Þar sem ég vinn í félagsmiðstöð er ég í kringum unglinga alla virka daga. Það gerist ör sjaldan að ég sjái þau ekki í símanum, haldandi á símanum eða að skoða hvað eintaklingurinn við hliðina á þeim er að gera í símanum. Unglingarnir líta oft varla upp úr símanum þegar reynt er að tala við þau og skortir alla athygli á því hvað er að gerast í kringum þau þegar síminn er á lofti. Er þetta orðið áhyggjuefni hvað unglingar eru mikið í símanum? Þarf að bregðast við þessu eða er þetta það sem koma skal? Eru unglingar verri í mannlegum samskiptum útaf símanotkun? Allt eru þetta spurningar sem vakna þegar ég hugsa út í þessa síma/skjánotkun unglinga. Því að ekki fyrir svo löngu síðan voru símar aðeins notaðir í það að hringja og senda sms. Núna getur fólk gert nánast allt með þessu litla tæki og meira segja spjallað við tækið og fengið svör til baka. Hvernig ætli þessi snjalltæki verði orðin eftir nokkur ár?
Unglingar nú til dags eru mjög oft með hendina fasta við símann enda mikið um mjög flott tæki að ræða, enda mikil þróun í snjallsímum nú til dags. Afi minn kom með frábært orð yfir skjákynslóðina og var það orðið strokufangar. Hann vill meina að við séum fangar símans og gerum ekki annað en að strjúka hann með fingrunum. Það er mikið til í þessu þar sem að unglingar og ungmenni eru rosalega háð símanum sínum. Það er alltaf eitthvað að gerast í honum og fólk passar sig að það ætlar sko alls ekki að missa af neinu og að fólk missi ekki af neinu sem það er að gera. Ég held að mikil þörf sé hjá unglingum að láta vita hvað þau eru að gera og þar kemur instagram og snapchat sterkt inn, þar sem að þau geta sýnt öllum hvað er að gerast í þeirra lífi. Oftast eru þetta miklar glansmyndir en engu að síður eru unglingar uppteknir að þessu og vilja sýna sig. En þetta er ekki bara unga fólkið, hvert sem maður fer sér maður fólk í símanum á nánast öllum aldri og mikið er nú til að þessum snapchat og instagram stjörnum sem að unglingarnir líta upp til.
Börn/unglingar alast flest öll upp í umhverfi þar sem mikið er um tæki og nýja tækni. Fyrsta sem gert er á morgnana er að fara í símann og það síðasta á kvöldin áður en fólk fer að sofa. Margir foreldrar eru örugglega að velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum þeir geti haft einhverja stjórn á skjánotkun barna sinna en fátt er um svör. En sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og þurfa foreldrar að athuga fyrst sína hegðun. Ef þau eru mikið í símanum eða tölvunni smitar það út frá sér og líklegra er að unglingurinn taki þá líka upp símann. Ég tel að það ætti að vera góð regla á öllum heimilum að við matarborðið eru símar bannaðir. Við matarborðið er góður tími til að ræða daginn og það helsta sem er að gerast í lífi þeirra sem sitja við matarborðið. Erfitt er að taka símann alltaf af unglingnum en með ákveðinni reglu og rútínu er ekkert mál að koma þessu af stað.
Komið hafa upp viðmið á því hvað er eðlileg skjánotkun og er talað um 180 mínútur á dag fyrir unglinga í 8. – 10. bekk, það gera 5400 mínútur á mánuði og 65.700 mínútur á ári. Inni í þessum skjátíma er verið að tala um farsíma, tölvur og sjónvarpið. En ég held að unglingar séu talsvert meira í símanum en þessi tími segir til um enda er þetta bara viðmið. Það væri fróðlegt að gera rannsókn á því hvort að unglingar taki alltaf símann sinn með sér þegar þau fara að heiman, hvað þau geri ef þau gleyma honum og hversu mikið þau eru í símanum dags daglega. Nú er komið forrit í flest alla snjallsíma sem tekur tímann á því hvað þú ert lengi í símanum á dag, í hvaða forritum þú ert og hvað meðal símatími er á viku. Ég vona að það veki upp hug hjá unglingum og að þeir átti sig á því hvað þessi litlu tæki eru miklir tímaþjófar því engin getur breytt þessu nema maður sjálfur en það getur hjálpað að skólar taki sig til og hafi fræðslu um áhrif og afleiðingar of mikillar síma- og skjánotkunar.
Með bestu kveðju,
Andrea Ósk Þorkelsdóttir strokufangi