Er í lagi að skutlast með ungling á einkabíl – Hvað finnst þér?

Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðilegt álitamál. Við veltum upp spurningunni:
Er í lagi að skutlast með ungling á einkabíl fyrir, eftir eða á vakt?
Er það alltaf í lagi? Er það aldrei í lagi? Er það í lagi í ákveðnum tilfellum? Er það í lagi við ákveðnar aðstæður?

Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðilegt álitamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

„Maður lærir líka að vera góður“

Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.

Um rannsóknina

Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.

Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.

Um höfundinn

Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og Eygló Rúnarsdóttirmenntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.

Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.

Veitum ungmennum raunveruleg áhrif – lækkum kosningaaldur

árnigVeik rödd

Við sem höfum starfað að velferðaramálum barna og ungmenna  um langa hríð  höfum ekki farið varhluta af því hve börn og ungmenni eiga sér veika rödd í samfélaginu. Margt hefur áunnist en það er ennþá langt í land hvað varðar raunveruleg áhrif ungmenna, bæði í samfélaginu og í nærumhverfi sínu.  Á níunda áratug síðustu aldar innleiddu félagsmiðstöðvar hérlendis starfsaðferðir unglingalýðræðis sem tæki og lið í valdeflingu ungmenna. Aðferð sem byggir á lífsleikni og er menntandi í víðasta skilningi þess orðs. Starfsaðferðir unglingalýðræðis ganga út á það að efla getu einstaklings og/eða hópa til þess að vinna með öðrum á lýðræðislegum forsendum og að takast á við tilveruna í öllum hennar margbreytileika.  Ungmennin öðlast með virkni í starfinu aukna félagslega hæfni og þroska með sér jákvæða sjálfsmynd sem fæst með þátttöku í þeim fjölmörgum verkefnum og viðfangsefnum sem starfsemi félagsmiðstöðva inniheldur

Æskulýðslög

Þessi þróun hefur m.a leitt til þess að í æskulýðslögum (17.mars/2007/11.gr.) er ákvæði um heimild um stofnun ungmennaráða í sveitarfélögum en þar segir: „Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“ Flest sveitarfélög hafa nýtt þetta heimildarákvæði en ekki öll. Í Hafnarfirði var ákveðið fyrir margt löngu að fulltrúi unglinga ætti sæti í Íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins með áheyrnar- og tillögurétt  á sama hátt og fulltrúi íþróttahreyfingarinnar.

Ungmennaráð

Starfsemi ungmennaráða hafa víða um land gengið vel ekki síst hér í Hafnarfirði en hér var búið að koma á ungmennaráði löngu áður en ákvæði um slíkt kom í lög. Ungmennaráðið/in hér í bæ hafa ýmsu áorkað í gegnum árin.  Hinu er þó ekki að leyna að þegar að kemur að stóru málunum þá verður oft brestur á, ekki bara hér í firðinum heldur víðar þar sem ungmennaráð starfa. Það má velta fyrir sér hvers vegna ungmennaráð eru ekki höfð með í ráðum í stærri málum. Ég minnist mikils niðurskurðar til æskulýðsmála hér í bæ fyrir nokkrum árum. Á þeim tímapunkti sýndu hafnfirsk ungmenni sterka lýðræðisvitund, efndu til fjölmennrar mótmælagöngu og  sýndu hug sinn í verki.  Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð  ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál ungs fólks að segja þegar virkilega á reynir? Mynd af brosandi stjórnmálamönnum og ungmennaráðum er vissulega hugguleg en hefur ekkert vægi umfram það ef starfsemi ráðanna fylgja ekki raunveruleg völd.

Lækkum kosningaaldur

Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara í samfélaginu þegar að raunverulega blæs á móti?  Ég minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða? Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára og jafnvel 15 ára aldur og með því gefa ungmennum raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins, ekki síst nærsamfélagsins og á þau mál sem á þeim brennur. Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs. Ég tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Ég veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð í  þjóðfélaginu sem því miður oft vill verða. Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

Árni Guðmundsson M.Ed  félagsuppeldisfræðingur

Fjölbreytileiki mikilvægur í tómstundastarfi fyrir aldraða

Aldraðir og tómstundirfélagsstarf á Hrafnistu
Í dag eru rúmlega 37.000 einstaklingar á Íslandi sem eru 67 ára og eldri og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er talið að þeir verði um 52.000 eftir aðeins 10 ár. Þetta merkir hraða fjölgun hjá þeim sem standa frammi fyrir starfslokum og þar með ákveðnum tímamótum í lífinu. Margir hverjir finna sér ný hlutverk, tómstundir eða fara að eyða meiri tíma í þau verk sem þau voru vön að stunda samhliða vinnu, s.s. að sinna viðhaldi á eigin húsnæði, garðyrkju, eyða meiri tíma með barnabörnunum svo eitthvað sé nefnt. Með tómstund er átt við allt það sem hinn aldraði tekur sér fyrir hendur sér til dægrastyttingar og veitir honum ánægju. Margir aldraðir eru einnig farnir að hugsa meira um eigin heilsu og eru virkir þátttakendur í ýmsum íþróttum og hreyfingu þrátt fyrir hækkandi aldur. Má þar t.d. nefna gönguhópa, golf og aðrar boltaíþróttir, fimleika, sund, dans og ýmsa þjálfunarhópa á vegum líkamsræktarstöðva ætlaða öldruðum. Svo eru það þeir sem leggja mikinn metnað í að sækja sér nýja þekkingu, njóta þess að vera skapandi og hafa þörf fyrir að gefa af sér eins og t.d. í sjálfboðavinnu á fyrrum vinnustað, hjá Rauða krossinum eða innan félagsmiðstöðva eldri borgara. Þeir sækja námskeið innan menntakerfisins, tölvunámskeið og fjölbreytt handverksnámskeið s.s. myndlist, leir-, gler-, trévinnslu eða annað sem vekur áhuga þeirra. Þróunin síðustu ár og áratugi hefur sýnt að aldraðir eru virkari þátttakendur í samfélaginu eftir starfslok. Ástæða þessa er hækkandi lífaldur beggja kynja ásamt bættri heilsu vegna þróunar innan læknavísindanna og aukinni áherslu á heilsusamlegan lífstíl og vellíðan.

Heilsa, búsetuform og hjúskaparstaða

Rannsóknir sýna að heilsufar, búsetuform og hjúskaparstaða hafa mikil áhrif á hversu virkur þátttakandi hinn aldraði er innan og utan heimilisins. Góð heilsa og vellíðan er grunnurinn að lífsgæðum einstaklinga. Veikindi, sjúkdómar og skert hreyfigeta hafa áhrif á þau tækifæri sem einstaklingnum býðst til að vera virkur ásamt búsetuformi. Aðgengi innan og utan heimilis og fjarlægð í mikilvæga þjónustu, s.s. verslanir, apótek, heilsugæslu og félagsmiðstöðvar skipta einnig miklu. Hjúskaparstaðan getur líka haft áhrif á hversu mikinn þátt einstaklingurinn tekur í félagslegum afþreyingum utan heimilis. Sýnt hefur verið fram á að giftir eldri borgarar, sér í lagi karlmenn, taka síður þátt í félagsstarfi utan heimilis en það getur einnig átt við um eldri karlmenn sem eru ógiftir eða ekklar. Eldri konur virðast vera öflugri í að sækja í félagsskap utan heimilisins og tómstundir þótt engar staðfestar tölur liggi fyrir um það. Flest okkar eigum við það sameiginlegt að hafa þörf fyrir tilgang í lífinu. Það að hafa ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana, líka þegar við erum komin á efri ár.

Félagsstarf, bæði skipulagt og óskipulagt

Mikil vitundavakning hefur átt sér stað um málefni aldraðra síðustu áratugi og hafa sveitarfélög víðs vegar um landið komið til móts við þarfir eldri borgara um félagsstarf og tómstundir. Mörg þeirra bjóða uppá fjölbreytt starf í þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða, í félagsheimilum eða innan stofnana fyrir eldri borgara. Þjónustan er mismikil yfir árið eftir landshlutum og ekki ólíklegt að fjöldi þeirra sem nýti sér hana hafi áhrif á það. Þeir sem ekki geta sótt félagsstarf af sjálfsdáðum, búa enn heima og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur hafa rétt á að sækja um sérstakt þjónustuúrræði sem ýmist kallast dagvistun eða dagþjálfun en sú þjónusta hefur það markmið að bjóða hinum aldraða uppá fjölbreytta þjónustu í formi hreyfingar, félagsstarfs og tómstunda með meira utan um haldi og sumum tilfellum aðgengi að þjálfun. Þá mætir hinn aldraði að morgni til og fer svo aftur heim samdægurs um miðjan daginn, oftast með aðstoð akstursþjónustu en hægt er að sækja um þá þjónustu hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi býr í. Þess má einnig geta að margar kirkjur bjóða uppá sérstakt kirkjustarf ætlað eldri borgurum þar sem í boði eru samverustundir, söngur, helgihald, sjálfboðastarf og margt fleira.

Þetta er allt þjónusta sem flokkast undir skipulagða þjónustu en svo má ekki gleyma að nefna allt það óskipulagða félagsstarf sem á sér stað víðs vegar um landið í gegnum félagslegt samneyti af ýmsum toga. Þar sem eldri borgarar hittast í heimahúsum, á kaffi- og veitingahúsum, fara á tónleika, listasöfn, í leikhús, ferðalög innan- og utanlands eða annað slíkt án aðkomu þjónustu fyrir aldraða.

Þökk sé þróun á sviði tækninnar og samskiptabúnaðar, þá hefur hinn aldraði fleiri tækifæri á að vera í góðum samskiptum við ástvini þrátt fyrir búsetu á ólíkum landshlutum eða öðrum löndum og þar með þátttakandi í lífi stórfjölskyldunnar og vina. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem nýta sér tæknina til samskipta á veraldarvefnum, t.d. í gegnum Facebook og Skype eru ólíklegri til að upplifa einmanaleika, depurð eða þunglyndi.

Þörf fyrir aðstoð til þátttöku

Hvað svo um þá sem eru einangraðir heima við meirihluta ársins og eru mögulega að kljást við einmanaleika, þunglyndi og hafa lítið fyrir stafni? Þar skiptir þátttaka aðstandenda, vina, nágranna og heimaþjónustunnar megin máli. Það er mjög mikilvægt að þeir hjálpi hinum aldraða með því að kynna fyrir honum þau úrræði sem standa honum til boða í því sveitarfélagi sem hann býr í en mögulega er hinn aldraði sáttur við sínar núverandi aðstæður og hefur ekki áhuga á að breyta þeim. Hafa verður í huga að hinn aldraði gæti upplifað óöryggi gagnvart breytingum sem verða á hans daglegu venjum við það að prófa ný úrræði eins og t.d. að sækja nýja þjónustu í félagsmiðstöð eða dagvistun þar sem hann þekkir engan. Mikilvægt er að veita þessu óöryggi skilning og gefa hinum aldraða tíma til að venjast þeirri tilhugsun að nú muni hann sækja t.d. dagvistun þrjá daga í viku. Fyrir suma er þessi breyting leikur einn um leið og hún á sér stað en fyrir aðra getur aðlögunin tekið lengri tíma og í sumum tilfellum alls ekki tekist.

Skipulagt félags- og tómstundastarf inná dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að vera fjölbreytt

Á dvalar- og hjúkrunarheimilum býr sá hópur aldraðra sem er að kljást við alvarleg veikindi, mikla skerðingu í hreyfigetu eða minnisskerðingar eins og t.d. alzheimer. Það er því mikilvægt að þar sé í boði skipulagt félags- og tómstundastarf fyrir hinn aldraða sem er fjölbreytt og tekur mið af hans núverandi getu. Með fjölbreytileikanum eru meiri líkur á því að hinn aldraði taki frekar þátt í félags- og tómstundastarfinu þar sem honum býðst eitthvað innan síns áhugasviðs. Það er þó ekki nóg að hafa fjölbreytileikann því það er einnig mikilvægt að geta aðlagað afþreyinguna að núverandi getu hins aldraða svo hann geti tekið þátt. Til þess að geta boðið uppá slík gæði í þjónustunni þarf sá sem hana skipuleggur að hafa þekkingu á því hvaða þættir það séu sem hafa hvetjandi og hamlandi áhrif á þátttöku hins aldraða. Það er því mikilvægt að félags- og tómstundastarf sé skipulagt og stjórnað af þeim sem hafa þekkingu til þess til að hámarka tækifæri hins aldraða til þátttöku. Ýmsar fagstéttir innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa einbeitt sér að þjónustu í félags- og tómstundastarfi fyrir aldraða. Iðjuþjálfar hafa þá sérstöðu að hafa þekkingu til að aðlaga iðju að einstaklingnum og nálgast þjónustuna við einstaklinginn með heildrænni sýn en einnig má nefna tómstunda- og félagsmálafræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, félagsliða og sjúkraliða.

Guðrún starfsmaður á Hrafnistu

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Iðjuþjálfi með diplómu í öldrunarþjónustu
Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði

Áhrif félagsmiðstöðvastarfsmanna á einstaklinga

1082717_10151772202789860_1648688873_n

Unglingsárin eru það æviskeið þar sem einstaklingur tekst á við að móta sjálfsmynd sína. Það er margt sem hefur áhrif á sjálfsmynd fólks en fyrirmyndir geta átt mikinn þátt í að móta einstakling. Starfsfólk félagsmiðstöðva er oftar en ekki miklar fyrirmyndir þeirra unglinga sem sækja félagsmiðstöðvar reglulega og taka virkan þátt í starfinu. Viðhorf til félagsmiðstöðva hefur breyst mikið á undanförnum árum með tilkomu fagvitundar starfsmanna og jákvæðrar upplifunar einstaklinga af félagsmiðstöðinni.

Öll fæðumst við sem lítil krúttleg börn. Við vöxum og döfnum og verðum að áhugaverðum fullorðnum einstaklingum. Við lærum margt á þroskaferlinu sem við nýtum okkur í daglegu lífi t.d. lærum við að ganga, sýna væntumþykju, gera skattskýrslu, skilja kaldhæðni og bera virðingu fyrir öðrum. Þessi dæmi eru einungis brotabrot af því sem við tileinkum okkur á lífsleiðinni.

Unglingsárin eru það æviskeið sem mótar einstaklinginn hvað mest. Hann tekst á við miklar breytingar, bæði útlitslegar og andlegar. Vitsmunaþroski unglingsins eykst og fer hann að finna fyrir auknum kröfum frá samfélaginu. Eitt helsta verkefnið er að takast á við sjálfsmynd sína, skilgreina sig og aðgreina frá öðrum. Hann fer í raun að móta þær hugmyndir sem hann hefur um sjálfan sig. Þeir unglingar sem hafa sterka og örugga sjálfsmynd eru betur í stakk búnir til að takast á við lífið.

Félagsmiðstöðvar eru afar góður vettvangur fyrir unglinga til að efla félagsfærni, framkomu, samskiptafærni og að styrkja sjálfsmyndina. Hlutverk og tilgangur félagsmiðstöðva er í grófum dráttum að veita unglingum fjölbreytt frítímastarf samhliða því að vera vettvangur til að stunda heilbrigða tómstund með jafnöldrum sínum. Einstaklingum gefst færi á að styrkja sjálfsmynd sína, tilheyra jafningjahópi og geta þar af leiðandi borið hugmyndir sínar og gildi saman við aðra unglinga. Félagsmiðstöðvar eru svo miklu meira en bara að spila borðtennis eða billjard. Eitt helsta hlutverk félagsmiðstöðva er að efla og þroska unglinginn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gera þá að hæfari einstaklingum til að geta tekist á við verkefni framtíðarinnar.

Viðhorf almennings til félagsmiðstöðva hefur breyst töluvert frá því að þær voru fyrst stofnaðar hér á landi. Það er ekki það langt síðan unglingar reyktu á opnunum félagsmiðstöðva og jafnvel starfsmennirnir með þeim. Styttra er síðan það var í lagi að mæta undir áhrifum áfengis á böll á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Það var stuttu eftir árið 1990 sem vitundavakning varð í þjóðfélaginu gagnvar reykingum og farið var að vinna markvisst að forvarnarstarfi.  Nú til dags er forvarnarstarf ein af undirstöðum félagsmiðstöðvastarfs hér á landi. Viðhorf til starfsmanna félagsmiðstöðva tel ég að hafi líka breyst. Nú til dags er t.d. hægt að læra tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Maður fer ekki þangað til að læra að spila borðtennis heldur lærir maður að sinna faglegu starfi tómstundanna. Megin ástæðu viðhorfsbreytinga til félagsmiðstöðva tel ég vera að fleiri einstaklingar hafa verið virkir þáttakendur í  því faglega félagsmiðstöðvastarfi sem nú er unnið. Það hafa fleiri einstaklingar jákvæða upplifun af félagsmiðstöðvum og þekkingu á því faglega starfi sem þar fer fram. Það er ekki hægt að segja að félagsmiðstöð nýtist öllum á sama hátt. Hún getur verið mis mikilvæg einstaklingum. Hún getur hreinlega bjargað sumum en styrkt aðra.

Þegar ég var yngri var ég mjög virkur í félagsmiðstöðvastarfinu í mínu hverfi. Ég átti ekki auðvelt með að læra í skólanum. Mér gafst ekki færi á því að blómstra í skólanum, allavegana ekki í tímum. Í félagsmiðstöðinni gafst mér tækifæri á að læra og að blómstra. Þar gat ég lært á þann hátt sem ég á auðveldast með að læra. læra með því að gera hluti, og læra af mistökunum. Þó svo að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, þá lærði ég mikið í mannlegum samskiptum og ég fékk tækifæri til að njóta mín sem einstaklingur. Ég sat í stjórn nemendaráðsins og lærði mikið. Ég lærði að bera virðingu fyrir skoðunum annara, að hlusta og fyrst og fremst að koma skoðunum mínum á framfæri. Ég eignaðist vini og var partur af hópi sem vann að því að hafa félagslífið skemmtilegt í skólanum. En það dýrmætasta sem félagsmiðstöðin gaf mér, var sjálfstraust. Tel ég starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar hafa átt þátt í því. Þau hvöttu mann áfram til þátttöku í ýmsum uppákomum og byggðu upp sjálfstraust mitt, meðvitað og jafnvel ómeðvitað.Ég sótti mikið í starfsfólkið og að fá viðurkenningu á því sem ég gerði í þágu félagsmiðstöðvarinnar og það að vera metinn að verðleikum. Starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar voru mér fyrirmyndir. Þau hlustuðu á mig, sögðu mér sögur, gáfu mér ráð og gáfu mér færi á að blómstra. Ég mætti ekki bara í félagsmiðstöðina til að spila bortennis eða spila pool enda eru sjaldnast veraldlegir hlutir sem fá unglinga til að mæta í félagsmiðstöðina heldur sækja þau í samveru stundir með jafnöldrum og starfsfólki. Það að vera innan um fullorðið starfsfólk sem talar við mann sem jafningja skiptir máli. Það að geta leitað til starfsmanns sem hlustar og skilur mann er dýrmætt á unglingárunum.

Hlutverk starfsmanna í félagsmiðstöðvum er mjög mikilvægur partur af félagsmiðstöðvastarfinu. Er það mun meira en bara að opna húsnæðið og spila borðtennis með ungingunum. Fjölbreyttur starfsmannahópur ætti að geta höfðað til breiðari hóps unglinga. Staðreyndin er sú að ákveðnir starfsmenn ná betur til einstakra skjólstæðinga. Unglingar líta upp til vissra starfsmanna og eru þeir oftar en ekki miklar fyrirmyndir fyrir viðkomandi einstaklinga. Þeir hafa þar af leiðandi meiri áhrif á hegðun þeirra einstaklinga en þeir gera sér grein fyrir. Starfsmenn félagsmiðstöðva vinna að því að þjálfa samskipta- og félagsfærni einstaklinga sem sækja félagsmiðstöðina ásamt því að hvetja þá á jákvæðan hátt við mótun sjálfsmyndarinnar og hafa þannig jákvæð áhrif á hegðun þeirra og sálfræðilega velferð.  Þrátt fyrir að starfið gangi útá það að vera skjólstæðingum sínum innan handar í félagsmiðstöðinni, leiðbeina þeim, örva og virkja, þá mega starfsmenn ekki gleyma því að þeir eru einnig fyrirmyndir sem unglingarnir líta upp til.

Rannsóknir sýna að þeir einstaklingar sem eru fyrirmyndir barna móta hegðun þeirra og því er mikilvægt að starfsmaður sé meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd, bæði í vinnu sem og utan hennar. Unglingar sem sjá heilsteyptan einstakling sem vinnur í félagsmiðstöðinni, er félagi þeirra og talar við þá sem jafningja, er vís til að líta upp til hans. Starfsmaður verður að hugsa um að þrátt fyrir að starfsdeginum sé lokið og hann búinn að stimpla sig út, getur hann ekki tendrað sér í sígarettu og reykspólað úr bílastæðinu og skilið unglingana eftir í reykjamökknum. Hann er starfsmaður félagsmiðstöðvar og verður að vera meðvitaður um það.

Öll munum við eftir fyrirmyndum og einstaklingum sem við litum upp til á okkar yngri árum.  Í sumum tilfellum voru það systkini eða fjölskyldumeðlimur en í öðrum tilfellum kennari eða kannski starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar. Starfsfólk félagsmiðstöðva getur því markað djúp spor í uppvaxtarár einstaklings og er því gott starfsfólk félagsmiðstöðva undirstaðan í góðu félagsmiðstöðvastarfi.

 

 

Bjarki Sigurjónsson

Tómstunda- og félagsmálafræðingur

Pókermót í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú?

Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðislegt álitamál. Það barst okkur fyrirspurn um „no stakes“ pokermót í tómstundastarfi. Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðislegt vandamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.

poker

Vandamál:
Unglingaráðið þitt óskar eftir að halda “no-stakes” poker mót. (En fyrir þá sem ekki vita þá er ekki spilað upp á peninga í „no stakes“ pokermóti). Oftast er spilað uppá peninga þegar spilað er póker og margir hafa farið illa út úr því og jafnvel tapað öllu sínu. Póker er ein mest spilaða íþrótt á netinu skv. Wikipedia.
Hvað finnst þér um þér um að hafa “no-stakes”  pokermót í Félagsmiðstöðvum?