Lækkun kosningaaldurs – Til hvers?

Á undanförnum vikum hefur verið heit umræða í samfélaginu um lækkun kosningaaldurs til sveitastjórnarkosninga. Lagt hefur verið fram frumvarp þess efnis að kosningaaldur verði lækkaður frá 18 árum niður í 16 ár í sveitastjórnarkosningum sem eiga sér stað í maí næstkomandi. Ef frumvarpið gengur eftir mun það þýða að um það bil 9 þúsund ungmenni munu bætast í hóp þeirra sem kjósa.

Margir samfélagsþegnar hafa sterkar skoðanir á þessu málefni enda þörf umræða. Ef til þess kæmi að kosningaþátttakan yrði lækkuð þá væri verið að veita 16 og 17 ára ungmennum tækifæri á að nýta almenn réttindi. Við 16 ára aldur er að marka nokkurskonar tímamót í lífi ungmenna. Þetta er ungt fólk sem verður gjaldgengt á vinnumarkaðinn og þar af leiðandi farin að borga tekjuskatt. Flestir stjórnmála flokkarleyfa 16 ára ungmennum að taka þátt í innra starfi. Því velti ég fyrir mér að ef 16 ára ungmenni eru fær til þess að vera á vinnumarkaði og uppfylla öll þau skilyrði og skyldur sem því fylgja ásamt því að geta gert greinamun á réttu og röngu ættu þau þá ekki að geta tekið afstöðu og kynnt sér pólitík sem þau telja að sé best fyrir þeirra samfélag?

Allir þeir sem hafa náð 18 ára aldri mega kjósa, það er staðreynd. En hefur allt þetta fólk í raun og veru vitneskju um það sem er að gerast í pólitík? Er hinn almenni borgari búinn að mynda sér mótandi skoðanir á öllum sviðum samfélagsins? Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Hvað liggur að baki þess að þeir sem eldri eru séu betur til þess komnir að kjósa heldur en 16 ára ungmenni? Ungt fólk er síður en svo óvirkt og áhugalaust þegar kemur að samfélagslegum málefnum, þau láta sig þau varða.

Helsu rökin sem framkvæmdarstjóri landssambands ungmenna, Tinna Isebarn, setur fram fyrir lækkun kosningaaldurs eru þau að við þurfum að styrkja og efla lýðræðið okkar í heild. Hún bendir einnig á það að rannsóknir hafa sýnt í gegnum tíðina að ef kjósendur nýta ekki kostningarétt sinn til að byrja með þá eru minni líkur á að þeir kjósi síðar á ævinni og því er fræðsla nauðsynleg. Til þess að lækkunin geti orðið að veruleika þarf að auka fræðslu á ýmsum sviðum. Ég tel að það þyrfti að vekja athygli stjórnmálafólks. Stjórnmálaflokkar verða að fara að höfða meira til ungs fólks því staðan er sú að þau þurfa fleiri raddir. Oftar en ekki er það yngra fólkið sem leiðir okkur áfram til framtíðarinnar.

Ungt fólk í íslensku samfélagi hefur fengið aukna þjálfun í lýðræði ef borið er saman við eldri kynslóðir. Það er greinilega skref í rétta átt en ég velti fyrir mér afhverju að stöðva þar? Af hverju að stöðva við þessa auknu þjálfun? Hvenær ætlum við að leyfa þeim að taka þátt til fulls og tryggja ungu fólki raunveruleg áhrif lýðræðis? Það bendir allt til þess að því fyrr sem ungt fólk lærir á og tileinkar sér lýðræðislega þátttöku í samfélaginu því betra.

Guðrún Ósk Tryggvadóttir