Er æskan að fara til fjandans?

Unglingar mæta oft fordómum í samfélaginu og eru oft litnir hornauga. Ófáum sinnum hefur maður heyrt fullorðið fólk nú til dags segja setningar á borð við: „Unglingar nú til dags gera ekkert annað en að hanga á netinu” eða „Unga fólkið í dag er svo latt og gerir ekki neitt”. Mín uppáhalds setning er þó klárlega: „jæja nú er æskan að fara til fjandans”. Hver hefur ekki heyrt þessa setningu?

Ég er að sjálfsögðu ekki að segja að allt fullorðið fólk líti niður á unglinga, langt því frá en oft finnst mér unglingar hafa ákveðna stimpla á sér og þessir stimplar koma oftast frá fullorðnum. Stimpillinn sem mér finnst mest áberandi er sá að unglingar séu til vandræða og hefur það verið þannig í gegnum tíðina. Nú til dags þá finnst mér umræðan mikið vera í garð áfengis og annarra vímuefna og einnig er netnotkun unglinga mikið í brennideplinum þessa stundina.

Það hafa jú allir fullorðnir einstaklingar einhvern tímann verið unglingar svo ég furða mig oft á þessari hegðun, pælingum og þessu mótlæti sem unglingar mæta. Ég furða mig einnig á því að svona sé hugsunin í þessu nútímasamfélagi sem við lifum í. Hvernig ætli þetta verði eftir 20 ár? 50 ár? Ætli sama hugsun muni ríkja þá og ætli komandi kynslóðir muni upplifa þetta mótlæti? Ef þú spyrð mig myndi ég segja já en auðvitað vona ég að það minnki. Það er erfitt að breyta hugsun fólks og ekki hægt að útrýma fordómum en ég trúi að hægt og bítandi sé hægt að minnka fordóma. Fordómar byggjast mikið upp á fáfræði og hræðslu við það sem fólk þekkir ekki, því velti ég fyrir mér hvort fullorðna fólkið sé svona hrætt við breytingar og framtíðina. Tímarnir eru að breytast og mun unga kynslóðin alltaf vera öðruvísi en sú sem kom á undan þeim. Tæknin er að verða mjög stór partur af lífi fólks og eru unglingar í dag að alast upp með henni og haga þeir sér því allt öðru vísi en foreldrar þeirra þegar þeir voru ungir. En það þarf ekki endilega að vera áhyggjuefni eins og svo mörgum finnst. Heimurinn er að þróast og breytast og eru unglingar í dag í takt við tímann.

Áður en netið kom til sögunar var eldri kynslóð þess tíma einnig að hneykslast yfir unga fólkinu og því sem það tók sér fyrir hendur. Eldra fólk sennilega hefur hneykslast á unga fólkinu alla tíð og líklegast í gegnum alla mannkynssöguna. Sem dæmi má nefna hippa kynslóðina, pönk kynslóðina og diskó kynslóðina, allar þessar kynslóðir eiga það sameiginlegt að hafa mætt fordómum og leit eldra fólkið niður á þau.

Árið er 2017 og æskan ekki ennþá farin til fjandans, því myndi ég segja að þessi frasi um að æskan sé að fara til fjandans sé tímalaus og þessi pæling gangi í rauninni ekki upp. Unglingar munu aldrei deyja út. Við þurfum að treysta á komandi kynslóðir og því ættum við að hvetja unglinga og börn meira í stað þess að hneykslast, dæma og hafa áhyggjur af æskunni.

Þórunn Bríet Þrastardóttir,