Slök í námi eða smeyk að biðja um hjálp?

Í dag er talað um að ungmenni eigi erfitt uppdráttar, að lesskilningur fari lækkandi og ýmislegt annað á þann veg. Í þessu samhengi er yfirleitt verið að tala um unglinga almennt en sjónunum ekki beint að neinum sérstökum hópi og hvaða erfiðleika þau eru mögulega að glíma við. Unglingar eru auðvitað af öllum toga en þá er samhenginu beint að ungmennum sem stunda áhættuhegðun. Þar sem þau verða oft út undan sem börn og finna sig í félagsskap sem stundar áhættuhegðun, hvort sem það er áfengisneysla, vímuefnaneysla eða aðrar venjur sem gætu talist ólöglegar.

Unglingar sem stunda áhættuhegðun eiga það einnig til að standa sig verr í námi og gæti það verið margir þættir sem þar stuðla að lélegum námsárangri. En spurningin er sú hvort þeir eigi erfiðara með að biðja um hjálp hvað varðar námsárangur eða einfaldlega að ná sér upp úr þeim aðstæðum og félagsskap sem þau eru í.

Þrátt fyrir að ungmenni sem stunda áhættuhegðun standi sig ekki öll illa í námi er það ein birtingarmynd þess. Þrátt fyrir að lélegur námsárangur geti stafað af mörgum þáttum eru ekki einungis ungmenni í áhættuhópum sem glíma við þann vanda. Það að mæta sjaldan í tíma og þar af leiðandi skila ekki eins miklu frá sér gæti verið vísbending um að unglingur sé ekki á réttu hillunni. Ein hugmynd um að þau geri þetta er að þau séu smeyk við eða hreinlega þori ekki að biðja um hjálp hvað varðar nám. Þau eru mögulega smeyk um viðbrögð sem þau fá frá kennurum og að verða komin svo langt aftur úr þegar þau svo á endanum myndu biðja um hjálp að þau þora ekki að láta vaða.

Þar sem það fer á þann veg að ef þau mæta í tíma, setjast niður og sjá hvað er verið að kenna, sjá að þau geta ekki ráðið við efnið hjálparlaust því þau eru ítrekað ekki búin að mæta eða fylgjast með og ákveða að þetta sé of erfitt og fara í símann eða annað sem drepur tímann. Kennarar verða auðvitað varir við þetta og halda mögulega að þetta sé leti í nemanda eða hafa boðið fram hjálp sína án árangurs. Eftir ítrekaðar tilraunir til að hjálpa nemanda sem streitist á móti gefast þeir síðan upp og hugsa að nemandinn verði þá að koma á sínum forsendum. Sem er þá aftur á móti kannski mikið álag á nemandann sem hefur ekki trú á sér til að byrja með.

Unglingar sem stunda áhættuhegðun koma líka oft frá fjölskyldum sem sýnir þeim ekki mikla athygli. Þannig að þó að unglingurinn væri að leita að stuðningi heima frá varðandi heimanám eða hjálp við námið almennt, fengi hann ekki mikinn stuðning. Þetta er að sjálfsögðu mjög aftrandi fyrir unglinga og gefur þeim ekki mikinn drifkraft til að standa sig vel. Það að fá ekki þann stuðning sem unglingurinn þarfnast á þessum mótandi árum hefur mjög mikil áhrif á það hvernig hann verður seinna meir, hvort sem það er í framhaldsskóla eða lengra á ævinni. Þegar unglingar eiga fjölskyldur sem ekki standa við bakið á þeim er mögulega ekki þeirra fyrsta hugsun þegar þeir eru að glíma við erfiðleika í námi að spyrja heima fyrir um hjálp.

Þrátt fyrir það að unglingar sem stunda áhættuhegðun eigi mögulega erfitt með að biðja um hjálp í námi er ekki mikið sem hægt er að gera nema að reyna að efla unglinginn til að verða betri námsmaður. Einnig þurfa kennarar mögulega að finna upp nýjar leiðir til að grípa athygli þeirra nemenda sem þeir sjá að eru að dala í námi og að gefa foreldrum stuðning og fræðslu um hvernig sé hægt að virkja unglinginn.

Friðbjörg Sigurbjörnsdóttir