Hætturnar leynast víða

Þegar ég var á mínum unglingsárum voru samfélagsmiðlar ekki jafn stórir og þeir eru í dag. Snapchatt, Instagram og Facebook eru þeir samfélagsmiðlar sem eru mest notaðir af unglingum árið 2017. Þetta geta vissulega verið hættulausir miðlar en hætturnar leynast þó víða. Tökum snapchatt sem dæmi, Snapchatt er smáforrit sem snýst um það að senda stutt myndbönd eða myndir á milli einstaklinga. Manneskjan sem að fær myndbandið/myndirnar getur aðeins skoðað efnið í stutta stund (max 10 sek) og svo hverfur mynbandið/myndin. Snapchatt er mikið notað af unglingum til þess að tala saman, kynnast og margir byrja jafnvel að „deita“ í gegnum þetta smáforrit. Það þarf lítið til þess að það hitni í kolunum og algengt er að einstaklingar eða pör séu að senda nektarmyndir sín á milli. Þó svo að myndirnar séu aðeins ætlaðar þeim einstaklingi sem að fær þær er lítið mál að afrita myndirnar og geyma, en hvað verður svo um þessar myndir ? Fara þær jafnvel í dreifingu á netinu?

Þegar ég var unglingur var til síða sem að hét ringulreið, þar skiptist fólk á nektarmyndum og öðrum óþverra undir nafnleynd. Þessari síðu var lokað trekk í trekk en blossaði alltaf upp aftur. Síðustu ár hefur verið til svipuð síða, síðan er byggð á sömu hugmyndafræði og gamla ringulreið en þar er stór hópur íslenskra karlmanna að biðja um nektarmyndir af ungum íslenskum stúlkum. Flestir vita ekki af þessari síðu enda svartur blettur á okkar samfélagi sem fáir vilja tala um.

Vefsíðan snýst um það að dreifa myndum, nafngreina þær stelpur og niðurlægja. Þetta er einskonar samfélag þar sem að allir leggjast á eitt til þess að koma sem flestum myndum í dreifingu. Einn notandi síðunnar óskaði meðal annars eftir Snapchatt nöfnum hjá ungum stelpum og lofaði að útvega nektarmyndir af þeim stelpum í lok vikunnar. Þetta sýnir að margir eru með einbeittan brotavilja og eru tilbúnir að ganga langt til þess að fá sendar myndir og dreifa þeim. Meiri hluti þessara mynda sem að eru í dreifingu eru frá smáforritinu Snapchatt, sem er einn vinsælasti samfélagsmiðilinn árið 2017.

Ég hef talsvert velt því fyrir mér hvernig best sé að stuðla að vitundavakningu meðal unglinga um það hvernig  skynsamlegt sé að haga sér á internetinu? Geta félagsmiðstöðvar verið með fræðslu fyrir ungmenni og foreldra þeirra? Ég stór efa að foreldrar almennt geri sér grein fyrir þeim hröðu og miklu breytingum sem átt hafa sér stað, auk þess finnst mér ólíklegt að þeir átti sig á þeim hættum sem geta verið til staðar. Það þarf vissulega að opna umræðuna og efla fræðslu,  því ef það er engin umræða né fræðsla verður engin breyting. Netnotkun unglinga er vissulega áhyggjuefni margra. Ég er guðslifandi fegin að samfélagsmiðlar voru ekki jafn stór þáttur í samfélaginu þegar að ég var unglingur og þeir eru í dag. Hætturnar leynast víða og ungmenni í dag þurfa öfluga fræðslu auk þess sem foreldrar þurfa að vera  á varðbergi og vel upplýstir um mátt Internetsins.

Sólveig Ásbjarnardóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands