Frístundastyrkir hafa verið til lengi og komu fyrst fram árið 2007 í formi frístundakortsins, en þá var upphæð styrksins 12.000 krónur . Síðan þá hafa þeir þróast og vaxið upp í 50.000 krónur sem þarf að nota í tómstund sem uppfyllir ákveðnar kröfur. Þetta hefur styrkt tómstundastarf á Íslandi mikið og gerir stofnunum eins og Myndlistaskóla Reykjavíkur kleift að ráða starfsfólk í fulla vinnu. Það er líka vel þekkt fyrirbæri að íslenskir íþróttaþjálfarar í yngri flokkum eru á heimsklassa mælikvarða og eflaust hefur frístundastyrkur stuðlað að þessu á einhvern hátt. Það er þess vegna hægt að segja að frístundastyrkir hafi án efa styrkt tómstundastarf á Íslandi og eru þess vegna vel heppnaðir í því samhengi.
Ýta tómstundastyrkir undir ójafnvægi í samfélaginu? Því er hægt að velta fyrir sér. Styrkirnir gera tómstundir dýrari á sama tíma og þeir ýta undir gæði þeirra, og gera það því nær ómögulegt fyrir sum börn að stunda margar tómstundir. Þau börn sem eiga foreldra sem standa höllum fæti í samfélaginu, til dæmis börn einstæðra foreldra, börn innflytjenda eða börn atvinnulausra, hafa þannig ekki sömu tækifæri til að iðka tómstundir og önnur börn. Á síðasta ári hafa mun fleiri verið atvinnulausir vegna hruns í ferðaþjónustu á Íslandi og samdráttar á ýmsum sviðum tengdum heimsfaraldri. Þetta fólk hefur ekki burði til að borga mikið aukalega í tómstundaiðkun fyrir börn sín á atvinnuleysisbótum. Tómstundir hafa hækkað í gæðum og orðið mun dýrari sem gerir lífið erfiðara fyrir fólk í þessari stöðu.
Skoðum til dæmis hver kostnaðurinn er fyrir foreldri með 14 ára barn í fótbolta í Hlíðunum. Fyrir vor og sumar í fótbolta hjá Val þarf að borga 79.000 krónur í æfingagjöld. Það er svo sem alveg viðráðanlegt ef að frístundastyrkurinn dekkar 50.000 krónur af þessu, þá eru þetta bara 29.000 krónur sem þarf að borga. Það sem er þó ekki tekið inn í reikninginn er allur kostnaðurinn sem fylgir því að stunda íþróttir, t.d. íþróttafatnaður, fótboltaskór, og ekki má gleyma öllum þeim mótum sem eru á sumrin og allur kostnaðurinn sem fer í þau. Gróft reiknað væri þetta að minnsta kosti auka 30.000 krónur, en mun meira ef barnið tæki þátt í öllum þeim mótum sem eru í boði. Það sem kæmi úr vasa foreldra væru þá sirka 60.000 krónur Þessir grófu útreikningar gera samt ráð fyrir því að barnið stundi bara eina tómstund, svo ef barnið stundar fleiri tómstundir þá er kostnaður líklega tvöfalt meiri. Svona kostnað ráða ekki allir við og þá sérstaklega þessi börn sem eiga foreldra sem á höllum fæti standa. Þá missa þessi börn tækifæri á að iðka tómstund, og þá hef ég ekki einu sinni minnst á félagslegu hlið tómstunda. Ekki er hægt að segja annað en að þetta sé mikill missir að fá ekki að stunda tómstundir.
Þess vegna þarf að breyta þessum styrkjum svo að þeir stuðli að jöfnum tækifærum á tómstundaiðkun fyrir öll börn. Til þess að tryggja það að öll börn hafi jöfn tækifæri til tómstundaiðkunar þá þyrfti að gefa styrki til tómstundaiðkunar byggða á tekjum foreldra, eins og við gerum við skattlagningu. Þeir sem eru með háar tekjur fá lægri styrk og þeir sem eru með lægri tekjur fá þá hærri styrk. Styrkurinn fyrir fólk með lágar tekjur þarf þá að dekka að minnsta kosti eina tómstund að fullu. 50.000 krónur er ekki nóg fyrir reglulega tómstundaiðkun. Með þessu myndum við stuðla að meira jafnrétti í samfélaginu okkar og um leið styrkja tómstundastofnanir í landinu. Þetta gæti verið eitt skref í áttina að því að gera samfélagið okkar aðeins betra en það er.
—
Elias Snær Önnusson Torfason