Sem foreldrar, kennarar eða starfsmenn skóla og félagsmiðstöðva gerum við okkar besta til þess að koma í veg fyrir það að börn og unglingar verði fyrir neikvæðum áhrifum frá umheiminum. Við teljum okkur hæf í að meta hvað skuli varast og hvað sé eðlileg hegðun. Við teljum til dæmis óeðlilegt að börn eða unglingar hangi ekki eftir skóla með vinum sínum eða stundi ekki tómstundir eins og fótbolta eða skátastarf. Foreldrar sem eiga unglinga sem spila mikið af tölvuleikjum og eyða jafnvel yfir 15 klukkustundum á viku inn í herberginu sínu að spila líta á veruleika barnsins sem verulegt vandamál sem þurfi að laga án þess að hafa kynnt sér ástæður barnsins fyrir þessari ákveðnu tómstund.
Hér á eftir kemur sagan mín þar sem að ég varð fyrir þeirri uppljómun að komast að því að ég á mitt innra nörda sjálf.
Á mínum grunnskólaárum í Álftanesskóla þá verð ég að segja að ég lagði mig ekki fram við að kynnast samnemendum mínum sem að spiluðu tölvuleiki eins og World of Warcraft eða EVE Online. Þeir voru einungis nördar í neikvæðri merkingu orðsins fyrir mér. Það var ekki einu sinni að ræða það að kynnast þeim ef þeir spiluðu leiki eins og D&D því þá fannst mér þeir vera ,,mökk” skrýtnir.
Ég held að ég hafi haft sömu sýn og flest allar manneskjur sem höfðu einfaldlega ekki kynnt sér málið. Það var ekki fyrr en að ég byrjaði í tómstunda– og félagsmálafræði og kynntist núverandi kærasta mínum sem að ég sá notagildi þessara leikja. Sá maður/nördinn hafði eytt mest allri grunnskóla -og framhaldsskóla göngu sinni í að spila leiki á borð við World of Warcraft og gerir það enn þann dag í dag.
Það sem olli því að ég fékk þessa nýju sýn á þennann heim, sem var glænýr fyrir mér, var það að sjá að þrátt fyrir að fólk eyði mestmegninu af frítíma sínum á æskuárunum í tölvuleiki þá er það samt sem áður bara venjulegt fólk sem að fúnkerar alveg jafn vel og “við hin” í samfélaginu, jafnvel betur í sumum tilfellum.
Við sem að höfum ekki kynnt okkur málefnið gerum oft ráð fyrir því að það komi ekkert gott, bara slæmt af tölvuleikjum og notkun þeirra, svo sem félagsleg einangrun, veruleikafirring og aftenging við raunveruleikann svo eitthvað sé nefnt. Hinsvegar er það í langflestum tilvikum þveröfugt, tölvuleikir veita félagslega slökum einstaklingum samastað til þess að efla félagsfærnina á þá vegu sem að þeim býðst kannski ekki í hinu daglega lífi, tölvuleikir efla tungumálakunnáttu, aðallega ensku, og rökhugsun til muna og hjálpa til við að efla núverandi vinatengsl og skapa ný, rétt eins og flest allar aðrar tómstundir.
Eftir að ég uppgötvaði að það var ekki allt ömurlegt og skaðandi við þennann heim þá ákvað ég, með aðstoð kærasta míns, að prófa mig áfram á þessu sviði. Eins og er þá hef ég prófað þónokkra tölvuleiki, D&D og Magic the Gathering. Ég er ekki að segja að mér hafi fundist þetta allt skemmtilegt, enda liggja áhugasviðin mín annarsstaðar en í tölvuheimum, en ég er farin að sjá jákvæðu hlutina við þetta alltsaman.
Skilaboðin sem ég vil koma á framfæri eru einfaldlega þau að allir ættu að leggja tölvuleikja- og nördafordómana sína til hliðar, kynna sér málin og hleypa sínum innri nörda lausum af og til.
—
Maríanna Wathne Kristjánsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði