Aldraðir og tómstundir
Í dag eru rúmlega 37.000 einstaklingar á Íslandi sem eru 67 ára og eldri og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er talið að þeir verði um 52.000 eftir aðeins 10 ár. Þetta merkir hraða fjölgun hjá þeim sem standa frammi fyrir starfslokum og þar með ákveðnum tímamótum í lífinu. Margir hverjir finna sér ný hlutverk, tómstundir eða fara að eyða meiri tíma í þau verk sem þau voru vön að stunda samhliða vinnu, s.s. að sinna viðhaldi á eigin húsnæði, garðyrkju, eyða meiri tíma með barnabörnunum svo eitthvað sé nefnt. Með tómstund er átt við allt það sem hinn aldraði tekur sér fyrir hendur sér til dægrastyttingar og veitir honum ánægju. Margir aldraðir eru einnig farnir að hugsa meira um eigin heilsu og eru virkir þátttakendur í ýmsum íþróttum og hreyfingu þrátt fyrir hækkandi aldur. Má þar t.d. nefna gönguhópa, golf og aðrar boltaíþróttir, fimleika, sund, dans og ýmsa þjálfunarhópa á vegum líkamsræktarstöðva ætlaða öldruðum. Svo eru það þeir sem leggja mikinn metnað í að sækja sér nýja þekkingu, njóta þess að vera skapandi og hafa þörf fyrir að gefa af sér eins og t.d. í sjálfboðavinnu á fyrrum vinnustað, hjá Rauða krossinum eða innan félagsmiðstöðva eldri borgara. Þeir sækja námskeið innan menntakerfisins, tölvunámskeið og fjölbreytt handverksnámskeið s.s. myndlist, leir-, gler-, trévinnslu eða annað sem vekur áhuga þeirra. Þróunin síðustu ár og áratugi hefur sýnt að aldraðir eru virkari þátttakendur í samfélaginu eftir starfslok. Ástæða þessa er hækkandi lífaldur beggja kynja ásamt bættri heilsu vegna þróunar innan læknavísindanna og aukinni áherslu á heilsusamlegan lífstíl og vellíðan.
Heilsa, búsetuform og hjúskaparstaða
Rannsóknir sýna að heilsufar, búsetuform og hjúskaparstaða hafa mikil áhrif á hversu virkur þátttakandi hinn aldraði er innan og utan heimilisins. Góð heilsa og vellíðan er grunnurinn að lífsgæðum einstaklinga. Veikindi, sjúkdómar og skert hreyfigeta hafa áhrif á þau tækifæri sem einstaklingnum býðst til að vera virkur ásamt búsetuformi. Aðgengi innan og utan heimilis og fjarlægð í mikilvæga þjónustu, s.s. verslanir, apótek, heilsugæslu og félagsmiðstöðvar skipta einnig miklu. Hjúskaparstaðan getur líka haft áhrif á hversu mikinn þátt einstaklingurinn tekur í félagslegum afþreyingum utan heimilis. Sýnt hefur verið fram á að giftir eldri borgarar, sér í lagi karlmenn, taka síður þátt í félagsstarfi utan heimilis en það getur einnig átt við um eldri karlmenn sem eru ógiftir eða ekklar. Eldri konur virðast vera öflugri í að sækja í félagsskap utan heimilisins og tómstundir þótt engar staðfestar tölur liggi fyrir um það. Flest okkar eigum við það sameiginlegt að hafa þörf fyrir tilgang í lífinu. Það að hafa ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana, líka þegar við erum komin á efri ár.
Félagsstarf, bæði skipulagt og óskipulagt
Mikil vitundavakning hefur átt sér stað um málefni aldraðra síðustu áratugi og hafa sveitarfélög víðs vegar um landið komið til móts við þarfir eldri borgara um félagsstarf og tómstundir. Mörg þeirra bjóða uppá fjölbreytt starf í þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða, í félagsheimilum eða innan stofnana fyrir eldri borgara. Þjónustan er mismikil yfir árið eftir landshlutum og ekki ólíklegt að fjöldi þeirra sem nýti sér hana hafi áhrif á það. Þeir sem ekki geta sótt félagsstarf af sjálfsdáðum, búa enn heima og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur hafa rétt á að sækja um sérstakt þjónustuúrræði sem ýmist kallast dagvistun eða dagþjálfun en sú þjónusta hefur það markmið að bjóða hinum aldraða uppá fjölbreytta þjónustu í formi hreyfingar, félagsstarfs og tómstunda með meira utan um haldi og sumum tilfellum aðgengi að þjálfun. Þá mætir hinn aldraði að morgni til og fer svo aftur heim samdægurs um miðjan daginn, oftast með aðstoð akstursþjónustu en hægt er að sækja um þá þjónustu hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi býr í. Þess má einnig geta að margar kirkjur bjóða uppá sérstakt kirkjustarf ætlað eldri borgurum þar sem í boði eru samverustundir, söngur, helgihald, sjálfboðastarf og margt fleira.
Þetta er allt þjónusta sem flokkast undir skipulagða þjónustu en svo má ekki gleyma að nefna allt það óskipulagða félagsstarf sem á sér stað víðs vegar um landið í gegnum félagslegt samneyti af ýmsum toga. Þar sem eldri borgarar hittast í heimahúsum, á kaffi- og veitingahúsum, fara á tónleika, listasöfn, í leikhús, ferðalög innan- og utanlands eða annað slíkt án aðkomu þjónustu fyrir aldraða.
Þökk sé þróun á sviði tækninnar og samskiptabúnaðar, þá hefur hinn aldraði fleiri tækifæri á að vera í góðum samskiptum við ástvini þrátt fyrir búsetu á ólíkum landshlutum eða öðrum löndum og þar með þátttakandi í lífi stórfjölskyldunnar og vina. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem nýta sér tæknina til samskipta á veraldarvefnum, t.d. í gegnum Facebook og Skype eru ólíklegri til að upplifa einmanaleika, depurð eða þunglyndi.
Þörf fyrir aðstoð til þátttöku
Hvað svo um þá sem eru einangraðir heima við meirihluta ársins og eru mögulega að kljást við einmanaleika, þunglyndi og hafa lítið fyrir stafni? Þar skiptir þátttaka aðstandenda, vina, nágranna og heimaþjónustunnar megin máli. Það er mjög mikilvægt að þeir hjálpi hinum aldraða með því að kynna fyrir honum þau úrræði sem standa honum til boða í því sveitarfélagi sem hann býr í en mögulega er hinn aldraði sáttur við sínar núverandi aðstæður og hefur ekki áhuga á að breyta þeim. Hafa verður í huga að hinn aldraði gæti upplifað óöryggi gagnvart breytingum sem verða á hans daglegu venjum við það að prófa ný úrræði eins og t.d. að sækja nýja þjónustu í félagsmiðstöð eða dagvistun þar sem hann þekkir engan. Mikilvægt er að veita þessu óöryggi skilning og gefa hinum aldraða tíma til að venjast þeirri tilhugsun að nú muni hann sækja t.d. dagvistun þrjá daga í viku. Fyrir suma er þessi breyting leikur einn um leið og hún á sér stað en fyrir aðra getur aðlögunin tekið lengri tíma og í sumum tilfellum alls ekki tekist.
Skipulagt félags- og tómstundastarf inná dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að vera fjölbreytt
Á dvalar- og hjúkrunarheimilum býr sá hópur aldraðra sem er að kljást við alvarleg veikindi, mikla skerðingu í hreyfigetu eða minnisskerðingar eins og t.d. alzheimer. Það er því mikilvægt að þar sé í boði skipulagt félags- og tómstundastarf fyrir hinn aldraða sem er fjölbreytt og tekur mið af hans núverandi getu. Með fjölbreytileikanum eru meiri líkur á því að hinn aldraði taki frekar þátt í félags- og tómstundastarfinu þar sem honum býðst eitthvað innan síns áhugasviðs. Það er þó ekki nóg að hafa fjölbreytileikann því það er einnig mikilvægt að geta aðlagað afþreyinguna að núverandi getu hins aldraða svo hann geti tekið þátt. Til þess að geta boðið uppá slík gæði í þjónustunni þarf sá sem hana skipuleggur að hafa þekkingu á því hvaða þættir það séu sem hafa hvetjandi og hamlandi áhrif á þátttöku hins aldraða. Það er því mikilvægt að félags- og tómstundastarf sé skipulagt og stjórnað af þeim sem hafa þekkingu til þess til að hámarka tækifæri hins aldraða til þátttöku. Ýmsar fagstéttir innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa einbeitt sér að þjónustu í félags- og tómstundastarfi fyrir aldraða. Iðjuþjálfar hafa þá sérstöðu að hafa þekkingu til að aðlaga iðju að einstaklingnum og nálgast þjónustuna við einstaklinginn með heildrænni sýn en einnig má nefna tómstunda- og félagsmálafræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, félagsliða og sjúkraliða.
Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Iðjuþjálfi með diplómu í öldrunarþjónustu
Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði