Free the nipple, þöggun, konur tala, me too og hvað svo?

Feminískar netbyltingar hafa verið sýnilegar síðustu ár og íslenskir unglingar verða varir við þessar byltingar, jafnvel meir en við fullorðna fólkið þar sem flest eyða þau meiri tíma en við á bak við skjáinn. Allar snúa þessar byltingar að sjálfræði kvenna yfir eigin líkama og það að skila skömminni. En hver eru næstu skref? Hvað getum við gert til þess að fyrirbyggja þörfina á byltingum sem þessum eftir nokkur ár?

Opinská umræða um kynlíf, kynheilbrigði, klám, kynverund og kynhneigð er eitthvað sem ég tel geta komið í veg fyrir áhættuhegðun í kynlífi og ranghugmyndir um líkama kvenna. Það er ekki hægt að horfa á kynlífshegðun sem eitthvað sem lærist með því einu að prufa sig blint
áfram. Stórt hlutfall þeirra sem sækja þjónustu Stígamóta eru ungt fólk, þá aðallega ungar konur, sem hafa verið í ofbeldissambandi á unglingsaldri þar sem þau töldu ofbeldið vera eðlilegt. Þar á meðal vegna upplýsingaskorts um heilbrigð sambönd. Þetta varð kveikjan að verkefninu Sjúk Ást, eins og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra Stígamóta, nefnir í viðtali við mbl.is (2018). Afleiðingar ofbeldis sem þessa hefur langvarandi og gríðarlega alvarleg áhrif sem við getum ekki hunsað. Samþykki er mikilvæg umræða sem hefur verið sýnileg í umræðunni, en kynlíf er miklu meir en bara það. Umræðan um mörk, hvað þú fílar, hvað þú fílar ekki, kynhneigð, sjálfsfróun, sleipiefni og allt sem viðkemur kynlífi má ekki gleyma. Almenn orðræða um kynlífshegðun er það sem við þurfum að koma upp á yfirborðið og með því getum við komið í veg fyrir samskiptalaust kynlíf og áhættuhegðun unglinga í kynlífi.

Kynfræðsla í skólum er mismikil milli skóla og þegar áhrif skorts á upplýsingum um þetta málefni geta endað í ofbeldi er mikilvægt fyrir okkur öll að leggja í púkk. Það er okkar samfélagslega ábyrgð að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi og við gerum það fyrst og fremst með samtalinu. Hvort sem þú, kæri lesandi, ert félagsmiðstöðvastarfsmaður, kennari, foreldri, systkini, frændsystkini eða hvað sem er þá getum við öll gert okkar besta að færa samtalið um kynlíf og kynverund upp á yfirborðið. Sigga Dögg er bara ein manneskja, hún getur ekki séð um öll ungmenni landsins, þó hún gerir það þó meistaralega. Ég veit vel að það getur verið vandræðalegt og óþægilegt en orðatiltækið æfingin skapar meistarann á vel við í þessu tilviki. Það er hægt að æfa sig við maka, nánustu vini og fjölskyldu, því um leið og þú kemur umræðunni á yfirborðið við nánustu getur það reynst léttara að taka upp umræðuefnið á vettvangi. Það eru einnig til mikið af hjálpartækjum sem við getum stuðst við, t.d. heimasíðan www.sjukast.is. Einnig er hægt að fá sérfræðinga á vettvang til þess að byrja á því að opna umræðuna og þú sem starfsmaður, foreldri, vinur o.s.frv. heldur umræðunni opinni eftir heimsóknina.

Sem starfsmaður í félagsmiðstöð og Jafningjafræðslu Hafnarfjarðar hef ég upplifað það að ungmennin eru að kalla eftir frekari upplýsingum. Þeim finnst þau ekki fá fullnægjandi fræðslu í skólanum eða heimafrá. Félagsmiðstöðvar eru frábær vettvangur til að opna umræðuna en aftur á móti megum við ekki gleyma okkar samfélagslegu ábyrgð sem einstaklingar að vinna að ofbeldislausu samfélagi. Að ræða við ungmennin okkar um kynlíf styrkir kynverund þeirra og undirbýr þau fyrir heilbrigt kynlíf á eigin forsendum þegar þau eru tilbúin til þess.

Elín Lára Baldursdóttir