Árið 2018 er ný gengið í garð og hafa nú þegar sex einstaklingar látið lífið af völdum fíkniefnaneyslu, sex einstaklingum of mikið. Einstaklingarnir eru með misjafnan bakgrunn og eru á öllum aldri sem skilja eftir sig börn, foreldra, maka og aðra ættingja og vini í miklum sárum. Að sjá á eftir ástvini sem fer þessa leið er hræðilegt. Hver einn og einasti aðstandandi hugsar með sér hvað hefði ég getað gert betur? Hvað klikkaði? Fyrst kemur reiðin, síðar sorgin og svo söknuðurinn.
Það er engin leið til að svara þeirri spurningu af hverju unglingar og ungmenni leiðast út í það að neyta fíkniefna. Það eru ekki einungis unglingar eða ungmenni sem koma af brotnum heimilum sem leiðast út í fíkniefnaneyslu og ekki endilega allt unglingar eða ungmenni sem byrjuðu snemma að drekka. Það ætlar sér enginn að verða háður fíkniefnum. Það ætlar sér enginn að deyja frá fjölskyldu sinni langt fyrir aldur fram. En með því að byrja snemma að drekka eða fikta við að reykja hass aukast líkurnar til frekari og sterkari fíkniefnanotkunar til muna.
Staðan er þannig á Íslandi að fíkniefnaneysla er að færast í aukana og neyðarvistun fyrir unglinga og ungmenni á meðferðarheimilum hefur fjölgað gríðarlega. Á Stuðlum er meðferðarheimilið oft og títt yfirfullt. Þar eru unglingar vistaðir á meðan meðferðarúrræði eru ákveðin. Ástæðan fyrir tíðari tilvikum þar sem ungir einstaklingar hefja neyslu á fíkniefnum er að aðgengið er orðið gríðarlega auðvelt og eru unglingar og ungmenni stærsti markhópur fíkniefnasala. Margir unglingar eru undir þrýstingi frá jafnöldrum eða eldri félögum að drekka áfengi, neyta tóbaks eða fikta við ólögleg efni. Ómótaðir og óöryggir einstaklingar eiga erfitt með að þola ágengni hópþrýstings og eru auðveld bráð fíkniefnasala.
Hvað er til ráða? Hvað getum við gert til að draga úr vímuefnaneyslu unglinga og ungmenna? Við þurfum betra og hnitmiðaðra forvarnastarf og við þurfum að grípa fyrr inn í. Stjórnvöld verða að leggja meira til þessara mála. Það að verið sé að loka meðferðarstofnunum SÁÁ á Akureyri er eitthvað sem við eigum ekki að vera að gera, við eigum að vera að fjölga þeim og auka meðferðarúrræði fyrir ungt fólk í vanda. Fræða þarf börn og unglinga um skaðsemi fíkniefna og leggja aukna áherslu á fræðslu. Ég myndi persónulega leggja til að forvarnarstarf um þessi mál komi frá einstaklingum sem hafa unnið sig út úr erfiðum áfengis- og fíkniefnavanda, foreldrum eða nátengdum aðilum sem misst hafa ástvin úr ofneyslu. Ég er ekki að leggja til hræðsluáróður heldur eitthvað sem myndi skilja meira eftir hjá börnum og unglingum. Það skilar ekki miklu að segja bara ekki byrja að drekka þá deyrðu úr of stórum skammti fíkniefna, það verður að vera eitthvað meira á bakvið.
Það er ekki nóg að fræðslan eigi sér stað einungis inn í skólastofu heldur þurfa foreldrar líka að tala um þessi málefni við börnin sín. Til dæmis væri forvarnarstarf í félagsmiðstöðvum góð leið því þar eru starfsmenn oft miklar fyrirmyndir fyrir unglingana sem þangað sækja. Fræðumst og tölum saman á jafningjagrundvelli um skaðsemi unglingadrykkju og fíkniefnaneyslu. Deilum sögum, góðum og slæmum. Hjálpumst að við að koma æskunni til manns á heilbrigðan hátt.
Tilgangur þessarar greinar er að opna umræðuna um fíkniefnaneyslu meðal unglinga og ungmenna. Þetta er ekki feimnismál. Verum öðrum víti til varnaðar.
——
Margrét Ýr Björnsdóttir nemi í tómstunda-og félagsmálafræði