Áhrif snjalltækja og orkudrykkja á svefn ungmenna

Er svefn vanmetinn? Er hann kannski ofmetinn? Hvað er það sem hefur áhrif á svefn ungmenna? Talað er um að íslenskir unglingar eigi að sofa að meðaltali um 8-10 klukkustundir á sólahring en samkvæmt rannsókn sem gerð var hér á landi að þá eru þau einungis að sofa að meðaltali um 6 klukkustundir á sólarhring. Ástæða þess er meðal annars neysla orkudrykkja sem getur leitt til svefntruflana ásamt öðrum kvillum svo sem hjartsláttatruflana, kvíða og líðan þeirra. Unglingar eru mun viðkvæmari fyrir koffíni heldur en fullorðið fólk og er því mikilvægt að við sem foreldrar sem og aðrir nákomnir séum á varðbergi. Samkvæmt annarri rannsókn sem gerð var hér á landi sýndu niðurstöður að þeir unglingar sem sofa 7 klukkustundir eða minna á sólahring drekka fjóra orkudrykki eða meira á dag og að lítill svefn er stór áhættuþáttur á meðal þeirra hvað varðar andlega vanlíðan. Fjóra orkudrykki… á dag! Ég fer í hjartastopp einungis við tilhugsunina.

En hvað er það sem hefur áhrif á að unglingar drekka orkudrykki yfir höfuð? Með komu snjalltækjanna urðu snjallforritin sí fleiri og sí vinsælli. Sem dæmi má nefna Instagram og Snapchat sem við köllum í dag samfélagsmiðla. Á þessum samfélagsmiðlum deila notendur myndum og myndböndum ásamt því að fylgjast með hvað aðrir notendur eru að deila. Á þessum vettvangi eru mörg ef ekki flest ungmenni sem eiga snjalltæki og fylgjast þau með mörgum svokölluðum áhrifavöldum. Áhrifavaldar sjást oft á tíðum vera að miðla upplýsingum um ákveðnar vörur til notenda. Oft á tíðum eru þau að dásama ýmsar vörur sem gætu verið gagnlegar og áhugaverðar. Það sem er þó hvað vinsælast eru orkudrykkir sem margir áhrifavaldar sjá um að auglýsa og mæla með… sem fellur að sjálfsögðu strax í kramið hjá ungmennum alveg eins og eitthvað krem sem þau mældu með í gær. Og svo þegar von er á nýju bragði að þá er spennan gífurleg og biðin endalaus. Unglingar eru oftast ekki komin með fullþroskaðan heila til þess að átta sig almennilega á réttu og röngu hvað þetta varðar og því auðvelt að verða fyrir þessum áhrifum. Ég er 28 ára og verð ennþá auðveldlega fyrir áhrifum áhrifavalda…

Við vitum það flest sjálf að þegar verið er að auglýsa eitthvað og mælt er með því að þá erum við líkleg til að kanna það nánar og sýna því meiri áhuga heldur ef um enga auglýsingu væri að ræða. Áhrifavaldar eru einnig með ýmsa leiki í gangi og oft á tíðum er verið að gefa ekki einungis 1-2 orkudrykki heldur nokkra kassa af þeim og eru þátttakendurnir oftar en ekki unglingar og því mun líklegra að einhver unglingur taki „vinninginn“ frekar en aðrir einstaklingar.

Rannsóknir sýna að samfélagsmiðlar eiga einnig stóran þátt í svefnörðuleikum ungmenna ásamt líðan þeirra og sjálfsmynd. Snjallsíminn er oftast ómissandi hjá einstaklingum og er því með í för hvert sem hann fer allan sólarhringinn. Hægt er að stilla tækin þannig það sé kveikt á tilkynningum fyrir hvern miðil fyrir sig og er þá heldur ólíklegt að missa af einhverju sem má alls ekki bíða. Það þykir því líklegt að snjalltæki þeirra sé „bípandi“ allan sólahringinn og kemur því ekki á óvart að það hafi áhrif á svefn ungmenna (og háða einstaklinga) sem geyma jafnvel símann sinn undir koddanum og vakna svo á nóttunni við hverja tilkynningu sem truflar nánast allan svefninn og því erfiðara að fara í svokallaðan djúpasvefn.

Ef við sláum inn leitarorð á google um eitthvað sem tengist svefni fáum við upp meðal annars ýmsar rannsóknir, lokaverkefni, staðhæfingar fréttamiðla svo eitthvað sé nefnt um mikilvægi svefns og á þetta við bæði á íslensku og ensku.. sennilega öllum öðrum tungumálum líka án þess þó að staðhæfa vegna kunnáttu minnar í þeim tungumálum. Ég tel að rannsóknir af þessu tagi séu sennilega fleiri í dag en áður fyrr meðal annars vegna komu snjalltækjanna, samfélagsmiðlanna og orkudrykkjanna. Slíkar rannsóknir og niðurstöður finnst mér alltaf jafn áhugavert að skoða og því tilvalið að rýna í þetta efni með mín orð.

Zohara Kristín Guðleifardóttir

Tengslaröskun – lítil sem engin þekking

Ég vinn með börnum og ungmennum með margþættan vanda, greiningarnar sem við vinnum með eru margar og fjölbreyttar og hver annarri áhugaverðari. Sú greining sem mér hefur alltaf þótt mjög áhugaverð er sérstök greining sem heitir tengslaröskun (e. attachment disorder). Tengslaröskun er flókin og hefur hingað til verið erfitt að greina hana, en aftur á móti er greiningin frekar ný og má því áætla að þekkingin sé ekki mikil vegna þess. Mig langar að stikla á stóru í þessari grein um það sem mér finnst mikilvægt að vita um tengslaröskun og þar að leiðandi af hverju það er mikilvægt að þekkingin sé til staðar hjá t.d. stofnunum eins og heilsugæslum, skólum og félagsþjónustum. Lesa meira “Tengslaröskun – lítil sem engin þekking”

Mikilvægi íþróttastarfsins

Eins og flestir vita þá hefur íþróttaþátttaka ótrúlega jákvæð áhrif á líðan ungmenna, bæði andlega, líkamlega og félagslega. Margar rannsóknir og gögn benda til þess að íþróttaiðkun íslenskra ungmenna hafi aukist gríðarlega á undanförnum áratugum og má rekja það til þeirra jákvæðu hugmynda sem flestir hafa um íþróttastarfið. Framboð margskonar íþróttagreina hefur aukist til muna svo að flest ungmenni ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Foreldrar hafa í vaxandi mæli kosið að senda börn sín í skipulagt íþróttastarf í þeim tilgangi að bæta líkamlega heilsu, andlega líðan, örva félagsleg samskipti, eiga áhugamál og til að tilheyra samfélaginu.

Þegar ég nefni skipulagt íþróttastarf á ég við íþróttastarf í íþróttafélögum undir leiðsögn fullorðinna þjálfara. Sýnt hefur verið fram á að með skipulögðu íþróttastarfi aukast líkurnar á að börn þroski með sér félagshæfni og meiri líkur eru á að þau sýni jákvæða hegðun í daglegu lífi. Þegar ég hugsa til baka frá því að ég var unglingur þá hafði skipulagt íþróttastarf mjög jákvæð áhrif á mitt líf. Ég æfði fótbolta frá því ég var 6 ára og það að bera ábyrgð á sínum æfingatíma, mæta á æfingar og skipuleggja tímann vel hafði ótrúlega þroskandi áhrif á mig. Ég tel því vera mikilvægt að ungmenni reyni að finna íþróttastarf við sitt hæfi og að foreldrar aðstoði og veiti þeim stuðning þegar þess þarf. Stuðningur foreldra finnst mér vera númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að því að fá barnið sitt til að stunda íþróttir. Börn og ungmenni horfa upp til foreldra sinna og ef ég tala út frá minni reynslu þá er stuðningur foreldra það allra mikilvægasta þegar viðkemur varanlegri íþróttaiðkun.

Við erum flest meðvituð um að íþróttastarf ungmenna dregur úr líkum á að þau leiðast út í áhættuhegðun, svo sem vímuefnanotkun og áfengisneyslu. Hinsvegar hafa rannsóknir sýnt að þau ungmenni sem stunda íþróttir utan skipulagðs íþróttastarfs eru í meiri áhættuhóp að lenda í áhættuhegðun og því má segja að það eru ekki einungis íþróttirnar sem sporna gegn því að lenda í áhættuhegðun heldur er það hvernig íþróttastarfinu er háttað og öll sú umgjörð sem er í kringum það. Það má því segja að skipulagt íþróttastarf beri með sér ákveðin uppeldisgildi sem eru gríðarlega mikilvæg fyrir ungmennin. Börnin og ungmennin læra að fara eftir settum reglum og að auki læra að tileinka sér hollar lífsvenjur. Þau læra að hlusta á fyrirmæli sem veitir þeim aga. Þau læra að borða hollt, sofa vel og hlusta á líkamann sinn sem og efla sjálfstraust sitt og öryggi.

Í þessari grein er ég að mestu leyti að skoða þau jákvæðu áhrif sem skipulagt íþróttastarf hefur á líf ungmenna en ég verð þó einnig að koma inná það að öll íþróttaiðkun í sjálfu sér er góð, sama hvort hún sé skipulögð eða óskipulögð. Að fara í ræktina, að fá sér göngutúr, að fara í sund, að fara út að hjóla eru dæmi um óskipulagt íþróttastarf en það getur haft gríðarlega góð áhrif á ungmennin. Sama hversu lítil hreyfingin er þá gleymist oft að skilgreina hana sem „hreyfingu“. Margir hverjir sjá sér ekki fært eða fúnkera ekki innan skipulagðs íþróttastarfs. Mikilvægt er að ungmenni fái að njóta sín í þeirri íþróttaiðkun sem þau kjósa og þeim sé leyft að efla sig á eigin forsendum en samt sem áður að fá aðstoð eða leiðbeiningu frá foreldrum eða aðstandendum.

Agnes Helgadóttir

Fá börn að njóta æskunnar í fámennum sveitarfélögum?

Íþrótta- og æskulýðsstarf gegnir þýðingarmiklu hlutverki í samfélagi okkar og í lífi einstaklinga. Þátttaka barna og ungmenna í starfinu hefur fjölþætt gildi á ýmsum sviðum og í gegnum þetta mikilvæga starf skapast vettvangur til að vinna að aukinni lýðheilsu, efla félagsþroska barna og ungmenna ásamt því að vinna að forvörnum, félags- og lýðræðiþátttöku, borgaravitund og ýmsu fleira.

Við höfum öll heyrt af ávinningi forvarnarátaka á Íslandi síðustu áratugi þegar kemur að neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna meðal ungmenna á Íslandi. Það hefur unnist með markvissu átaki og forvörnum í gegnum árin ásamt áherslu á virka þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með þessum árangri hefur skilningur samfélagsins á gildum tómstunda og íþrótta skilað auknum fjárframlögum og áherslum í þeim málaflokki. En er sigurinn unninn og getum við farið að slaka á? Langt því frá, því það er ekki algilt að á Íslandi séu starfrækt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í hverju hverfi, bæ eða þorpi.

Snemma á þessu ári komst í fréttirnar úrskurður frá Norðurþingi þar sem að sveitastjórn ákvað að það skyldi loka sundlaug Raufarhafnar yfir veturinn og takmarka aðgengi að íþróttahúsinu. Lokunin nær til allrar þjónustu sem að var í boði í húsinu, þar á meðal sundlaugarinnar, innrauðs klefa, heits potts, gufuklefa og aðgengi almennings að íþróttahúsinu. Lokunin er gerð í sparnaðarskyni því að aðsóknin í íþróttamiðstöðina réttlætti ekki starfsemina. Samt sem áður er sundlaugin mjög vel sótt, yfirleitt er einhver í sundi og jafnvel nokkrir í einu sem að er jákvætt í ekki stærra þorpi.

Sundlaugin hefur gríðarlegt gildi fyrir íbúa þorpsins enda miklu meira en bara sundlaug. Hún þjónar ekki einungis heilsueflandi tilgangi fyrir alla aldurshópa og að vera samkomustaður heldur er hún líka í raun eina tómstund barnanna í þorpinu á veturna. Það er því ekki undarlegt að þessi ákvörðun hafi vakið miklar tilfinningar meðal íbúa Raufarhafnar. Þessi skerðing myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir íbúana. Maður spyr sig hvernig er hægt að réttlæta að skera niður grunnþjónustu við heilt þorp þegar aðrir léttvægari hlutir innan sama sveitafélags eru fjármagnaðir, t.d. upphitaðir göngustígar á Húsavík.

Eftir mikil mótmæli íbúa og áskorun frá Hverfisráði Raufarhafnar var ákveðið að endurskoða lokun sundlaugarinnar en hún verður lokuð fram í apríl vegna viðhaldsvinnu og gert er ráð fyrir að hún opni í byrjun maí. Sem þýðir að með samstöðu og baráttu íbúa var ekki einungis hætt við að skera niður þjónustuna heldur er nú verið að fjárfesta í henni og bæta. En þegar þessi ákvörðun var tekin af fjölskylduráði Norðurþings ímynda ég mér að þau hafi ekki fyllilega velt fyrir sér áhrifum hennar og til þeirra mörgu hlutverka sem að sundlaugin þjónar.

Ég fagna baráttu Raufarhafnarbúa og sé nú hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um réttindi okkar og barna okkar til jákvæðrar tómstundaiðkunnar. Þessi ákvörðun sýnir að þrátt fyrir mælanlegan árangur og skilning á mikilvægi tómstundastarfs er ekkert sem að stendur í vegi fyrir niðurskurði að hálfu sveitafélagsins nema við íbúarnir. Það er greinilega þörf á því að bundið sé í lög aðgengi að frítímaþjónustu fyrir almenning á landinu öllu. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélögin mismuni íbúum sínum og að við getum boðið upp á jákvætt frístundastarf um allt land allt árið.

Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir

Höfundur er nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrrum íbúi á Kópaskeri.

 

 

„Æ, ég veit það ekki”

Sumarið 2016 þegar ég var 17 að verða 18 ára fékk ég það frábæra tækifæri til þess að vinna með hópi fólks á mínum aldri sem jafningjafræðari Hins Hússins. Það starf fól í sér að fræða ungmenni í 8 – 10. bekk í vinnuskólum landsins um nánast allt milli himins og jarðar. Við eyddum heilu dögunum þetta sumarið með unglingum og ræddum ýmislegt, allt frá landadrykkju yfir í endaþarmsmök.

Það sem stóð helst upp úr það sumar var hversu ótrúlega gefandi og skemmtilegt þetta var. Ég trúði ekki að ég væri að fá borgað fyrir þetta. Þótt ég hefði einungis verið nokkrum árum eldri en unglingarnir sem við fræddum á þessum tíma þá áttum við svo margt sameiginlegt. Ég tók samt eftir því að „unglingamenning“ þeirra var að vissu leyti nokkuð ólík minni sem ég upplifði á sínum tíma. Ég sá mig sjálfa endurspeglast í mörgum af unglingunum, bæði stelpunum og strákunum og hugsaði eiginlega daglega með mér: „Vá þessi getur gert svo miklu betur en á bara eftir að fatta það…vonandi.”

Þegar ég nefni að þau geti gert betur þá á ég við að vera þau sjálf. Með sínar sjálfstæðu skoðanir á hlutunum, sín eigin áhugamál sem þau sinna og hafa áhuga á, þekkja sig vel, sína kosti og ókosti og kunna að vinna með það í lífi sínu.

En hvernig eiga þau að fatta það?

Er þeim kennt það?

Er það á ábyrgð foreldranna að efla þetta hjá þeim?

Hvað með þá foreldra sem hafa í rauninni ekki fattað þetta almennilega hjá sér sjálfum?

Sem unglingur var ég í rauninni þessi týpíska „venjulega“ unglingsstelpa, óörugg, frekar feimin, þorði ekki að vera ég sjálf og frekar óviss með margt í lífinu almennt. Síðan þegar ég vann markvisst í sjálfri mér breyttist allt. Ef ég lít til baka sé ég hversu heppin ég var að velja menntaskóla þar sem ríkti almennt góður andi, fjölbreytt fólk með nokkuð heilbrigt hugarfar og skoðanir sem mótuðu hvort annað. Nokkrir skólafélagar mínir höfðu unnið í Jafningjafræðslu Hins Hússins og ég frétti af starfinu frá þeim. Ég varð gjörsamlega heilluð. Að fá borgað fyrir það að styrkja mig, fræðast um ýmislegt mjög áhugavert sem maður hafði velt fyrir sér í gegnum kynþroskann, fá að ræða þetta við önnur ungmenni og það úti í góða veðrinu!

Jafningjafræðsluferlið opnaði algjörlega augu mín. Það breyttist í rauninni allt þegar ég vann við það að fræða unglinga. Ég hætti að svara fólki „Æ, ég ég veit það ekki” sem var eitt vinsælasta svarið hjá unglingunum þegar við spurðum þau að ýmsu sem viðkom þeirra persónulegu skoðun. Hverjir þeirra helstu kostir og ókostir væru, hvað þeim fyndist um áfengisneyslu, hvaða aldur þeim þætti ákjósanlegur til að byrja að stunda kynlíf á o.s.frv.

Ég fékk svipuð svör þegar ég kynnti háskólanámið mitt um daginn fyrir unglingum.

„Eru þið búin að hugsa hvert þið viljið stefna?”

„Kom eitthvað í kynningunni ykkur á óvart?”

„Veit það ekki“ var algengasta svarið, eða hreinlega jafnvel ekkert svar.

Unglingar eru jafn mismunandi og þeir eru margir en útfrá þessari reynslu minni tel ég mikla þörf vera á styrkingu ungmenna. Styrkja sjálfstraustið, gagnrýna hugsun og hjálpa þeim að kveikja eldmóðinn sem býr innra með þeim. Það er svo stórkostlegt að sjá fólk blómstra í því sem það kýs að sinna. Reynum að forðast þessa setningu „æ ég veit það ekki“ og hvetjum fólk í að hafa sína skoðun og standa með henni. Ef enginn hefur neinar sérstakar skoðanir á neinu hvernig veit viðkomandi þá hvað býr innra með sér?

Veist þú hvað býr innra með þér?

Ingveldur Gröndal

Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi

Eftir að hafa verið nemandi í grunnskóla og starfsmaður í tveimur grunnskólum seinna meir, varð mér hugsað til starfsfólks félagsmiðstöðva og frístundasstarfs utan skóla. Þá sérstaklega um mikilvægi þess að það séu góðar fyrirmyndir og hvetji ungmenni til virkrar þátttöku, þar sem virðing og skemmtilegheit eru í fyrirrúmi. Af minni reynslu er starfsfólkið í félagsmiðstöðvum að vinna almennt mjög gott starf, þó auðvitað megi alltaf bæta sig. Ungmenni eru eins mismunandi og þau eru mörg, sumum finnst ekkert mál að mæta, hafa samskipti við aðra og plumma sig gríðarlega vel í þessu umhverfi. Aðrir eru jafnvel aðeins til baka, finnst erfiðara að mæta og glíma við einhvers konar kvíða eða félagsfælni. Þessi tiltekni hópur gæti orðið svolítið út úr og ekki tekið jafn mikinn þátt í félagslífinu. Það getur verið svolítið yfirþyrmandi að koma inn í félagsmiðstöð þar sem eru mjög margir krakkar saman, allir að gera mismunandi hluti. Lesa meira “Starfsmenn félagsmiðstöðva með þarfir barna og ungmenna í fyrirrúmi”