Fyrir nokkrum árum var ég sem skátaforingi að leita að verkefnum til að gera með skátunum. Þemað í verkefninu var réttindi barna svo ég skoðaði vefsíðu umboðsmanns barna í leit að einhverjum skemmtilegum upplýsingum. Ég tók eftir að á síðunni er dálkur sem er tileinkaður börnum og unglingum og þar inni er sérstök spurt og svarað síða. Þegar ég renndi yfir spurningarnar sá ég spurningu frá 14 ára stúlku. ,,Hvað á maður að gera ef allur bekkurinn finnst að það sé of mikill lærdómur í skólanum og eftir skóla þarf maður að læra meira og maður vill minna heimanám”? Ég hneykslaðist yfir þessarri spurningu því stelpan var í grunnskóla og þar var sko ekkert heimanám miðað við menntaskóla. Ég hugsaði: „Bíddu bara þar til þú kemur í menntaskóla, þar er nefnilega svo miklu meira heimanám úr miklu þyngra efni“.
Ég man hvað ég barðist við að klára allt heimanámið í fyrsta bekk í menntaskólanum. Þá æfði ég handbolta, var skátaforingi, stundaði mitt eigið skátastarf, hélt sambandi við gömlu vinina, reyndi að eignast nýja vini og að setjast við matarborðið til að borða kvöldmat með fjölskyldunni minni. Ég náði þessu ekki alltaf, oft komu stundir þar sem ég þurfti að velja og hafna hvað ég vildi mest gera. Þegar ég fékk vinnu einu sinni í viku og aðra hverja helgi þá flæktist aðeins fyrir mér að velja á milli þegar ég þurfti þess.
Ég man eftir mér sem unglingi að taka með mér heimanámið í útilegur með það í huga að ná að lesa einn eða tvo kafla þegar það kom frítími í dagskránni. Taka námsbókina með í rútuna á leið á handboltaleik. Ég geri þetta enn, tek með mér námsbók til að lesa þegar krakkarnir eru sofnaðir í útilegunum. Við skátaforingjarnir erum allar í skóla og ræðum saman hvaða námsefni við nauðsynlega þurfum að lesa fyrir komandi viku, í von um að með því að deila því með hvor annarri þá aukum við líkurnar á að við náum að opna bókina. Síðan fylgir þessu alltaf samviskubit yfir því að ná ekki að klára allt, last bara hálfan kafla ef þú gast eitthvað lesið yfirhöfuð. Því það er yfirleitt nógu erfitt að sjá um dagskrá í útilegu og fylgjast með krökkunum.
Nú í dag fæ ég sting í magann þegar ég er að fara í útilegur með unglinga þar sem ég er búin að skipuleggja þétta dagskrá af spennandi og skemmtilegum verkefnum og þau koma að mér, búin að pakka með heimanáminu til þess að vinna í ef ske kynni að þau hafi lausa stund. Þau spyrja hvort það sé ekki í lagi að lesa aðeins fyrir svefninn eða þau hreinlega verði að klára nokkur reikningsdæmi. Mér finnst ömurlegt að unglingar hafi svo mikið heimanám að þau geti ekki farið í útilegur eða stundað tómstundir án þess að þurfa að taka það með eða stressa sig yfir að ná því ekki. Þeir kennarar sem sögðu í lok tímans fyrir helgi að þau ætluðu ekki að láta neitt heimanám fyrir helgina skutust yfirleitt á toppinn á listanum yfir skemmtilegustu kennarana.
,,Já, við erum að vinna átta tíma á dag og við förum síðan ekki heim, setjumst við matarborðið og höldum áfram að vinna í þrjá tíma í viðbót. Af hverju er þá ætlast til þess að börnin og unglingarnir geri það?” segir annar sveitarforingi við mig þegar ég minnist á við hana hvað mér finnst um heimanám. Ég hef heyrt þessa umræðu áður í samfélaginu, hvort það sé of mikið af heimanámi í skólum og hvort það ætti að minnka heimanámið eða almennt sleppa því. Oft fylgir umræðunum margar sögur af börnum eða foreldrum í stresskasti því þau eru ekki að ná að klára heimanámið eða foreldrarnir ekki að ná að hjálpa þeim. Hvað er það sem fólk óttast að gerist ef unglingar fá ekki heimanám? Missa þau allan aga og læra ekki að skipuleggja sig? Verða alveg stjórnlaus? Ná þau ekki að læra námsefnið nægilega vel?
Ég skil vel að það er gott fyrir nemendur að mæta undirbúin í tíma, vera kannski búin að lesa kaflann sem þau eru að fara yfir. En hvernig er hægt að hafa hæfilegt heimanám frá öllum kennurum og að börn og unglingar geti líka haft nægan tíma til að slappa af og stunda tómstundir, æfa íþróttir og verja tíma með fjölskyldunni sem er ekki síður mikilvægt. Því getur skólatími ekki einungis verið skólatími, frítími verið frítími og tómstundartími verið tómstundatími.
Að mínu mati fer fram jafn mikill lærdómur utan skólans og innan skólans og því alls ekki gott þegar heimanámið er að taka yfir frítíma barna og unglinga.
—
Sædís Ósk Helgadóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og skátaforingi