Hefur rödd unglinga vægi meðal fullorðinna?

„Æji eina ferðina enn hlustar Halli ekki á mig ég þurfti að vísa honum út úr tíma ég er alveg komin með nóg af honum.” 

„Það er ekkert hægt að gera fyrir Halla ég er búin að reyna að gera allt fyrir hann.“

Halli er 14 ára unglingur hann virðist vera búin að mála sig út í horn hjá flestum kennurum og starfsmönnum skólans. Hann gerir í því að finna upp á ýmsum uppátækjum svo að fullorðna fólkið láti hann heyra það.

Þegar nýr kennari tók við hópnum þá var eitt af því fyrsta sem var sagt við hann „Þú skalt passa þig á honum Halla hann er mjög erfiður.“  Hann velti því fyrir sér þegar þeir hittust í fyrsta sinn hvort einhver hefði gefið Halla almennilegt tækifæri eða hvort hann sé bara stimplaður sem erfiði strákurinn. Sem betur fer ákvað kennarinn að kynnast Halla á sínum forsendum og ekki láta þessi orð hafa áhrif á þeirra samskipti.

Eftir stutta stund fór Halli að reyna á mörk kennarans og hvar þau liggja. Kennarinn tók eftir því að Halli var alltaf tilbúinn að taka slaginn jafnvel þó þeir væru að eiga venjulegar samræður. Halli skyldi ekki afhverju þessi kennari væri ekki stanslaust að skamma og öskra á  hann fyrir uppátækin sín, heldur vildi kennarinn bara tala við hann sem Halla þótti virkilega furðulegt af þessum kennara. Ekki leið á löngu þar til kennarinn skyldi hegðunina, hann var að leika hlutverkið „erfiði unglingurinn“ sem fullorðna fólkið hafði búið til fyrir hann.

Kennarinn fór að gefa Halla hlutverk þar sem hann þurfti að sýna ábyrgð og vera jákvæður leiðtogi inni í bekknum. Eftir nokkrar vikur hafði viðhorf hans til skólans breyst til hins betra því nú var hann komin með manneskju sem bauð honum upp á öryggi, hlustun og skilning. Halli fór loksins að upplifa að hans sjónarhorn og líðan skiptir máli inn í skólanum og það væri í lagi að reka sig á án þess að vera skammaður fyrir það. Á milli þeirra ríktir traust og virðing til hvors annars.  Auðvitað förum við flest út af strikinu enn er þá ekki einmitt gott að hafa einhvern sem réttir mann við án þess að vera dæmdur? Aftur á móti þurfti Halli líka að skilja að til þess að hægt sé að treysta honum þá þurfi hann líka að sýna fram á að hann eigi traustið skilið.

Ég velti því fyrir mér hvort fullorðnir séu að koma fram við unglinga af virðingu? Eru fullorðnir að mæta unglingum þar sem þau eru stödd? Hvað getum við gert til þess að ungmenni upplifi að þeirra skoðun og sjónarhorn skipti máli?

Hildur Karen Einarsdóttir, kennaranemi á menntavísindasviði Hí