Ableismi veldur því að fötluð ungmenni verða fyrir útskúfun og jaðarsetningu. Það byggir á þeirri hugmynd að fötlun sé í eðli sínu neikvæð og óæskileg. Ablelismi eru kerfisbundnir fordómar gagnvart fötluðu fólki hvort sem er varðandi aðgengi eða félagslega þátttöku.
Tómstundir skipta miklu máli í lífi barna og ungmenna. Þær þroska félagsfærni, efla hæfni og þekkingu. Allt skiptir þetta máli en eru tækifærin til staðar til þess að hver og einn geti tekið þátt? Ég er 23 ára einstaklingur með fötlun og verandi fatlaður þá hef ég upplifað það á eigin skinni hvað tómstundastarf spilar stórt hlutverk í mínu lífi. Fatlað fólk verður því miður oft mikill eftirbátur þegar kemur að virkri þátttöku í samfélaginu. Allt of oft er ekki gert ráð fyrir fötluðu fólki í tómstundastarfi hvort sem það eru íþróttir, á tónleikum eða skólaböllum.
Þegar ég var á mínu fyrsta ári í menntaskóla var mikil tilhlökkun fyrir árshátíðinni. Hún átti að vera hin glæsilegasta og fara fram í hátíðarsal skólans með þriggja rétta máltíð og skemmtiatriðum. Ég og félagar mínir, sem einnig eru með skerta getu mættum á tilsettum tíma en öll ljós voru slökkt og engin hreyfing sjáanleg. Þá fáum við að vita að árshátíðin hafi verið flutt í annað rými en þar var lítið sem ekkert pláss. Vissulega var rampur en ekkert pláss þar inni. Okkur var komið fyrir úti í horni þar sem við vorum ekki fyrir öðrum. Í heila fjóra tíma sátum við kyrr og gátum ekki farið á dansgólfið né valið hvað við fengum að borða. Góðgjarnir samnemendur komu með einhvern mat til okkar. Við gátum ekki einu sinni yfirgefið svæðið. Við vorum eins og síld í tunnu og gátum ekkert hreyft okkur.
Þessi reynsla hafði mikil áhrif á mig. Mér fannst ég vera niðurlægður. Þetta er dæmi um það hvernig „venjulegur hópur/nemendfélagið“ hugsar ekki út fyrir rammann, þ.e.a.s. gerir ekki ráð fyrir fólki sem hefur ekki sömu hæfni og það sjálft. Þetta var ableismi í sinni tærustu mynd. Það þótti allt í lagi að gera ekki ráð fyrir okkur sem að þurftum aðeins meiri aðstoð. Kerfisbundin útilokun hjá einstaklingum, hópum og stærri einingum eins og t.d. skólakerfið í heild sinni er nokkuð sem fólk áttar sig ekki á. Því finnst það koma rétt fram og sér ekkert athugavert við framkomu sína. Ableismi verður ekki upprættur nema á kerfisbundinn hátt og með samfélagslegri hugsanabreytingu.
Það sem gera þarf er að innleiða fötlunarfræðslu í námskrá á öllum skólastigum til þess að fræða og upplýsa börn, unglinga og fullorðið fólk um hvernig það er að vera með fötlun, hvaða hindranir geta verið til staðar og til þess að koma í veg fyrir fordóma. Síðast en ekki síst þá er þetta bráðnauðsynlegt fyrir starfsfólk til þess að það sé í stakk búið til þess að taka á móti fötluðum nemendum sem eru að hefja skólagöngu.
Mikil umræða hefur verið um aðgengismál í samfélaginu undanfarin ár, þökk sé átakinu Römpum upp Ísland. Þarna er bara horft til líkamlegs aðgengis, þ.e.a.s að þeir sem ekki geta gengið geti farið leiðar sinnar óhindrað. Þetta er gott og blessað en það þarf að horfa heildstætt á aðgengismál og taka inn í myndina jaðarsetningu fatlaðra og kerfislega útskúfun.
Það verður ekki nóg pláss fyrir alla fyrr en búið er að ná hugarfarsbreytingu og útrýma ableisma.
—
Haukur Hákon Loftsson, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði