„Að heyra tjáningarmáta unga fólksins í dag, algjörlega til skammar!“ 

 

Ég og unglingurinn minn
Ég og unglingurinn minn

Oft hef ég heyrt rætt á milli fullorðinna, hvað krakkar og unglingar hafa ljótan orðaforða , hvernig þau koma fram og þetta þurfi að laga og hreinlega beita ungdóminn meiri aga. Þá má líka spyrja sig  hvar lærðu þau að tjá sig á þennan hátt ? Jú eins og sagt er þá  læra börnin það sem fyrir þeim er haft. Mitt persónulega álit er að unglingar nútímans séu betur upplýstir á margan hátt eins og hefur komið í ljós í rannsóknum, minni drykkja, minni reykingar  og sterkari í því að láta skoðun sína í ljós. Vegna þess og annarra atriða, finnst mér þau ekki vera vandamálið en þau eru aftur á móti verðandi fullorðnir og framtíðin og skipta mig miklu máli.

Ekki eru öll ungmenni svo lánsöm að eiga foreldra eða nákomna sem hafa það að áhugamáli eða ástríðu að kenna þeim vönduð og góð samskipti og er bara alls ekki algengt  að mannfólkið eigi heilbrigð samskipti enda lærðu þau á sama hátt og börnin þeirra. Margir unglingar tileinka sér samskiptahætti úr sjónvarpsþáttum eða öðrum samfélagsmiðlum og umhverfi og það er ekki alltaf til fyrirmyndar. Í dag er þó algengara en áður að til séu hin ýmsu námskeið og áfangar í skólum sem reyna að taka þetta fyrir að einhverju leyti. Mín skoðun er sú að samskipti sé eitthvað sem þarf að kenna markvisst að öllu leyti og tel það mikilvægara en margt annað sem er kennt í skóla.

Að geta átt í góðum samskiptum við aðra kann við fyrstu umhugsun ekki að virðast flókið. Samt sem áður er samskiptavandi eitt af þeim vandmálum sem mjög oft rekur á fjörur sálfræðinga bæði barna, unglinga og fullorðinna af hinum ýmsu stéttum og gerðum. Samskiptavandi sem á sér stað getur verið  á milli foreldra, foreldra og barns, annarra fjölskyldumeðlima, íþróttafélaga, bæjarfélaga, stjórnmálaflokka, landshluta, landa, heimsálfa svo eitthvað sé nefnt. Vandamálin eru mis stór eins og þau eru mörg, við erum að tala allt frá vinarifrildi, misskilningi, hjónaskilnaði,  einelti, ranghugmyndir um lífið bæði hjá unglingum og fullorðnum  og allt að heimsstyrjöld vegna tjáningar- og samskiptavanda.

Að geta átt í góðum samskiptum við aðra er miklu flóknara en að læra bara að tala eða tjá sig á einhvern hátt. Samskiptavandi er einn stærsti vandi heimsins svo ég leyfi mér að nota stór orð og hvað sem við tökum okkur fyrir í lífinu þurfum við að eiga í einhverskonar samskiptum hvort sem er á interneti eða augliti til auglits. Ég hef svo oft misskilið , rangtúlkað augnaráð eða aðra líkamstjáningu og lærði ekkert markvisst um þetta fyrr en nú í Háskóla og finn ég að  fleiri vegir eru  mér færir eftir að ég læri  meira um góð samskipti og mun ég halda áfram að æfa mig. Maður lærir svo lengi sem maður lifir eins og einhver sagði.

Samskipti eru jú eitthvað sem við öll þurfum að eiga í sama hvar við erum á lífsleiðinni og er oft það sem hjálpar okkur að mynda mikilvæg tengsl í lífi okkar.

Vegna alls þessa og í stað þess að reyna að finna sökudólg lélegra samskipta er mál til komið og sérstaklega í ljósi þess hversu samskiptaleiðir eru orðnar margar og flóknar þarf að byrja að kenna almenn og heilbrigð samskipti í leikskóla, halda svo áfram í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla fyrir þá sem fara alla leið þangað á menntaveginum. Því við þurfum jú að vera í samskiptum allt okkar líf og líf okkar breytist með hverju ári sem við lifum með mismiklum áherslum á samskipti.

Samskipti eru nefnilega oft það sem aðstoðar okkur í að mynda mikilvæg tengsl í lífi okkar og allir þurfa að tilheyra og finna góð tengsl í lífinu.

Rakel Hámundardóttir, nemi á öðru ári í Tómstunda og félagsmálafræði. Ég er gift Thomas Andrew Edwards til 11 ára og á þrjá drengi á aldrinum 6, 8 og 17 ára.