Í gegnum tíðina hef ég oft heyrt þessa setningu ,,það er ekkert að gera á þessum stað“ og eflaust eru margir aðrir sem koma frá litlum þorpum og bæjum utan af landsbyggðinni sem hafa heyrt þetta líka. Oftar en ekki þá má heyra unglingana segja þessi orð og ástæðan sú að þeim finnst lítið sem ekkert tómstundastarf vera í boði fyrir þá í sínum bæ. Vissulega er þetta rétt að mörgu leyti, það er kannski bara ein íþrótt sem hægt er að æfa, lítið úrval í hljóðfærakennslu, og félagsmiðstöðin bara opin eitt kvöld í vikunni. Það er mikill munur á framboði og eftirspurn á tómstundum fyrir unglinga eftir búsetu. Á stærri stöðum er mikið í boði og margir iðkendur, en á litlu stöðunum snýst málið um að fá sem flesta til að taka þátt til þess að tómstundirnar geti verið í boði. Þar skiptir hver einstaklingur svo miklu máli og ekki er endilega farið eftir kyni eða aldri þátttakenda. Oft þurfa bæði börn og unglingar einnig að sækja sínar tómstundir um langan veg og getur það verið ansi kostnaðarsamt.
En hvað geta þá sveitarfélög gert til að koma til móts við unglingana sína? Í þessari umræðu gleymist oft að horfa á heildarmyndina og að samfélagið spyrji sig, hvernig getum við hjálpast að við að bæta það sem betur má fara og hvernig má nýta það sem við höfum?
Það leikur enginn vafi á því að skipulagt tómstundastarf í formi íþrótta, tónlistarnáms eða annars konar félagsstarfs hefur jákvæð áhrif í lífi unglinga. Unglingar sem taka þátt í slíku starfi líður alla jafna betur en öðrum unglingum, þeir eru líklegri til að sýna góðan námsárangur og ólíklegri til að nota vímuefni. Nú þegar ekki er hægt að bjóða upp á margar íþróttagreinar eða kenna á öll hljóðfæri, hvernig væri þá að efla félagsmiðstöðvarstarf? Það virðist oft sem fólk átti sig ekki á því hversu mikilvægt félagsmiðstöðvarstarf er fyrir unglinga. Þangað mæta unglingar til að hitta aðra, gera eitthvað skemmtilegt, slaka á og spjalla. Góð og fjölbreytt dagskrá ætti að vera á boðstólnum svo að unglingarnir fái tækifæri til að kynnast ólíkum viðfangsefnum. Þá er mikilvægt að virkja unglinga til ákvörðunartöku og treysta þeim til ábyrgðastarfa. Félagsmiðstöðvar skipta máli fyrir unglinga, þangað mæta þeir af fúsum og frjálsum vilja og fá tækifæri til að efla og styrkja sig sem einstaklinga. Bara það að styrkja félagsmiðstöðvarstarfið í litla þorpinu verður strax stór ávinningur fyrir bæði unglingana og samfélagið í heild. Erfiðara er með íþróttir og aðrar tómstundir, og því þurfa börn og unglingar eins og áður sagði að sækja þær í næsta bæ. Þess vegna getur styrkur frá sveitafélaginu skipt sköpum þegar kemur að þessu máli.
Mörg sveitarfélög hafa gripið til þess ráðs að veita fjárhagsstuðning til þess að börn og unglingar geti stundað sínar tómstundir. Þá hefur einnig verið gert mikið átak í að lækka fargjöld fyrir börn og unglinga til að geta komist í tómstundirnar. Ég kem frá litlum stað út á landi og veit því hversu miklu máli skiptir fyrir fjölskyldur að fá styrki af þessu tagi. Með þessu geta börn og unglingar úr litlu þorpunum aukið möguleika sína til að stunda fjölbreyttar tómstundir. Ég er þess fullviss að með því að styrkja börn og unglinga til að stunda tómstundir þá skili það sér í sterkari einstaklingum út í lífið.
—
Sigurgeir Garðarsson