Hvað eru tómstundir? Margar fræðilegar skilgreiningar eru til á hugtakinu og enn fleiri í hugum einstaklinga sem allir leggja sína merkingu í orðið. Tími utan vinnu eða skóla? Allur frítími? Hvað ef vinnan er áhugamálið mitt? Er vinnan þá tómstund? Eða er tómstund allur óskipulagður tími, utan æfinga, funda, vinnu, skóla og annars? Er salsakvöld annan hvern þriðjudag tómstund? En ef ég fæ mér vínglas? Er vín tómstund? Eða fíkniefni? Ef ég neyti áfengis eða fíkniefna í frítíma mínum er það þá tómstund? Hvað með aðrar athafnir, hraðakstur, búðarhnupl, morð?
Spurningin er flókin og svarið flóknara. Hver og einn getur skilgreint fyrir sig hvað hugtakið tómstund felur í sér. Til skýringar (og svo að þessi pistill verði á vitsmunalegum nótum) ætla ég þó að gera ráð fyrir nokkrum hlutum. Tómstundir mega ekki skaða aðra eða þann sem stundar þær. Þá er strax búið að útiloka morð. Góð byrjun. Einnig eru tómstundir stundaðar utan skyldubundinna starfa, til dæmis skóla eða vinnu. En hvers vegna er svo erfitt að skilgreina tómstundir?
Flest eigum við auðvelt með að skilgreina aðra tíma dagsins, vinna er (í grunninn) til að fá laun, skóli er til þess að læra, svefn er til þess að hvílast, matur er til þess að borða. Tómstundir eru sér á báti því við lærum ekki um þær. Unglingar ganga flestir í skóla, sumir læra á hljóðfæri, æfa íþróttir eða einbeita sér að félagsstörfum eða heimalærdómi. En hvar eru skilin á milli skyldu og frjáls tíma? Fjórtán ára unglingur æfir fótbolta fimm sinnum í viku af því að hann elskar fótbolta. Það er tómstund, er það ekki? Hvað með vin hans sem æfir líka, finnst það hundleiðinlegt en æfir samt af því að allir hinir í bekknum eru að æfa? Eða þann sem er bestur í liðinu og ætlar að verða atvinnumaður? Fyrir honum er tómstundin orðin líkari vinnu. Hvernig getum við lært að bera kennsl á hvað er tómstund og hvað er kvöð eða skylda? Svarið er lífsleikni.
Í aðalnámskrá grunnskóla segir: Námsgreinar eins og lífsleikni og þjóðfélagsfræði gegna einnig mikilvægu hlutverki við að styrkja á skapandi hátt áræði, frumkvæði, hlutverk, ábyrgð og sjálfsmynd nemenda þegar þeir standa frammi fyrir stórum spurningum sem varða reynsluheim, hugarheim og félagsheim þeirra.
Með skipulagðri og faglegri lífsleiknikennslu væri til dæmis hægt að kenna börnum og unglingum að meta sínar eigin tómstundir og sinn eigin frítíma. Að geta komið auga á streituvaldandi þætti og algengar hugsanagildrur sem tengjast tómstundum og frítíma er lykill að bættu lífi og betri sjálfsvitund. Væri ekki hægt að nýta lífsleiknikennslu betur? Getur einhver hér með góðu móti sagt hvað gerist í lífsleiknitíma? Öll fáum við skýra mynd í hugann þegar minnst er á stærðfræði, íslensku, ensku eða sögu. Af hverju ekki lífsleikni? Lífsleikni er olnbogabarn menntakerfisins. Enginn veit almennilega hvað á að gera við það svo það er sett út í horn og látið sjá um verkefnin sem eiga hvergi annarsstaðar heima.
Tómstundir eru mikilvægar, það er engin spurning um það. Rannsóknir sýna að iðkun skipulagðra tómstunda eykur vellíðan og ánægju, hefur jákvæð áhrif á geðheilsu, styrkir félagstengsl og dregur úr streitu. Aftur á móti getur „of mikið“ af skipulagðri tómstundaiðkun haft neikvæð áhrif. Því er mikilvægt að hver og einn geti metið fyrir sig hvaða tómstundir eru jákvæðar og uppbyggjandi og hverjar eru streituvaldar og ekki endilega stundaðar á réttum forsendum.
—
Bjarni Dagur Karlsson