Hvers vegna kostar ekki allt tómstundastarf það sama?

Allir hafa stundað tómstund á einhverjum tímapunkti í lífi sínu. Eða hvað? Hafa allir haft efni á því að senda börnin sín í tómstund, jafnvel tvær án þess að þurfa að skuldsetja sig? Svarið er eflaust nei. Raunin er sú að börn hafa ekki jafnan aðgang að tómstundum, en til dæmis kostar mun minna að æfa fótbolta heldur en að æfa á hljóðfæri.

Það eiga öll börn rétt til þess að iðka skipulagðar tómstundir við hæfi, en samkvæmt 31.grein barnasáttmálans eiga aðildarríki að virða og efla rétt barns til að taka fullan þátt í menningar- og listalífi, og skulu stuðla að því að viðeigandi og jöfn tækifæri séu veitt til að stunda menningarlíf, listir og tómstundaiðju. Þennan sáttmála er strax búið að brjóta með því að gefa misháar upphæðir í frístundastyrk, en af hverju er ekki hægt að gera neitt í þessu? Af hverju þarf þetta allt saman að kosta eitthvað?

Á hverju ári fær hvert barn svokallaðan „frístundastyrk” sem á að ná yfir kostnaðinn að mestu leyti. Á hverju ári styrkir Reykjavíkurborg barn um 75 þúsund krónur, Kópavogur 85 þúsund, Garðabær 55 þúsund, Akureyrarbær 50 þúsund en Hafnarfjörður 4.700 krónur á mánuði. Hér er strax byrjað að mismuna börnum eftir búsetu sinni, en börn og unglingar sem búa í Kópavogi hafa frekari möguleika að stunda dýrari tómstundastarf heldur en börn við sömu aðstæður sem búa á Akureyri.

Ekkert af þessum sveitarfélögum eru með nógu háan frístundastyrk til þess að sjá um árgjald í hinum ýmsu tómstundastörfum. Árgjald í fótbolta hjá Breiðablik fer allt frá 30 þúsund krónum fyrir þátttöku í yngsta flokk upp í 150 þúsund fyrir efsta flokk. Handboltinn er á sama róli en að æfa handbolta hjá Fram kostar 83 þúsund fyrir yngsta flokk og 139 þúsund fyrir efstu flokkana. Þetta eru þó bara ársgjöldin en svo bætist auðvitað við kostnaður eins og til dæmis æfingafatnaður og skór og ofan á það kostnaður vegna móta og ferðalaga.

Svo eru það börnin sem vilja ekki stunda íþróttir og kjósa frekar að æfa á hljóðfæri. Það kostar meira en 100 þúsund á ári að stunda tónlistarnám í tónlistarskóla, en svo kemur auðvitað aukakostnaður eins og til dæmis tónfræði eða aðrir auka áfangar sem iðkendur þurfa að sitja ef þeir ætla að útskrifast. Ekki má gleyma kostnað við kaup eða leigu á hljóðfærum, sem eru mjög dýr. Heilt píanó kostar eina milljón, blásturshljóðfæri kosta 100. þúsund og strengjahljóðfæri allt frá 60 þúsund upp í 300 þúsund. Þannig að ef barn vill læra á hljóðfæri getur kostnaður verið allt að hálf milljón á ári, en ef þú æfir á fiðlu þarftu að borga skólagjöldin, kaupa fiðlu og aukahluti, nótnahefti og svo má ekki gleyma kostnaði við skutl á æfingarnar.

Gætum við ekki bara sem land ákveðið það í sameiningu að bjóða upp á fríar æfingar fyrir börn og ungmenni í stað þess að mismuna þeim eftir tekjum foreldra sinna og búsetu? Auðvitað þarf samt að fjármagna slík tækifæri, og ættu því sveitarfélögin að full fjármagna íþrótta- og tónlistarnám í stað þess að gefa hverju og einu barni 75 þúsund. Þannig væri hægt að tryggja öllum börnum tækifæri til iðkunar, óháð fjárhagsstöðu foreldra.

Arna Mist Helgadóttir, nemandi í tómstunda- og félagsfræði