Það er svo mikið að gera hjá okkur!

Hafa unglingarnir okkar á litlu stöðunum úti á landi of mikið að gera? Það er upplifun mín þessa dagana.  Við erum alltaf að hafa áhyggjur af því að unglingunum okkar leiðist og við viljum það að sjálfsögðu ekki. En getur verið að það sé kannski of mikið að gera hjá þeim?  Unglingarnir komu með bón til mín í fyrir nokkrum vikum um það hvort ég væri til í að hafa bara félagsmiðstöð einu sinni í vikunni, fyrir krakkana í 8. – 10. bekk. ,,Því það er svo mikið að gera hjá okkur í þessari viku!!“   

Í félagsmiðstöðum úti á landi er upplifun barna og ungmenna ef til vill önnur en í þéttbýlinu en á litlu stöðunum þekkir oft  starfsfólkið börnin og ungmennin og þekkir foreldra þeirra og nánustu ættingja sem búa á staðnum.  Þetta getur haft ýmsa kosti og ýmsa galla,  kannski er auðveldara að vinna með þá krakka sem eiga eitthvað erfitt þegar maður þekki til heimilisaðstæðna. En það getur líka verið erfiðara því maður þekkir þau og veit þeirra sögu.

Flest allir krakkarnir í þorpinu æfa fótbolta og margir æfa blak líka og ég veit til þess að krakkarnir sem eru á fullu í fótbolta æfa með meistaraflokki líka og þá erum við stundum að tala um  tvær æfingar á dag. Flestar helgar eru unglingarnir okkar á fullu í hinum ýmsu ferðum að iðka sín áhugamál og tómstundir..  Unglingarnir okkar eru í æskulýðsstarfi kirkjunnar og unglingastarfi björgunarsveitarinnar og reglulega er farið í helgarferðir á vegum þessara félaga. Keppnisferðir þar sem keppt hefur verið í fótbolta og eða blaki eru nokkrar yfir veturinn.  Og við þetta bætist að félagsmiðstöðin tók þátt í Samaust eina helgina og flest allir í 8. – 10. bekk mættu á það. Félagsmiðstöðin er með tvo fasta opnunartíma á kvöldi en það er erfitt að bjóða uppá meira því unglingarir eru uppteknir hin kvöldin í vikunni.   Svo það er óhætt að segja að það sé mikið að gera.  Ég er ekki að finna að því,  því ég veit að bestu forvarnirnar eru að hafa nóg að gera við að stunda jákvæðar tómstundir. Enda hefur grunnskólinn á Vopnafirði verið áfengis og reyklaus til margra ára.

Samvinna er mikil á milli allra þessara þátta og þegar verið er að gera dagskrá fyrir félagsmiðstöðina þá reynum við að púsla öllu saman. Dagskráin snýst alltaf um það hvenær eru þau ekki á æfingu, æskulýðsstarfi eða björgunarsveit.   Svona samvinna er líklega ekki möguleg nema þegar maður býr á stað þar sem allir þekkja alla.

Þeir krakkar sem eru ekki í neinum íþróttum eru í minni hluta, tveir í hverjum bekk. En þeir unglingar eru alveg jafn uppteknir og hinir á kvöldin því þau eru í unglingastarfi með björgunarsveitinni og í æskulýðsstarfi kirkjunnar líka.  Það er kannski eins gott að það er opin félagsmiðstöð tvö kvöld í viku því að þeir sem vilja ekki vera í eða eru of þreyttir fyrir skipulagt starf geta líka bara slakað á og hvílt sig í félagsmiðstöðinni því sannarlega virðist stundum ekki vera vanþörf á því!

Þórhildur Sigurðardóttir, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Drekans.