Þegar tómstundastarf í félagsmiðstöðvum er metið koma fjöldatölur oftar en ekki við sögu. Starfsmenn í hverri félagsmiðstöð í Reykjavíkurborg þurfa að halda utan um fjölda þeirra ungmenna sem sækja starfið hverju sinni. Þátttakendur þurfa oftar en ekki sjálfir að muna eftir því að skrá að þeir hafi mætt og tekið þátt í starfinu. Tölunum er svo safnað saman fyrir hvert tímabil og þær skoðaðar. Ég tel eðlilegt upp að vissu marki að notast við fjöldatölur til að stjórnendur hafi yfirsýn á hve mikið hlutfall nemenda taki þátt í og nýti sér starfið sem er skipulagt og á sér stað í félagmiðstöðum en ég tel þetta kerfi þó ekki gallalaust.
Þegar farið er yfir fjöldatölur er til dæmis skoðað hve margir í hverjum árgangi sækja starfið, í hvaða bekk þeir eru og oftar en ekki er hópnum skipt upp í tvo hópa eftir kynjunum tveimur, strákar og stelpur. En eru kynin í alvöru bara tvö? Það verður að teljast eðlilegt að skoða mun milli ára og bekkja en í nútíma samfélagi þykir mér athugavert að tala um kynin tvö þar sem þróunin er í þá átt að kynin séu fleiri en karlkyn og kvenkyn. Þarna tel ég vera pláss fyrir úrbætur á úrvinnslu gagna, sama hvort það væri að bæta við kynjaflokkum í þær skráningar sem eiga sér stað eða að sleppa því að flokka ungmenni eftir kynjum, því þegar öllu er á botninn hvolft gæti verið að þátttaka hafi ekkert með kyn að gera þegar starf og gæði eru metin.
Annað sem ég hef velt mikið fyrir mér frá því að ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð og hóf nám í tómstuna- og félagsmálafræði er hvaða aðrar leiðir eru notaðar eða væri hægt að nota til að meta gæði í starfi og hvort það sé yfirhöfuð notast við aðra mælikvarða en fjöldatölur. Tölfræðin er vissulega þægileg og markviss leið sem krefst ekki of margra spurninga til þátttakenda um það til dæmis hvers vegna þau mæta, hvað þátttakendur fá út úr starfinu og hvort að þau telji líklegt að þau muni halda áfram að taka þátt.
Það sem fer fram í því fjölbreytta starfi sem á sér stað innan félagsmiðstöðva er að sjálfsögðu misvel skipulagt og því gæti verið misjafnt hver ávinningurinn er. Það er mín reynsla að leiðbeinendur séu að gera sitt allra besta og gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem felst í starfinu. Það er því mikilvægt að fylgjast með starfinu, meta það reglulega og gefa leiðbeinendum endurgjöf í starfi sínu en eins og við vitum getur starfið haft mikil áhrif á þroska og mótun ungmenna. Með því að bjóða uppá fjölbreytt og uppbyggjandi starf sem hentar mismunandi hópum ungmenna aukum við líkur á að skila af okkur flottum einstaklingum út í samfélagið og geta fylgst stolt með þeim halda áfram að þroskast og mótast og verða að fullorðnum einstaklingum.
Það er vissulega mikilvægt að meta gæði starfsins en eru fjöldatölur alltaf besta leiðin?
—
Áslaug Ýr Þórsdóttir