Frítíminn brá sér á starfsdaga SAMFÉS á Úlfljótsvatni nú í september. Meðal margra áhugaverðra erinda þar var erindi Einars Rafns Þórhallssonar, tómstunda- og félagsmálafræðings og framhaldsskólakennara, um samvinnu í hópum. Frítíminn króaði Einar af og spurði hann nánar út í erindið og áhuga hans á hópafræðunum.
Hvað er það sem heillar þig við hópa og samvinnu?
Ég er afar hrifinn af þeirri hugmynd að fólk komi saman og myndi ákveðna heild sem gerir eitthvað sem er gott fyrir þá heild og helst samfélagið eða nærumhverfið í kring. Samvinna býður einstaklingnum uppá möguleika til að spegla sig í hóp og uppgötva nýja hluti um sig sjálfan. Oft talar fólk um að það læri svo ótrúlega mikið um sig sjálft og lífið af því að vera í langtímasambandi því þá er einstaklingur stöðugt að glíma við eigin vankanta í sambandi og spegla sig í annarri manneskju. Góðir hópar gera nákvæmlega þetta líka nema að þeir bjóða uppá samspil á milli fleiri ólíkra einstaklinga sem gerir dýnamíkina stundum enn meiri heldur en í samböndum. Ég hef á fullorðinsaldri farið að líta á lífið og það sem það býður uppá sem stöðug tækifæri til þroska. Í því samhengi þá er samvinna samofið lífinu sjálfu og ég held að án hennar væri afar fátæklegt um að litast.
Víða er hópastarf notað í tómstundastarfi og innan félagasamtaka. Hvað er mikilvægast fyrir leiðbeinendur í hópastarfi að hafa til hliðsjónar?
Að þeir eru til staðar til þess að auðvelda samskipti og vera til staðar til þess að liðka um fyrir ákveðinni dínamík. Þeir eru að vernda ákveðna reynslu sem er að fæðast með samvinnunni og hópnum. Það eru náttúrulega milljón hlutir sem hægt er að hafa í huga þegar unnið er með hópa en mér finnst gott að hafa fyrst í huga hvernig ákveðnar hópatýpur virka og hvernig dínamík getur myndast í samspili á milli þeirra. Leiðbeinendur þurfa alltaf að vera á tánnum en samt reyna að halda sig á hliðarlínunni til þess að leyfa einstaklingunum innan hópsins að læra á eigin forsendum.
Nú gerðir þú rannsókn fyrir nokkrum árum sem kannaði sýn tómstundafræðinga á hópastarf. Hverjar voru helstu niðurstöður og hvernig pössuðu niðurstöður við þína reynslu og sýn af vettvangi?
Já, niðurstöður voru í nokkrum takti við þær hugmyndir og reynslu sem ég hafði en ég lagði upp með að til þess að góð samvinna næðist í hópum væri gott fyrir leiðbeinandann/auðveldarann að gera sér grein fyrir ákveðnum þáttum. Þessir þættir voru hvernig hópar þróast, þ.e stigþróun hópa, hvernig persónuleikar eru í hópum og hóphlutverk og svo hvernig hópar taka ákvarðanir. Einnig skoðaði ég fleiri þætti en lagði áherslu á þessa þrjá. Ég geri það enn þann dag í dag að hafa þessa þætti ofarlega í huga þegar ég er að vinna með hópa en út úr rannsókninni komu einnig aðrir þættir sem eru mjög mikilvægir. Þessir þættir voru t.d opin samskipti þar sem allir fá að tjá sig um málefni hópsins og er það í raun afleiðing af því t.d að nota einróma ákvörðunarferli sem ég er mjög hrifinn af. Það er ákvörðun sem er tekin eftir ákveðnum leiðum þar sem allir eru samþykkir. Einnig voru þættir eins og traust, góður leiðbeinandi, góður undirbúningur, rétt val í hópinn þar sem eru ekki of ólíkir en heldur ekki of líkir einstaklingar, hópar vinna best saman á seinni hluta líftíma síns og að þeir hópar sem vinna best saman nota einróma ákvörðun.
Það verður samt að hafa í huga með hópa að þetta eru lifandi dýnamísk fyrirbæri sem bjóða uppá svo margar mismunandi aðferðir og sumar henta einum leiðbeinanda og önnur hinum þannig að gott er að safna sem flestum aðferðum í sinn reynslubanka og geta tekið út rétt verkfæri á réttum tíma.
Frítíminn þakkar Einar fyrir spjallið og bendir á að verkefni hans til meistaragráðu við Háskóla Íslands um hópa og samstarf má nálgast hér.