Hin hefðbundna leið

Ég velti því fyrir mér afhverju lang flest íslensk ungmenni fylgja hinni hefðbundnu leið þegar leiðir lífsins eru svo ótal margar. Það eru sem dæmi margir sem fara í menntaskóla eða framhaldsskóla sem eru einunigs miðaðir af því að klára stúdentspróf, en ekki verknám. Afhverju ætli það sé? Ég held það sé vegna þess að það er litið niður á það, ekki talið vera nógu töff. Flestir velja frekar Verzló fram yfir verknám í Borgarholtsskóla, klára stúdent í Verzló og fara svo í lögfræði, því það er svo töff, ekki endilega vegna þess að áhuginn liggur þar. Svo eru sumir sem klára grunnskólann, fara svo í framhaldsskóla og klára hann eftir nokkur ár. Ákveða síðan að fara strax í háskóla, án þess þó að vita nákvæmlega hvað þeir vilja læra eða gera í framtíðinni, eignast svo maka, skipta um nám nokkrum sinnum en klára þó námið á endanum, eignast börn og byrja svo þessa týpísku daglegu rútínu. Afhverju eru svona margir sem virkilega vilja fylgja þessari hefðbundnu leið?

Svo er það nýjasta nýtt, að ferðast eftir stúdentinn, fara þá í heimsreisu og þá tilbúna heimsreisu sem ferðaskrifstofa sér um að plana. Þá er fólk að safna sér pening, býr í foreldrahúsum og vinnur eins og það eigi lífið að leysa í marga mánuði til þess að geta borgað ferðina. Þegar heim er komið eftir nokkra mánaða reisu standa þau á byrjunarreit. Þau eiga engan pening, búa enn í foreldrahúsum, eiga jafnvel ekki bíl og þurfa að byrja að vinna aftur, mögulega á nýjum vinnustað. Ég elska að ferðast, hef sjálf farið víða og hef búið erlendis. Eftir að ég kom heim til Íslands lenti ég í vítahring. Ég átti engan pening, sótti um vinnu í flýti og reyndi að leggja fyrir en þá tók við leigumarkaðurinn þar sem ég átti auðvitað ekki efni á að kaupa íbúð sem gerði það nær ómögulegt að eiga eitthvað sparifé. Ég datt þá í þennan ömurlega vítahring sem erfitt var að komast úr.

Eftir að ég byrjaði í háskólanámi og bjó mér til enn fastari sess í þessum leiðinlega vítahring, fór ég að hugsa hvað það var sem væri að valda því að flest ungmenni velji sömu leiðina og hvenær þetta byrji. Byrjar þetta eftir útskrift grunnskóla, jafnvel fyrr? Er það samfélagið sem er að ýta öllum í þessa átt? Er það hópþrýstingur þegar kemur að vali á framhalds- eða menntaskóla? Kannski til að missa ekki vinatengsl? Það virðist allavega sem þau fylgi bara straumnum og geri það sem allir aðrir gera, séu hrædd við að prófa eitthvað nýtt, vera þau sjálf og fara nýjar leiðir. Ég veit fyrir víst að margir fylgja vinum og fara í sama skóla og þeir vegna þess að þeir eru óöryggir og hræddir við að prófa eitthvað nýtt en hafa svo séð eftir því þegar þeir eru orðnir eldri.

En svo er það stóra spurningin, hvernig er hægt að vinna gegn því að flestir velji sömu leiðina? Mér dettur í hug að fá aukna fræðslu í grunnskólum, leggja þá áherslu á unglingadeildina vegna þess að þau eru flest að byrja á vinnumarkaði, fá jafnvel fólk sem hefur prufað að fara öðruvísi leiðir í lífinu til þess að koma og segja frá sinni reynslu. Fá þá fólk sem hefur valið t.d. að fara í verknám í staðinn fyrir hefðbundið framhaldsskólanám eða fólk sem hefur farið til útlanda í nám þar. Það væri einnig frábært ef að félagsmiðstöðvar fengu til sín fyrirlesara með reynslu til þess að koma til sín og tala. Einnig væri hægt að vera með einhverskonar fjármálafræðslu. Svo dettur mér í hug að frábært væri að hafa bókfærslu kennda í unglingadeild í grunnskóla þar sem ungmennum er t.d. kennt að lesa á launaseðlana sína, hvað er persónuafsláttur og afhverju þurfum við að borga í skatt.

Það getur vel verið að mörgum finnist þetta óspennandi en aftur á móti held ég að margir verði mjög ánægðir þegar uppi er staðið því það er svo gaman að standa á eigin fótum og fylgja hjartanu, fara nýja leiðir. Lífið er of stutt til þess að gera það sem allir aðrir gera.

Guðlaug Marín Gunnarsdóttir