þau frá samborgurum sínum.

Við fullorðna fólkið erum að skrifa þessar athugasemdir og því er það í okkar verkahring að passa hvernig við tölum um þá staði sem börnin okkar verja miklum tíma á og þykir vænt um. Við erum fljót að hafa áhrif á þeirra hugsun og líðan með stöðugu niðurrifi og fordómum um hinn og þennan skólann sem kom ekki jafn vel út úr prófi og einhver annar. Skólinn kennir svo mikið meira en bara þetta bóklega og því er mikilvægt að einblýna ekki einungis á það heldur einnig allt annað. Upphefjum það sem gott er, hrósum fyrir vel unnin verk og einblýnum á þær sterku hliðar sem hver og einn unglingur hefur upp á að bjóða.

Margrét Ásdís Björnsdóttir