Ég heiti Hrefna og ég vinn í félagsmiðstöð

HrefnaÉg heiti Hrefna og ég vinn í félagsmiðstöð. Mörgum kann að þykja þetta undarlegt upphaf á faglegri grein en fyrir mér endurspeglar þessi örstutta setning mig sjálfa, hvað ég stend fyrir og hvað ég trúi á.
Ég er stolt af mínu starfi og langar oft á tíðum að segja hverjum sem á vegi mínum verður hversu heppin ég er að fá að kynnast og hafa áhrif á það unga fólk sem ég starfa með hverju sinni. Fyrir mér eru slík tækifæri algjör forréttindi.

Ég veit nefnilega hvað félagsmiðstöðvastarf getur skipt unga fólkið okkar gríðarlega miklu máli því ég er eitt dæmi um unglingsblóm sem fékk tækifæri til að vaxa og dafna í slíku starfi. Fyrir allnokkrum árum stóð ég, ómótaður unglingur frammi fyrir ansi stórri áskorun, að hefja nám í unglingadeild í nýjum skóla. Fyrir sumum er slík breyting ekki mikið stórmál en fyrir mér var þetta stærsta áskorun sem ég hafði glímt við á ævinni og erfið fannst mér hún. Ég átti ansi erfitt með að aðlagast, svo erfitt að ég kaus frekar að snæða nestið mitt í einrúmi og fann hverja afsökunina á fætur annarri til að mæta ekki í skólann. Ég var í feluleik en munurinn á þeim feluleik sem ég var í og þeim sem önnur börn stunda var sá að ég var eini þátttakandinn. Ég faldi mig en enginn virtist leita að mér – eða svo hélt ég. Vandamál mitt var alls ekki vinaleysi, ég átti marga og mjög góða vini en ég upplifði mig samt aleina sem er undarleg tilfinning sem erfitt er að koma í orð.

Dag einn, meðan feluleikurinn stóð sem hæst og afsökunin ,,mér er svo illt í maganum” eða önnur álíka hafði ekki dugað til að sleppa skólanum í það skiptið breyttist allt. Í skólanum var starfrækt félagsmiðstöð sem ég hafði aldrei veitt athygli nema að ég sá að allir ,,vinsælu” krakkarnir voru mikið að sniglast í kringum rýmið sem hýsti félagsmiðstöðina. Fyrir mér virkaði það gífurlega fráhrindandi. Ég upplifði mig ekki sem part af þessum hópi og gerði strax ráð fyrir að þarna ætti ég ekki heima. Þennan fyrrnefnda dag kom hinsvegar upp að mér ókunnug manneskja og gaf sig á tal við mig. Ég furðaði mig á því hvers vegna í ósköpunum hún valdi að tala við mig. Ég hafði ekki frá neinu áhugaverðu að segja. En þessi manneskja virtist hafa áhuga á mér, af öllum sem voru í kringum mig! Spurði mig til nafns, hvernig mér gengi að aðlagast skólanum og við ræddum allt milli himins og jarðar. Að lokum benti hún mér á að hún starfaði í félagsmiðstöðinni og sagði að það starf væri eflaust eitthvað fyrir mig. Ég þakkaði kurteislega fyrir ábendinguna en innst inni hélt ég að þetta væri bara rugl og þvæla. Ég var ekki partur af þessum hópi sem sótti félagsmiðstöðina. Ég var bara ómerkileg Hrefna.

Sama kvöld heyrði ég að vinir mínir ætluðu í félagsmiðstöðina og ákvað að fara með, bara til að prófa og sýna þessari manneskju að hún hefði rangt fyrir sér og þá væri það bara frá. Í stuttu máli má segja að þetta kvöld var upphafið að öllu. Ég mætti í félagsmiðstöðina næsta opnunarkvöld, og opnunarkvöldið þar á eftir og í raun og veru öll kvöld það sem eftir var grunnuskólagöngunnar. Í félagsmiðstöðinni lærði ég svo ótalmargt sem ekki er hægt að kenna í skólastofum eða námsbókum. Ég fékk að prófa mig áfram í hinu og þessu, allt frá því að læra pool upp í að skipuleggja árshátíð skólans. Ég kynntist hliðum á sjálfri mér sem ég hafði ekki kynnst áður og fór frá því að vera í feluleik yfir í að vera í sýnileik ef svo má segja. Veran í félagsmiðstöðinni mótaði mig sem einstakling, fékk mig til að hafa trú á sjálfri mér og opnaði augu mín fyrir öllum þeim tækifærum sem þessi frábæra veröld býður uppá. Þegar ég kláraði grunnskólann kvaddi ég með trega en við tóku fleiri spennandi ár í framhaldsskóla þar sem reynslan mín nýttist svo sannarlega.

Þegar ég lauk framhaldsskólanámi fór ég að huga að framtíðarstarfi eins og fullorðnu fólki sæmir. Ég hafði lengi átt draum um að verða leikkona og sá ekkert annað í stöðunni en að láta þann draum rætast. En eins og gengur og gerist í sumum ævintýrum var grasið í leiklistarheiminum ekki alveg jafn grænt og ég taldi. Dag einn, meðan ég upplifði einhverskonar tilvistarkreppu varð þessi ónefnda manneskja sem starfaði í félagsmiðstöðinni á vegi mínum og þá var eins og það kviknaði ljós í höfðinu á mér. Við áttum gott spjall um lífið og tilveruna og þegar ég sá hvað hún samgladdist mér mikið að hafa afrekað hina og þessa hluti fann ég hina klisjukenndu köllun. Ég ætlaði að starfa í félagsmiðstöð og fá að upplifa nákvæmlega þessa tilfinningu sem manneskjan upplifði. Ég vildi hjálpa öðrum að blómstra eins og ég fékk tækifæri til og vonandi hitta þá einstaklinga síðar á lífsleiðinni og sjá af eigin raun að ég hafði áhrif.

Í dag starfa ég í félagsmiðstöð og upplifi akkúrat þessa tilfinningu hvern einasta dag. Að fá að sjá og hjálpa öðrum að blómstra gerir mig að betri manneskju dag hvern og ég er ekki einu sinni að sykurhúða frásögn mína. Það að slíkar miðstöðvar séu starfræktar er bráðnauðsynlegt fyrir öll ungmennin þarna úti, sama hvort þau eru tíu ára eða tvítug! Það að einstaklingar geti komið, prófað sig áfram í allskonar athöfnum, fengið tækifæri á að gera mistök og læra af þeim án þess að einn né neinn dæmi þá og fái að vera þeir sjálfir er eitt það allra mikilvægasta sem ég veit. Ég er handviss um að margir hverjir sem hafa skarað fram úr í okkar þjóðfélagi eigi jákvæða sögu um félagsmiðstöðvastarf eða frítímastarf almennt og það hafi átt þátt í að koma þeim á þann stað sem þeir eru á í lífinu og einnig þeir sem minna heyrist frá á opinberum vettvangi.

Ég hvet alla, unga sem aldna til þess að kynna sér það frábæra starf sem fram fer í félagsmiðstöðvum víðsvegar um landið, sérstaklega þá sem ekki þora. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því! Að lokum bið ég og vona að félagsmiðstöðvastarf fái að halda sinni frábæru mynd um ókomin ár svo fleiri fái tækifæri til að blómstra!