Í nútímasamfélagi þá eigum við flest öll snjallsíma eða snjalltæki og flest okkar eru með einhver af eftirfarandi öppum hjá okkur; Facebook, Snapchat, Instagram og TikTok. Við sem fullorðin erum ættum að geta lesið á milli raunveruleikans og þeirrar glansmyndar sem oft er sett á samfélagsmiðla. Við vitum að ekki er allt sem sýnist en hvað með ungmennin okkar? 13 ára aldurstakmark er á þessi forrit en margir eru komnir með aðgang áður en þeir ná þeim aldri. Eru börnin okkar og ungmenni fær um að geta greint á milli raunveruleikans og glansmyndarinnar sem birtist á samfélagsmiðlum?
Hverjir bera ábyrgð á því að kenna ungmennunum okkar muninn á þessu tvennu? Eru það áhrifavaldarnir sjálfir eða erum það við sem stöndum ungmennunum næst, foreldrar/forráðamenn og við sem vinnum með þeim.
Mér finnst að þeir sem stuðla að uppeldinu eigi að sjá um að kenna börnum og ungmennum samfélagsmiðlalæsi. Áhrifavaldar eru alls ekki slæmar persónur heldur verðum við sjálf að geta gert greinarmun á því raunverulega og því óraunverulega. Bera fjölmiðlar mögulega einhverja ábyrgð líka? Þurfum við að sjá Vikuna á Instagram þar sem myndir frá helstu áhrifavöldum eru birtar og sýnt frá glansímynd stjarnanna? Þessi innslög koma á sama stað og lesið er um jarðskjálfta, stríð og fleira sem er að gerast í heiminum. Erum við að draga úr alvarleika fréttanna eða er verið að gera glanslífið raunverulegra?
Áhrifavaldar geta haft tugi, þúsundir eða milljónir fylgjenda á sínum miðlum. Áhrifavaldar auglýsa oft ýmsar vörur, svo sem snyrtivörur, húðumhirðutæki, tannhvíttun og fleira sem snýr að útliti. Fylgjendur áhrifavaldanna geta síðan oft keypt vörurnar með einhverjum afslætti. En þurfum við að eltast við það að eiga allt það nýjasta? Þegar ég var á þessum aldri þá átti ég mínar fyrirmyndir og höfðu þessar fyrirmyndir mikil áhrif á það hvernig ég mótaðist og hvað ég gerði. Ég ólst ekki upp með öllum þessum forritum heldur var það MSN, myspace og blogg síðurnar sem voru að ryðja sér til rúms á mínum unglingsárum.
Þegar kemur að myndbirtingum á samfélagsmiðlum þá fá áhrifavaldar mikið af like-um á myndir eða færslur sem þeir setja inn á netið og það sjáum við öll. En hvernig snýr þetta að hinum venjulega unglingi? Þarf hann að fá mörg like til þess að unglingurinn upplifi það að myndin sé flott eða töff? Eru ungmenni að eyða miklum tíma í myndina áður en hún fer á samfélagsmiðlana? Taka margar myndir, setja filter og þess háttar? Fylgjast með hversu mörg like eru komin?
Á samfélagsmiðlum getur einnig verið einelti. Myndir, myndbönd og skilaboð eyðast til dæmis á snapchat og getur verið erfitt fyrir foreldra að sjá í raun hvað það er sem gengur á. Greinarhöfundur hefur einnig séð á tiktok aðganga þar sem verið er að gera grín, eru með fötlunarfordóma og jafnvel verið að hóta barsmíðum á ákveðnum einstaklingum sem er mjög slæmt. Hvar stöndum við gagnvart þessu? Einelti er alltaf alvarlegt, alveg sama í hvaða mynd það er en hvernig getum við aðstoðað þá sem lenda í neteinelti?
Við verðum auðvitað að virða persónulegt líf ungmennanna okkar en að sama skapi verða þau að treysta okkur til þess að geta aðstoðað þau ef eitthvað er að gerast. Þess vegna verðum við að vera góðar fyrirmyndir, treysta og leiða börnin og ungmennin áfram. Með því að vera góðar fyrirmyndir á netinu kennum við börnunum okkar. Þegar við skrifum ummæli á samfélagsmiðlum er það fyrir allra augum. Allt of oft hef ég séð komment við færslur sem ég get ekki ímyndað mér að viðkomandi myndi segja við fólk í raunveruleikanum. Hvers vegna er það í lagi að skrifa ljóta og meiðandi hluti bakvið tölvuskjáinn? Við verðum líka að passa hvað og hvernig við skrifum á netinu því eins og málshátturinn segir: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Öll viljum við ungmennunum okkar það besta í lífinu og að þeim farnist vel í lífinu. Ungmenni geta verið áhrifagjörn og þar af leiðandi verðum við sem stöndum þeim næst að kenna þeim á samfélagsmiðlana því þeir eru komnir til að vera. Við verðum að vera fyrirmyndir þegar kemur að samfélagsmiðlum.
—
Ólöf Lydía
Höfundur er nemandi í tómstunda – og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.