Heilsufar unglinga í nútímasamfélagi

Mér finnst sífellt algengara að unglingar séu að greinast með kvíða og þunglyndi ungir og eiga erfitt með daglegt líf. Ég tel að það séu margar ástæður fyrir því sem tengjast þróun nútímasamfélagsins. Bailey og Burch (2006) segja að þunglyndi geti ýmist verið arfgengt eða þróast vegna þess að atburðir verða sem einstaklingum finnst þeir ekki ráða við. Þeir segja að í nútímasamfélagi sé þunglyndi algengasta geðröskunin og getur einstaklingur orðið þunglyndur einnig vegna einangrunar, tölvunotkunar eða hreyfingarleysis. Með þunglyndi fylgir oft kvíði sem lýsir sér þannig að einstaklingur er sífellt hræddur um að eitthvað slæmt muni gerast og finnur fyrir miklum ótta (Örn Bjarnason, 1999).

Ég ætla hér að neðan að nefna þá þætti í nútímasamfélaginu sem ég tel að hafi neikvæð áhrif fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði unglinga.

Ef ég set mig í spor unglings þá færi ég seint að sofa margar nætur í röð vegna þess að það væri alltaf eitthver sem væri að tala við mig á Facebook eða senda mér Snapchat og þá myndi ég líklega ekki vera mjög orkumikil á daginn. Svo er það þessi þáttur eða tölvuleikur sem er bara svo spennandi að ég get ekki lokað tölvunni strax til að fara sofa. Ég fæ heimasenda Dominos pizzu og tveggja lítra kók og horfi svo á einn þátt í viðbót fyrir svefninn.  Loksins fer ég að sofa dauðþreytt og er næstum sofnuð þegar að síminn pípar og ég fæ tilfinningu eins og ég verði bara að svara strax. Svefninn var ekki góður þessa nótt, varla neinn og það hlýtur að hafa áhrif á orku, jákvæðni og vellíðan daginn eftir.

Ef við bætum hreyfingarleysi við svefnleysið þar sem unglingar hreyfa sig minna en hér áður fyrr hefur það í för með sér frekari neikvæðar afleiðingar á kostnað andlegs og líkamlegs heilbrigði. Ungmenni sem eru í íþróttum sýna fram á meiri vellíðan en þeir sem eru ekki í íþróttum. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að unglingar sem eru í skipulögðu íþróttastarfi eru ólíklegri til að sýna fram á áhættuhegðun ásamt steranotkun (Hrefna Pálsdóttir og félagar, 2014).

Margir finna fyrir því þegar þeir hreyfa sig reglulega að það bætir orku þeirra í daglegu lífi, minnkar kvíða, gerir svefn betri og bætir vellíðan. Það er ekki bara hreyfingarleysi sem er vandamál hjá unglingum í dag en einnig eru þau að borða oftar skyndibita og óhollari fæðu því valmöguleikar um mismunandi skyndibita eru mun fleiri en hér áður fyrr.

Tölvufíkn og mikill tími fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna virðist einnig vera sjáanlegra en áður og sumir sem hafa pissað í flöskur því þeir tíma ekki að eyða smá tíma í að líta af skjánum og fara á klósettið. Of mikil tölvunotkun getur gefið einstakling ranga mynd af raunverulegu lífi og gæti viðkomandi farið að miða sig við það sem hann sér í sjónvarpsþáttum eða á netinu og fundist hann ekki ná að standast undir miklum kröfum þar sem gæti haft skaðleg áhrif á sjálfsmynd viðkomandi.  Með auknum tíma fyrir framan tölvuna hefur einstaklingur minni tíma til að verja með vinunum eða úti í náttúrunni að gera eitthvað sem er uppbyggilegt og skemmtileg og bætir skap og vellíðan.

Ef ekkert breytist tel ég að þetta vandamál verði stærra í framtíðinni og að kvíði og þunglyndi muni verða algengari hjá unglingum og jafnvel hjá börnum ásamt hegðunarvandamálum. Með aukinni vanlíðan held ég að það sé einnig líklegra að unglingar leiti í tómstundir sem ekki eru heilbrigðar og hafi óraunverulega sýn á veruleikanum vegna mikillar tölvunokunar. Það þarf því að vera vitundavakning hjá samfélaginu. Finna þarf uppbyggilegar athafnir fyrir unglingana ásamt því að auka áhuga þeirra á íþróttum og tómstundastarfi til að koma í veg fyrir að þeir eyði öllum sínum tíma fyrir framan tölvuna.

Júlía Guðmundsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ

 

1Bailey, J. og Burch, M. (2006). How to Think Like a… Behavior analyst: Understanding the Science That Can Change Your Life. New York: Lawrence Erlbaum Associates, Inc.

2Hrefna Pálsdóttir, Jón Sigfússon, Ingibjörg Eva Þórisdóttir, Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Álfgeir Logi Kristjánsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir (2014). Ungt fólk 2014: grunnskólar: menntun, menning, félags,-íþrótta-og tómstundastarf, heilsa, líðan og vímuefnaneysla unglinga í 8., 9. og 10. bekk á Íslandi. Samanburður rannsókna árin 2000 til 2014. Staða og þróun yfir tíma.

3Örn Bjarnason. (1999). Handbók um geðraskanir og skyld heilbrigðisvandamál. Reykjavík. Orðabókasjóður læknafélaganna.