Kynlíf og unglingar!

Flestir byrja að stunda kynlíf einhvern tíman. Aldurinn á unglingum sem byrja að prófa sig áfram í kynlífi fer alltaf minnkandi og talið er að unglingar séu byrjaðir að stunda kynlíf í kringum 15 ára aldur. Kynlíf er farið að verða sjálfsagðari þáttur hjá unglingum á þessum aldri. Tækni nútímans færir kynlífið heim að dyrum með öllum þessum snjalltækjum, öppum, vefsíðum og stöðugu nútíma áreiti.

Foreldar þurfa að vera meðvitaðri um það sem er að gerast í heiminum í dag og reyna því að tala við börnin sín, kenna þeim hvað sé heilbrigt kynlíf og vera á undan tækninni áður en það er orðið of seint. Ábyrgðarlaust kynlíf er alls ekki hættulaust og því þurfa unglingar kynfræðslu, því kynfræðslan færir þá í átt að ábyrgðarfyllra kynlífi og ábyrgðarfyllri ákvörðunum. Í dag greinist fólk reglulega með kynsjúkdóma og fóstureyðingar orðnar margar.

Kynfræðsla í skólum ætti að vera mun fjölbreyttari. Eyða ætti tíma í að hanna fræðsluna þannig að hún nái til sem flestra. Fræðslan á ekki einungis að vera um „neikvæðar“ hliðar kynlífs (kynsjúkdóma, óléttu ofl.) heldur ætti fræðslan að vera léttari og vera fræðsla en ekki neikvæður fyrirlestur. Stuttmyndin Fáðu já (Páll Óskar Hjálmtýsson, 2013) er skemmtilegur nýr vinkill á kynfræðslu, stuttmyndin kemur inná margar hliðar kynlífs og endar á mikilvægi þess að fá JÁ, að samþykki beggja aðila sé mikilvægt.

Það er einnig mikilvægt að vinna vel með foreldrum og unglingum saman þegar kemur að viðkvæmu efni eins og þessu og fá að vita hvað krakkar og foreldrar vilji að komi fram á svona kynningum, t.d. hvað vilja þau læra og vita um. Þá fá foreldrar fræðslu alveg eins og unglingarnir. Því miður hafa ekki allir foreldrar þá hæfni til að miðla þessum upplýsingum til unglingsins og er umræðuefnið oft tekið úr samræðunum. Það að vera unglingur er oftar en ekki viðkvæmt mál og sérstaklega þegar farið er að tala um kynlíf, margir fara hjá sér og finnst óþæginlegt að ræða um kynlíf en með réttri kennslu gæti kynlíf verið mun opnara umræðuefni milli unglinga og foreldra. Með þessu ættu unglingar að geta fengið þá hjálp og traust frá foreldrum sínum til að takast á við allar þær hindranir sem í vegi þeirra gætu orðið og einnig það jákvæða.

Unglingum í dag finnst erfitt að fara út í búð að kaupa getnaðarvarnir, kannski vandræðalegt og sér í lagi ef þau þurfa að biðja foreldra sína um peninga fyrir getnaðarvörnunum. Það væri góð þróun ef smokkar væru ókeypis, kynsjúkdómasmit myndu minnka og einnig gæti það komið í veg fyrir þungun.

Það er mikilvægt að upplýsa unglinga strax um getnaðarvarnir og hvaða tilgangi þær gegna. Margir halda að það sé nóg að stúlkan sé á pillunni en það sem pillan gerir er að koma í veg fyrir þungun en kemur ekki í veg fyrir kynsjúkdóma. Þá kemur smokkurinn sterkur inn en hann ver gegn kynsjúkdómum og þungun. Fræðslan þarf að vera sterk bæði innan veggja skólans og heimilisins, unglingar þurfa að vera upplýstir.

Kynlíf þarf ekki að vera neitt feimnismál, það eykur vellíðan, sjálfstraust og almenna hamingju. Eftir kennslu um hvernig heilbrigt kynlíf sé, þá eru mun meiri líkur á því að unglingar stundi heilbrigðara kynlíf í framtíðinni og byggja jafnvel ákvarðanir sínar á upplýsingunum sem þau hafa fengið.

Stella Steingrímsdóttir, nemi í uppeldis og menntunarfræði við HÍ.

 

Heimildir.

Teitur Guðmundsson.(2017, 3. febrúar). Óheilbrigt kynlíf. DV.

Páll Óskar Hjálmtýsson (Leikstjóri).(2013). Fáðu Já [stuttmynd]