Unglingar þurfa að gera sér grein fyrir hve slæmir orkudrykkir eru fyrir þá

Neysla margs kyns orkudrykkja hefur aukist verulega meðal ungmenna upp á síðkastið. En hvers vegna? Orkudrykkir eru ávanabindandi og algengt er að ungmenni neyti þeirra til þess að ná fram einhverskonar örvandi áhrifum (Hólmfríður Þorgeirsdóttir, 2019), þeir eru sérstaklega vinsælir meðal ungmenna þar sem þeir draga úr einkennum þreytu og virðast bæta einbeitingu (Matvælastofnun, 2020). Unglingum finnst frábært að geta vakað langt fram á nótt, vaknað snemma og látið það ekki hafa nein áhrif á sig, „eða þannig”. Um leið og einstaklingur er orðinn háður finnst honum eins og hann nái ekki að „þrauka” daginn nema að fá sér 1-2 drykki á dag, einfaldlega vegna þess að líkami hans er orðinn háður koffíni. Mikil neysla koffíns getur haft mikil áhrif á líðan og heilsu. Svo dæmi sé nefnt getur koffín valdið örari hjartslætti, höfuðverk, svima, kvíða og svefnleysi (Unnur Þormóðsdóttir, e.d.). Sjálf var ég farin að ,,smakka” orkudrykki í 8.-9. bekk en byrjaði að drekka þá fyrir alvöru í fjölbrautaskóla. Það voru allir að drekka þetta, ég smakkaði og reyndist þetta mjög gott og taldi ég þá hafa góð áhrif á mig svo ég hélt neyslunni áfram.

Það sem margir unglingar eru ómeðvitaðir um er að mikið magn koffíns sem neytt er um miðjan dag, er enn í líkamanum um kvöldið þegar komið er að því að fara í háttinn. Það magn sem eftir er um kvöldið getur valdið erfiðleikum við að sofna. Segjum sem svo að einstaklingur eigi auðvelt með svefn eftir að hafa neytt koffíns, þá hefur koffíníð samt sem áður áhrif á svefngæði hans. Áhrifin eru t.d. þau að við náum minni djúpsvefni, sem er eitt mikilvægasta svefnstigið. Þegar við erum í djúpsvefni losar líkaminn sig við ýmis eiturefni úr heila, sem sér um að mynda vaxtarhormón og endurnýjar frumur. Lítill djúpsvefn getur ýtt undir veikindi, þunglyndi og þyngdaraukningu (Karitas Kjartansdóttir, 2020).

Orkudrykkir hafa líka gríðarleg áhrif á tennur, neysla drykkja getur skemmt þær með þeim afleiðingum að tannglerungurinn leysist upp. Það þýðir að tennurnar verða miklu næmari fyrir hita og kulda (Hólmfríður Þorgeirsdóttir, 2019), sem er hægt að laga hjá tannlækni, en það jafnast ekki á við upprunalegan tannglerung. Litríkar umbúðir, góð markaðssetning, gott bragð og minni þreyta, hefur vissulega áhrif á það hversu mikil neysla þessara drykkja hefur orðið meðal ungmenna. Markaðurinn er orðinn það stór að þú getur fengið þér nánast hvaða bragðtegund sem þú getur ímyndað þér.

En unglingar verða að gera sér grein fyrir þessum slæmu áhrifum sem orkudrykkir hafa. Til þess að bæta þá þekkingu finnst mér að fræðslan mætti vera meiri og mikilvægt væri að hún byggi á gagnreyndri þekkingu. Það er auðvitað engin töfralausn við þessu en átaksverkefni geta verið liður í að koma málinu á dagskrá og vekja þannig athygli á þessum stóra vanda. Ég myndi líka vilja sjá að aldurstakmörk á sölu orkudrykkja verði hækkuð og að markaðssetning á þeim yrðir takmörkuð með því að setja auglýsingabann, líkt og hefur verið gert með t.d. tóbak og áfengi.

Við erum mörg hver sek um að verða fyrir áhrifum auglýsinga og tel ég því að auglýsingabann myndi minnka neysluna rétt eins og aldurstakmörk.

Laura Maria Jacunska

 

 

Heimildaskrá

Hólmfríður Þorgeirsdóttir. (2019, 29. nóvember). Upplýsingar um orkudrykki. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item38403/upplysingar-um-orkudrykki

Karitas Kjartansdóttir. (2020, 10. ágúst). Hvaða áhrif hafa orkudrykkir á svefn? [bloggfærsla].  https://www.betrisvefn.is/blogg/hvada-ahrif-hafa-orkudrykkir-a-svefn/

Matvælastofnun. (2020, 31. janúar). Áhrif koffíns.  https://www.mast.is/is/neytendur/mataraedi/ahrif-koffins

Unnur Þormóðsdóttir. (e.d.). Áhrif orkudrykkja á börn og ungmenni. https://www.hsu.is/ahrif-orkudrykkja-a-born-og-ungmenni/