Samfélagsleg styrkleikakort

Það er alltaf mikil orka sem fylgir því að hefja nýtt ár og nýja önn í tómstunda- og félagsmálastarfi. Eftir undarlega haustönn erum við reynslunni ríkari með allskyns nýjar leiðir til þess að halda úti starfinu en einnig bindum við vonir við að hægt verði að halda úti hefðbundnu starfi í auknum mæli næstu mánuði. Við upphaf nýrrar annar er alltaf gott að staldra við, ígrunda og rýna starfið, hvað er að ganga vel og hvar viljum við sækja fram. Eitt tól sem er afar gagnlegt til að nýta á slíkum tímamótum er samfélagsleg styrkleikakort (e. community asset mapping) á samfélagi einstaklingana sem samtökin eða stofnunin vinnur með. Út frá slíkri kortlagningu færist umræðan um starfið á hærra stig og fæðast oft allskyns hugmyndir um ný samstarfsverkefni og bætt samskipti við aðra hagaðila samfélagsins. 

Í bók sinni Building communties from the inside out fjalla þeir Kretzman og McKnight (1993) um að það séu tvær hugmyndafræðilegar leiðir til að styðja við samfélög. Í hefðbundinni leið er áherslan á að styðja við samfélög með því að skoða þarfir samfélagsins, áhyggjur og vandamál. Markmiðið er að breyta stofnunum samfélagsins og hreyfiaflið eru völd og valdhafar en litið er á einstaklinginn sem neytanda eða skjólstæðing (Allen o.fl., 2002). Hin leiðin er að gera samfélagsleg styrkleikakort sem efla samfélög með því að skoða þá styrkleika og resourca sem samfélagið býr yfir. Markmiðið er að efla samfélagið og hreyfiaflið eru sambönd, samstarf og samskipti. Litið er á einstaklinginn sem hreyfiafl sem á eignarhald í samfélaginu (Allen o.fl, 2002). Samfélagsleg styrkleikakort rýma því vel við áherslur tómstundastarfs um virðingu fyrir einstaklingnum og að hlutverk starfsins sé að byggja upp einstaklinginn út frá áhugasviði hans, draumum og styrkleikum. Samfélagsleg styrkleikakort geta verið margskonar en eiga það öll sameiginlegt að teikna upp þá styrkleika og þá resourca sem samfélagið býr yfir (Allen o.fl, 2002) Hér er dæmi um uppsetningu á samfélagslegu styrkleikakorti:

(Allen, 2002)

Þegar samfélagsleg styrkleikakort er unnið er mikilvægt að bera það undir ólíka þátttakendur samfélagsins til að þau endurspegli fjölbreyttni samfélagsins og er besta leiðin að fá fjölbreyttan hóp þátttakenda samfélagsins til að vinna kortið saman. Samfélagsleg styrkleikakort veita aukna innsýn inn í samfélag og samhengi starfseminar sem við höldum úti. Með aukinni innsýn opnast augu okkar fyrir því að til að bæta okkur þurfum við oft að líta út fyrir eigin samtök eða stofnun og auka samstarf og samskipti við aðra aðila samfélagsins. Ég mæli hiklaust með að útbúa samfélagslegt styrkleikakort með nýjum starfsmannahópi, einnig er hægt að gera það með þátttakendum í starfinu eða jafnvel blönduðum hópi starfsmanna, þátttakanda og annara hagaðila samfélagsins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Mastersnemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

Heimildir
– McKnight, John L. og  John P. Kretzmann. (1993). Building Communities From the Inside Out. Chicago: ACTA Publications.
– Allen, John C. og fleiri. (2002). Building on Assets and Mobilizing for Collective Action: Community Guide. Nebraska: CARI

Ég var tómstundafulltrúi

Nýverið var auglýst eftir nýjum tómstunda- og íþróttafulltrúa í Strandabyggð. Fjölmargt er undarlegt við auglýsinguna sjálfa og umræðuna í aðdraganda hennar. Auglýst er eftir íþróttafulltrúa, en þó er ekkert minnst á neitt íþróttatengt. Auglýst er eftir 70%-100% starfi sem vekur upp spurningar, telur sveitarstjórnin virkilega að 70% starfshlutfall dugi eða á kannski að ráða fleiri en einn í 70% starf og auka þannig umfangið? Hið síðarnefnda er skynsamlegt, hið fyrrnefnda glórulaust. Það sem stingur allra mest í augu er menntunarkrafan. Hér er einungis óskað eftir menntun við hæfi, ekki háskólamenntun við hæfi, ekki tómstunda- og félagsmálafræði eða annarri uppeldismenntun. Einstaklingur gæti þess vegna hlotið starfið eftir grunnskólapróf og virka þátttöku í eigin félagsmiðstöð, sem vissulega er mikið nám. Lesa meira “Ég var tómstundafulltrúi”

Að brjóta niður múra

Múrbrjóturinn er viðurkenning sem Landsamtökin Þroskahjálp veita árlega þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að fullgildri samfélagsþátttöku, mannréttindum og lífsgæðum þess til jafns við aðra. Á alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3. desember sl. féll Múrbrjóturinn m.a. í skaut Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins og Ruthar Jörgensdóttur Rauterberg, sem starfaði í Þorpinu í 11 ár en er núna aðjúnkt og doktorsnemi við HÍ.

Vettvangur starfsemi Þorpsins er frítími og forvarnir þar sem megin áherslan er lögð á barna- og unglingastarf. Við settum okkur það markmið að vera ávallt opin fyrir nýjungum og breytingum og miða starfsemina út frá þörfum samfélagsins hverju sinni. En mikilvægast er að við viljum mæta þörfum hvers og eins eftir bestu getu. Við viljum gera ráð fyrir margbreytileika mannlífsins og að allir geti fengið hvatningu og stuðning við hæfi í sínu tómstundastarfi. Það eru allir velkomnir í starfið okkar, alltaf.

Starf án aðgreiningar

Haustið 2007 byrjaði félagsmiðstöðin Arnardalur með tómstundastarf fyrir fötluð börn í 5.-10. bekk eftir að skóla lauk á daginn.Við kölluðum það Frístundaklúbb Arnardals. Gaman-saman starf Þorpsins byrjaði svo sem tilraunaverkefni haustið 2009 en það þróaðist út frá tómstundastarfi Frístundaklúbbsins sem var í fyrstu eingöngu ætlað fötluðum börnum en breyttist svo í tómstundastarf fyrir öll börn. Á þeim tíma vorum við búin að átta okkur á því að börnin í Frístundaklúbbnum voru miklar félagsverur sem áttu í góðu sambandi við jafnaldra sína í skólanum og okkur fannst mótsögn í því að verið var að þróa skólastarf án aðgreiningar en í frítíma vorum við að stuðla að aukinni aðgreiningu.

Haustið 2013 framkvæmdi Ruth með stuðningi Þorpsins þátttökurannsókn á Gaman – saman starfinu í Þorpinu þar sem 40 börn á aldrinum 10-12 ára og 6 frístundaleiðbeinendur tóku þátt. Það var megin niðurstaða rannsóknarinnar að þróun starfs fyrir margbreytilega barna- og unglingahópa byggir á samvinnu sem felst í því að allir taki virkan þátt. Við sáum líka að þátttaka í tómstundastarfi eins og Gaman-saman getur undirbúið okkur undir það að takast á við áskoranir í samfélagi fyrir alla. Börn sem við héldum að þyrftu mestu aðstoðina frá okkur fóru að blómstra og voru jafnvel drifkrafturinn í hópnum. Þau komu sjálfum sér á óvart, unnu mikla sigra og var það oft hvatningu jafnaldranna að þakka.

Við viljum skapa menningu sem viðurkennir margbreytileikann og umhverfi þar sem þátttaka allra þykir sjálfsögð. Við viljum líka sína fram á að starf á vettvangi frítímans er kjörið til þes að stuðla að aukinni þátttöku og auknum samskiptum milli fólks. Við upplifðum nefnilega að fjölbreytileikinn í hópnum gat dregið fram það besta í öllum.

Það að vera múrbrjótur er ekki átaksverkefni. Það er lífstíll og það er hugmyndafræði. Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi geta allir tekið þátt í öllu starfi Þorpsins.

Við erum ákaflega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu og hún hvetur okkur til að halda áfram á þessari vegferð og fá aðra með okkur í lið. Það er nefnilega erfitt fyrir einn að brjóta niður múr en verður létt verk þegar allir hjálpast að.

Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála Akraneskaupstað

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, þroskaþjálfi og aðjúkt við HÍ

Ég heiti Hrefna og ég vinn í félagsmiðstöð

HrefnaÉg heiti Hrefna og ég vinn í félagsmiðstöð. Mörgum kann að þykja þetta undarlegt upphaf á faglegri grein en fyrir mér endurspeglar þessi örstutta setning mig sjálfa, hvað ég stend fyrir og hvað ég trúi á.
Ég er stolt af mínu starfi og langar oft á tíðum að segja hverjum sem á vegi mínum verður hversu heppin ég er að fá að kynnast og hafa áhrif á það unga fólk sem ég starfa með hverju sinni. Fyrir mér eru slík tækifæri algjör forréttindi.

Ég veit nefnilega hvað félagsmiðstöðvastarf getur skipt unga fólkið okkar gríðarlega miklu máli því ég er eitt dæmi um unglingsblóm sem fékk tækifæri til að vaxa og dafna í slíku starfi. Fyrir allnokkrum árum stóð ég, ómótaður unglingur frammi fyrir ansi stórri áskorun, að hefja nám í unglingadeild í nýjum skóla. Fyrir sumum er slík breyting ekki mikið stórmál en fyrir mér var þetta stærsta áskorun sem ég hafði glímt við á ævinni og erfið fannst mér hún. Ég átti ansi erfitt með að aðlagast, svo erfitt að ég kaus frekar að snæða nestið mitt í einrúmi og fann hverja afsökunina á fætur annarri til að mæta ekki í skólann. Ég var í feluleik en munurinn á þeim feluleik sem ég var í og þeim sem önnur börn stunda var sá að ég var eini þátttakandinn. Ég faldi mig en enginn virtist leita að mér – eða svo hélt ég. Vandamál mitt var alls ekki vinaleysi, ég átti marga og mjög góða vini en ég upplifði mig samt aleina sem er undarleg tilfinning sem erfitt er að koma í orð.

Dag einn, meðan feluleikurinn stóð sem hæst og afsökunin ,,mér er svo illt í maganum” eða önnur álíka hafði ekki dugað til að sleppa skólanum í það skiptið breyttist allt. Í skólanum var starfrækt félagsmiðstöð sem ég hafði aldrei veitt athygli nema að ég sá að allir ,,vinsælu” krakkarnir voru mikið að sniglast í kringum rýmið sem hýsti félagsmiðstöðina. Fyrir mér virkaði það gífurlega fráhrindandi. Ég upplifði mig ekki sem part af þessum hópi og gerði strax ráð fyrir að þarna ætti ég ekki heima. Þennan fyrrnefnda dag kom hinsvegar upp að mér ókunnug manneskja og gaf sig á tal við mig. Ég furðaði mig á því hvers vegna í ósköpunum hún valdi að tala við mig. Ég hafði ekki frá neinu áhugaverðu að segja. En þessi manneskja virtist hafa áhuga á mér, af öllum sem voru í kringum mig! Spurði mig til nafns, hvernig mér gengi að aðlagast skólanum og við ræddum allt milli himins og jarðar. Að lokum benti hún mér á að hún starfaði í félagsmiðstöðinni og sagði að það starf væri eflaust eitthvað fyrir mig. Ég þakkaði kurteislega fyrir ábendinguna en innst inni hélt ég að þetta væri bara rugl og þvæla. Ég var ekki partur af þessum hópi sem sótti félagsmiðstöðina. Ég var bara ómerkileg Hrefna.

Sama kvöld heyrði ég að vinir mínir ætluðu í félagsmiðstöðina og ákvað að fara með, bara til að prófa og sýna þessari manneskju að hún hefði rangt fyrir sér og þá væri það bara frá. Í stuttu máli má segja að þetta kvöld var upphafið að öllu. Ég mætti í félagsmiðstöðina næsta opnunarkvöld, og opnunarkvöldið þar á eftir og í raun og veru öll kvöld það sem eftir var grunnuskólagöngunnar. Í félagsmiðstöðinni lærði ég svo ótalmargt sem ekki er hægt að kenna í skólastofum eða námsbókum. Ég fékk að prófa mig áfram í hinu og þessu, allt frá því að læra pool upp í að skipuleggja árshátíð skólans. Ég kynntist hliðum á sjálfri mér sem ég hafði ekki kynnst áður og fór frá því að vera í feluleik yfir í að vera í sýnileik ef svo má segja. Veran í félagsmiðstöðinni mótaði mig sem einstakling, fékk mig til að hafa trú á sjálfri mér og opnaði augu mín fyrir öllum þeim tækifærum sem þessi frábæra veröld býður uppá. Þegar ég kláraði grunnskólann kvaddi ég með trega en við tóku fleiri spennandi ár í framhaldsskóla þar sem reynslan mín nýttist svo sannarlega.

Þegar ég lauk framhaldsskólanámi fór ég að huga að framtíðarstarfi eins og fullorðnu fólki sæmir. Ég hafði lengi átt draum um að verða leikkona og sá ekkert annað í stöðunni en að láta þann draum rætast. En eins og gengur og gerist í sumum ævintýrum var grasið í leiklistarheiminum ekki alveg jafn grænt og ég taldi. Dag einn, meðan ég upplifði einhverskonar tilvistarkreppu varð þessi ónefnda manneskja sem starfaði í félagsmiðstöðinni á vegi mínum og þá var eins og það kviknaði ljós í höfðinu á mér. Við áttum gott spjall um lífið og tilveruna og þegar ég sá hvað hún samgladdist mér mikið að hafa afrekað hina og þessa hluti fann ég hina klisjukenndu köllun. Ég ætlaði að starfa í félagsmiðstöð og fá að upplifa nákvæmlega þessa tilfinningu sem manneskjan upplifði. Ég vildi hjálpa öðrum að blómstra eins og ég fékk tækifæri til og vonandi hitta þá einstaklinga síðar á lífsleiðinni og sjá af eigin raun að ég hafði áhrif.

Í dag starfa ég í félagsmiðstöð og upplifi akkúrat þessa tilfinningu hvern einasta dag. Að fá að sjá og hjálpa öðrum að blómstra gerir mig að betri manneskju dag hvern og ég er ekki einu sinni að sykurhúða frásögn mína. Það að slíkar miðstöðvar séu starfræktar er bráðnauðsynlegt fyrir öll ungmennin þarna úti, sama hvort þau eru tíu ára eða tvítug! Það að einstaklingar geti komið, prófað sig áfram í allskonar athöfnum, fengið tækifæri á að gera mistök og læra af þeim án þess að einn né neinn dæmi þá og fái að vera þeir sjálfir er eitt það allra mikilvægasta sem ég veit. Ég er handviss um að margir hverjir sem hafa skarað fram úr í okkar þjóðfélagi eigi jákvæða sögu um félagsmiðstöðvastarf eða frítímastarf almennt og það hafi átt þátt í að koma þeim á þann stað sem þeir eru á í lífinu og einnig þeir sem minna heyrist frá á opinberum vettvangi.

Ég hvet alla, unga sem aldna til þess að kynna sér það frábæra starf sem fram fer í félagsmiðstöðvum víðsvegar um landið, sérstaklega þá sem ekki þora. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því! Að lokum bið ég og vona að félagsmiðstöðvastarf fái að halda sinni frábæru mynd um ókomin ár svo fleiri fái tækifæri til að blómstra!

Saga félagsmiðstöðva – Viðtal við Árna Guðmunds

Félagsmiðstöðvar eru búnar að vera starfandi hér á Íslandi um nokkur skeið en hversu lengi? Hvenær var fyrsta félagsmiðstöðin stofnuð? Af hverju var hún stofnuð? Við hjá Frítímanum ákváðum að leita svara við þessum spurningum og fleirum. Við veltum fyrir okkur hver væri með þessi svör á reiðum höndum. Hver annar en Árni Guðmundsson, höfundur bókarinnar Saga félagsmiðstöðva og kennari við Háskóla Íslanda. Frítíminn fór á stúfana og hitti fyrir hann Árna Guðmundsson á skrifstofunni hans í Bolholtinu.
Frítíminn ákvað nú á dögunum að prufa í bland nýjar leiðir við miðlun á efni hér á síðunni og tókum því upp viðtal við Árna þar sem saga félagsmiðstöðva er rakin.