Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs

ungness logoFyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.

Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.

Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.

Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.

Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.

Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.

 

Ungness
Hluti af verkefnum Ungness. Verkefni fæðast út frá ráðinu og allir jafnir.

Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni

Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.