Eftirfylgni fósturbarna á Íslandi mikilvæg?

Það fer ekkert á milli mála að fósturbörnum fer fjölgandi hér á landi sem er frábær þróun að vissu leiti þar sem að það eru ansi mörg börn og unglingar sem að þurfa á því að halda. En vandamálið sem hefur fylgt því er viðhorf annarra barna til þeirra sem eru í fóstri og eftirfylgni þeirra frá barnarvernd er heldur lítil. Það hefur lengi verið litið á fósturheimili sem einskonar athvarf fyrir vandræða unglinga en algengasta orsök þess að börn eru send á fósturheimili er vegna erfiðra aðstæðna á heimili þeirra. Það er alls ekki óalgengt að sú sé staðan en oftast liggur vandamálið á heimili þeirra.

Samkvæmt grein Áslaugar B. Guttormsdóttur og Guðrúnar Kristinsdóttur þar sem þær skoða reynslu 14-16 ára unglinga sem voru sendir í fóstur er það augljós staðreynd að allir þurfi að fá góða fræðslu um fósturbörn og þeirra heimili áður en einn slíkur kemur inn í bekkinn. Það er mikilvægt að fósturbarni geti liðið vel í nýju umhverfi sínu. Það þarf því ekki bara að huga að börnunum sem að fara í fóstrið heldur einnig þeim sem að umgangast fósturbarnið því þau geta oftar en ekki verið brothætt að svo mörgu leiti. Í greininni er tekið fram að flest barnanna sem þær fylgdust með voru alla að skipta um skóla upp í 26 sinnum á meðan að rannsókn þeirra stóð yfir og getur það einnig haft mikil áhrif á börn í þeim aðstæðum.

Hér kemur reynslusaga ungrar konu sem var send á fósturheimili sem unglingur og fékk verulega lélegt viðmót frá vinum og svo gott sem enga eftirfylgni frá barnarvernd í kjölfarið.

„Foreldrar mínir beittu mig líkamlegu og andlegu ofbeldi frá því að ég man eftir mér. Ég barðist í fjögur ár við kerfið til þess eins að fá einhvern til að tala við og fá einhverja hjálp en það virtist engin trúa hversu slæmt þetta var heima hjá mér. Loksins þegar ég var að klára grunnskólann fékk ég það í gegn að vera send í sveit á fósturheimili. Mér þótti það bæði spennandi og óyfirstíganlegt en það var allt betra en að vera á þessu heimili sem ég þurfti að þola allt mitt líf. Þegar ég kom á staðinn leið mér strax betur, ég fékk útivistartíma, strangar en sanngjarnar reglur en að sama skapi mikla umhyggju og þarna fannst mér ég vera komin til að vera. Í skólanum fékk ég hinsvegar orðsporið „vandræða unglingur“ og lenti fyrir miklu einelti og fór því eftir smá tíma að líða hrikalega illa. Þarna fékk ég ekki mikla hjálp frá barnarvernd til að yfirstíga þetta og ég sé það í dag að auðvitað átti að bjóða mér sálfræði aðstoð eftir allt sem ég hafði þurft að þola í gegnum ævina. Ég byrjaði að drekka þetta árið því þar sem að allir í kringum mig trúðu því að ég væri vandræða unglingur þá fór ég að trúa því sjálf. Ég fór í uppreisn gegn fósturfjölskyldunni minni og fékk með einu símtali að vera send aftur heim.“

Hversu sorglegt er þetta? Er þetta raunveruleikinn í dag? Það þarf mun meira að halda utan um fósturbörn og þeirra umhverfi lengi eftir að þau eru send í nýtt umhverfi. Eftirfylgnin þyrfti að vera þess efnis að veita þeim sálfræðiaðstoð og hafa reglulega samband við bæði fósturbarnið eða foreldrana til að vita nákvæma stöðu einstaklingsins. Einnig getur það hjálpað að vera í nánu samstarfi með kennurum skólans sem barnið þarf að ganga í vegna flutninganna.  Þetta hefur áhrif á líf þeirra til enda og því er best fyrir alla að bregðast rétt við á réttum tíma.

—–

Unnur Edda Björnsdóttir